Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 14:35:08 (764)


[14:35]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég er sannfærður um það að hæstv. forsrh. verður að ósk sinni um það að þetta mál mun ekki lenda milli pólitískrar sleggju og steins hér í þinginu. Það er enginn í þessu þingi sem ég tel að muni vilja gera neitt til þess að draga úr möguleikum ríkisstjórnarinnar á því að hefja uppbyggingu í Súðavík eins fljótt og auðið verður.
    Hæstv. forsrh. veit að ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að gerbreyta allri uppbyggingu á snjóflóðaeftirliti og snjóflóðavörnum á Íslandi. Ég veit að það er einhver vinna í gangi varðandi það. Ég tel nauðsynlegt að sú undirstaða sem við leggjum núna sé sem traustust og best útfærð. Ég held að ég hafi

skilið hæstv. forsrh. rétt þegar ég sagði að það lægju ekki fyrir nákvæmar áætlanir um hvernig ætti að taka á eflingu snjóflóðavarna í framtíðinni. Ég tók líka eftir því að hann var ekki alveg viss um það hversu mikinn kostnað ríkisstjórnin mun bera af tjóninu í Súðavík. Ég skil það út af fyrir sig mjög vel. En mig langar hins vegar til þess að spyrja hæstv. forsrh., til þess að greiða fyrir þessari umræðu, á hvaða áætlunum er talan 1.400 millj. kr., byggð? Er til einhver gróf áætlun um það hvers konar snjóflóðavarnir og á hvaða stöðum á að ráðast í á þessum næstu fimm árum sem 1.400 millj. eiga að nægja til framkvæmda á?