Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 15:00:21 (769)


[15:00]

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir undirtektir við frv. Ég tek undir með hv. þm. að það er eðlilegt til að tryggja þá samstöðu sem verið hefur með þjóðinni um þessi mál að talsmenn stjórnarandstöðunnar og fulltrúar þeirra fái möguleika á að fylgjast náið með framvindu málsins og skal leitast við að tryggja það.
    Varðandi skattahugtakið þá vek ég athygli á því að stærstur hlutur þessarar fjármögnunar er þannig fundinn að menn taka fjármagn sem ella hefði farið í að byggja enn upp Viðlagasjóð, sem ég held að veiti ekki af að gera, gengur til þessa verkefnis núna sem um leið léttir skyldum af Viðlagasjóði vegna þess að gera má ráð fyrir ef hættumat er vísindalega grundað mat að þegar húsum er forðað af svæðum sem lúta hættumati þá minnki skylda Viðlagasjóðs sem því nemur, kannski ekki nákvæmlega í föstu hlutfalli en a.m.k. að nokkru leyti til. Ég tel því að segja megi að verulegur hluti þessarar fjárhæðar sé ekki skattur og hinn hlutinn sé tryggingaraukaiðgjald og ég held að Íslendingar séu þannig saman settir að þó við greiðum slíkt iðgjald til ofanflóðasjóðs og við sem eigum húseignir hér í Reykjavík eigum kannski ekki beint von á ofanflóði af þeim völdum, þá kynnum við sjálf, eins og hefur nýverið í umræðunni, að geta lent í því síðar meir að hér yrðu stórir atburðir á þessu svæði þá ætlumst við til þess að landar okkar annars staðar taki þátt í þeim vanda sem þá kæmi upp. Ég held að hér sé farinn millivegur. Menn eru að horfa til framtíðar. Menn eru að taka málefnalega á málum og ég vonast til þess og ég finn það reyndar á þeim umræðum sem hér hafa orðið nú að þingmenn ætla sér að taka þannig á málum.