Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 14:36:49 (765)


[14:36]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. þm. undirtektir hans. Hann er afskaplega vel að sér um öll þessi mál og tók mjög virkan þátt í þeim eins og kunnugt er. Það er rétt hjá honum, það stendur yfir vinna núna og þá sérstaklega til þess í fyrsta lagi að samræma skipan þessara mála vegna þess að það orkar nokkuð tvímælis um ráðuneytaskiptingu eins og hv. þm. þekkir afskaplega vel. En vegna þessara fjármuna sem hv. þm. nefndi vil ég ítreka að í þessu falli eru menn fyrst og fremst að horfa til uppbyggingar vegna húsnæðis sem menn verða að yfirgefa. Það stóð þannig á að á öðrum stöðum heldur en í Súðavík urðu menn að vera fjarri heimilum sínum í 50--100 daga á sl. ári. Við í sælunni hér í Reykjavík eigum bágt með að skilja það að vera hrifin burt af okkar heimilum, ekki dögum saman, ekki vikum saman heldur mánuðum saman. Þetta fólk vill ekki þurfa að leggja í nýjan vetur með þessum hætti. Og ég hef tekið undir með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að við getum ekki frá þinginu gengið án þess að þetta fólk viti nokkurn veginn hvar það stendur.