Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 15:43:48 (776)

[15:43]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér eru til umræðu þau þrjú áfengisfrv. sem liggja nú fyrir þinginu, þ.e. breyting á áfengislögum, sem hefur verið til meðferðar í allshn. og svo þau tvö frumvörp sem hv. efh.- og viðskn. hefur haft til meðferðar, þ.e. annars vegar um sölu á áfengi og hins vegar um gjald af áfengi.
    Það eru liðnir allnokkrir dagar síðan þessi mál komu síðast til umræðu hér á Alþingi og það er alveg ljóst og vita allir sem hér eru inni, að um þessi mál er engin samstaða og finnst mörgum að það sé óþarfi að vera láta þessi mál tefja þingstörf. En það má öllum ljóst vera að um þau verður veruleg umræða á næstu dögum. Ég vil hefja þessa umræðu á því að skora á stjórnarflokkana að láta þessi mál bíða haustsins og sjá hverju fram vindur hjá eftirlitsstofnun EFTA. Ég fæ ekki séð hvað það væri verra fyrir okkur að fá einfaldlega dóm eftirlitsstofnunarinnar og dómstólsins og fá endanlega niðurstöðu í það hvernig sú stofnun telur að áfengismálum skuli vera háttað á hinu Evrópska efnahagssvæði, hvað er leyfilegt og hvað ekki. Því eitt mikilvægasta atriði þessa máls er það að þegar verið var að fjalla um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið þá var því haldið fram að það þyrfti ekki að gera hér breytingar varðandi verslun með áfengi en annað hefur komið í ljós. Ég held að það væri réttara að við fengjum einfaldlega niðurstöðu varðandi smásöluna. Stenst smásölufyrirkomulagið, eins og því hefur verið fyrir komið, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða eigum við von á því að fá breytingar á því líka. Ef svo er þá þurfum við að taka upp þá opinberu áfengisstefnu sem hér hefur verið við lýði. Það hlýtur að vera ljóst. Það kallar auðvitað á mikla endurskipulagningu, bæði á öllum forvörnum og eftirliti og meðferð löggjafans á áfengismálum. Þannig að mín skoðun er sú að það hefði einfaldlega verið rétt og ég veit að það eru margir hér innan dyra sem eru þeirrar skoðunar að við eigum bara að láta þessi mál bíða og fá álit dómstólsins.
    En þessi mál tengjast öðrum stefnumálum ríkisstjórnarinnar og reyndar fyrri ríkisstjórnar líka sem eru einkavæðingaráformin. Nú getum við deilt um það hvort verslun og viðskipti með áfengi eigi að lúta öðrum lögmálum heldur en verslun með aðrar vörur, en við byggjum hér einfaldlega á sögulegum arfi og mikilli hreyfingu, bindindishreyfingunni, sem var mjög sterk hér upp úr síðustu aldamótum og teygði arma sína vítt út um þjóðfélagið. Sú hreyfing kom því til leiðar á sínum tíma að allur innflutningur og sala á áfengi var bannað eins og ég nefndi við 1. umr. um þessi mál. Síðan urðu ýmsar ytri aðstæður til þess að slakað var á því banni, enda var það mjög umdeilt. Ég hef lýst því sem minni skoðun að ég held að slík innflutningsbönn séu einskisnýt og ýti bara undir brugg og smygl eins og reyndin varð. Reyndar þekkjum við það frá Bandaríkjunum, hve áfengisbannið sem þar var ýtti gríðarlega undir glæpastarfsemi. En við byggjum samt sem áður á þessum arfi og það var undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar og reyndar eftir

stofnun fyrstu íslensku ríkisstjórnarinnar sem ákveðið var að fyrst tóbak skyldi háð einkaleyfum, þ.e. innflutningur á tóbaki skyldi háður einkaleyfum, og 1922 var Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins stofnuð. Þannig að við erum hér að tala um mjög gamalt fyrirkomulag og við erum hér að tala um varning sem tengist mjög lifnaðarháttum Íslendinga og leiðum þeirra til þess að skemmta sér eða drekkja sorgum sínum eða hvernig sem við viljum nú orða það og máli sem er nátengt ákveðnum hugmyndum um lífið og tilveruna.
    Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sú leið sem við ættum að fara hér á landi til þess að draga úr neyslu áfengis sé annars vegar forvarnastarf en hins vegar það að reyna að breyta drykkjumunstri Íslendinga, reyna að beina neyslunni meira yfir í léttvín og þá ekki síst með verðlagningu. Þetta var aðeins reynt á tímabili en eftir því sem ég fæ best séð þá hefur lítið borið á slíkri stefnu á undanförnum árum og léttvín er hér óhóflega dýrt. Það er óhóflega dýrt ef maður hugsar verðlagninguna út frá því sjónarmiði að reyna að breyta munstrinu.
    Eins og ég var að koma hér inn á þá tengjast þessi frv., sem ættuð eru úr húsum hæstv. fjmrh., hugmyndum Sjálfstfl. fyrst og fremst um einkavæðingu. Alþfl. sætti sig við þá stefnu á síðasta kjörtímabili, reyndar voru ýmis áform þar afar umdeild, og nú fæ ég ekki betur séð en að Framsfl. sé að gleypa þau áform líka. Nú vil ég taka það skýrt fram eins og ég hef reyndar gert oft áður að það þarf auðvitað að skilgreina hvert er hlutverk ríkisvaldsins og í hvers konar ríkisrekstri það eigi að vera, hvers konar rekstri á fyrirtækjum. Við getum spurt okkur þeirrar spurningar hvort það sé yfir höfuð eðlilegt að ríkið stjórni innflutningi á áfengi. En við höfum valið þessa leið m.a. til þess að geta fylgst með innflutningi, til þess að geta stýrt verðlaginu og til þess að reyna að koma í veg fyrir óhóflega neyslu. Og það ber öllum saman um það að eins og rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hefur verið háttað þá hafi verið gætt þar fyllstu hagkvæmni í innkaupum og rekstri og að þar sé um afar vel rekið ríkisfyrirtæki að ræða.
    Þess vegna finnst mér ein meginspurningin varðandi þetta mál vera sú: Er ástæða til að breyta þessu fyrirkomulagi? Hefði verið hægt að fara aðra leið en valin er í þessum frv.? Hvað er það sem aðrar þjóðir við svipaðar kringumstæður, t.d. Norðmenn, Svíar og Finnar, hafa gert? Við höfum reyndar fengið upplýsingar um það bæði frá Svíþjóð og Noregi hvað þar hefur gerst. En mér finnst ég ekki hafa fengið svar við því þrátt fyrir þá umfjöllun sem verið hefur um þessi mál í hv. efh.- og viðskn., hvort það hefði verið möguleiki að fara aðra leið, þ.e. að breyta lögunum og sjá til þess að innflutningurinn væri áfram í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Því hefur verið haldið fram að það hefði mátt ganga skemmra, en við þessu hefur einfaldlega ekki fengist svar.
    Það sem verið er að gera með þessum breytingum er að það er verið að koma á frjálsum innflutningi og frjálsri samkeppni í innflutningi á áfengi. ef við gefum okkur að það sé ekki hægt að ganga skemmra, sem er vissulega umdeilt, þá er stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir: Hvaða áhrif hefur það að gefa innflutninginn frjálsan? Það er ákaflega umdeilt. Ég held að í sjálfu sér þá þurfi sú breyting ekki að fela í sér breytingar á því ástandi sem hér ríkir og sem margir telja reyndar að sé afar slæmt. Þá er ég að tala um forvarnir, um eftirlit og um sölu og það hvaða áhrif mjög hátt verð á áfengi hér á landi hafi á smygl og brugg, að það að gefa innflutninginn frjálsan þarf í sjálfu sér ekki að hafa nein áhrif ef rétt er að málum staðið. En það sem hefur verið bent á í þessu samhengi, þeir aðilar sem láta sig þessi mál varða, er í fyrsta lagi að með því að gefa innflutninginn frjálsan þá er verið að ýta undir það að innflytjendur grípi til ráða til að koma sinni vöru á framfæri. Það er ekki nema eðlilegt. Þannig er verið að ýta undir kynningar og auglýsingar, innan leyfilegra marka að sjálfsögðu, en jafnframt gerist það að ef eftirlitsþátturinn verður ekki því sterkari þá kann það að gerast að þessi breyttu viðskipti með áfengi hafi það í för með sér að menn eigi auðveldara með að komast fram hjá lögunum. Það er reyndar eitt af því sem hefur mikið verið rætt í þessari umræðu og við meðferð í nefndum, hvort hægt sé að koma því við að merkja vínflöskur á einhvern hátt þannig að það sé ljóst hvað er leyfilegt og hvað er ekki leyfilegt. En það er með það eins og annað að ef menn hafa vilja til þess að fara fram hjá þeim reglum þá er það auðvelt. Þegar vínið er komið á veitingastaðina þá er hægt að blanda það með vatni eða setja landa á flöskurnar. Það er svo sem allt hægt.
    En meginspurningin er hvort þessi breyting hefur það í för með sér að aðgangur t.d. unglinga að áfengi verði auðveldari og þá verðum við hreinlega að gefa okkur það að það er ekki meiningin með þessum breytingum að hér verði einhver breyting á ástandi heldur er það þá skylda okkar að grípa til nauðsynlegra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að þessi breyting verði á einhvern hátt til þess að auðvelda aðgang barna og unglinga að áfengi, sem er sá hópur sem okkur ber að hugsa um fyrst og fremst og að efla forvarnir.
    Eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið þá hafa bæði Svíar og Norðmenn gripið til þess ráðs að stórauka eftirlitið, að koma upp sérstökum eftirlitsstofnunum sem eiga að fylgjast með gangi mála. Svíar fara þá leið, sem reyndar er farin í þessum frv., að taka nokkuð hátt gjald fyrir leyfin til innflutnings á áfengi og að menn þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að mega flytja inn. Þessar upplýsingar frá Norðurlöndunum hafa haft þau áhrif hér að það hefur aðeins verið tekið á þessum málum í brtt. meiri hlutans.
    Norðmenn fara þá leið að gefa innflutning frjálsan, en jafnframt að skipta sínu einkafyrirtæki upp í þrjár deildir eða þrjú aðskilin fyrirtæki, þ.e. framleiðslu á áfengi, heildsölu og svo smásöluverslun. Þessi

skref er svo sem verið að stíga hér líka.
    En það sem er enn ein stórspurningin sem snýr að þessum málum er auðvitað að ef við ekki fáum niðurstöður dómstólsins um það hvernig þessum málum skuli vera háttað er þá nokkuð annað að gerast hér en það að hér er verið að stíga annað skrefið í átt til algerrar einkavæðingar á innflutningi og sölu á áfengi? Fyrsta skrefið var að selja framleiðsludeild ÁTVR, annað skrefið er núna það að einkavæða innflutninginn og verður ekki næsta skrefið að smásalan verði tekin fyrir? Verður það ekki næsta skrefið? Ég get ekki svarað því á þessari stundu hvort það er eitthvað sem við hreinlega ráðum við. Ráðum við við það að halda smásölunni í því formi sem hér hefur verið við lýði eða ganga tilskipanir Evrópusambandsins hreinlega í þá átt og niðurstaða dómstólsins að því formi verði að breyta líka? Það verður ekki annað séð á því plaggi sem kom frá eftirlitsstofnuninni en að það eigi í framhaldinu að skoða það eða eins og kemur fram í nál. hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur við málið um breytingu á áfengislögunum, að hún vitnar þar í þetta plagg frá eftirlitsstofnuninni, en þar er skýrt tekið fram að þó þetta mat, þ.e. mat eftirlitsstofnunarinnar, fjalli eingöngu um heildsölu og innflutning á áfengi sé ekki þar með sagt að skipan smásöluverslunarinnar hér á landi sé í lagi. Þetta kemur fram í áliti eftirlitsstofnunarinnar og í rauninni erum við bara komin að því að ræða það hver áfengisstefnan eigi að vera hér á landi. Hvaða form viljum við hafa á þeim málum? Eins og ég nefndi hér áðan, ef það er meiningin að með áfengi skuli farið eins og hverja aðra vöru þá verðum við að bregðast við því og taka á öllum þeim hliðarverkunum sem það hefur og efla þar með forvarnir og eftirlit.
    Ég vil minna á það í þessu samhengi að þeir sem komu á fund efh.- og viðskn. höfðu ýmsar athugasemdir fram að færa. Það eru margar hliðar á þessu máli og ein þeirra er sú sem snýr að starfsmönnum ÁTVR. Það má nokkuð ljóst vera að verði af þessari einkavæðingu eða þessum breytingum á heildsölunni þá þýðir það breytingar á starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.
    Starfsmennirnir hafa bent á að þetta geti þýtt allt upp í 15 manna fækkun á starfsliði og ég hlýt í því samhengi að nefna það enn einu sinni að það hafa verið miklar deilur um þá einkavæðingu sem átt hefur sér stað á ríkisfyrirtækjum og þar standa yfir málaferli. Þar er engin niðurstaða komin varðandi réttindi starfsmanna. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., sem er yfirmaður Áfengis- og tóbaksverslunarinnar: Hvernig sér hann þessar breytingar fyrir sér? Hvaða áhrif telur hann að þessar breytingar muni hafa á starfsemi ÁTVR? Sér hann það fyrir sér, sem starfsmennirnir hafa haldið fram, að starfsmönnum muni fækka? Nú er meiningin samkvæmt þessum tillögum sem hér liggja fyrir að breyta allverulega skipulagi Áfengis- og tóbaksverslunarinnar. Það á að skipta fyrirtækinu upp í heildsölu og smásölu og ég vil taka það fram að ég er því fylgjandi. Ég tel að það sé rétt að gera það, ekki síst í ljósi þessara breytinga og hugsanlega ef það gæti orðið til þess að koma í veg fyrir frekari skref í þá átt að smásala verði tekin fyrir og okkur gert að breyta henni þannig að það megi selja áfengi hvar sem er. Ég vil taka það fram að ég er á móti slíkri breytingu vegna þess að ég verð að viðurkenna það eins og fleiri þingmenn sem hafa búið erlendis, að ég veit að það leiðir til aukinnar neyslu á áfengi. Það er bara staðreynd. Þannig að ef okkar stefna er sú að draga sem mest úr áfengisneyslu þá er ein leiðin sú að reyna að gera fólki heldur erfiðara fyrir að nálgast vín. En sjálfsagt kemur það ekki í veg fyrir það að þeir sem ætla að fá sér í glas gera það. Ég kannast við það frá þeim tíma þegar ég bjó í Danmörku að það er ákaflega mikil freisting þegar maður fer að kaupa í matinn og gengur fram hjá rauðvínshillunum að taka eina flösku með.
    Nú hristir klerkurinn sem hér á sæti höfuðið og hugsar til sálmaskáldsins sem orti: ,,Við freistingum gæt þín.`` En það er oft erfitt að standast freistingarnar og það getur komið að falli. Það er aftur annað mál.
    Það sem ég er að reyna að segja með þessum hugleiðingum mínum er það að mér finnst við í rauninni standa frammi fyrir því að skoða það og ræða í mikilli alvöru hver stefnan eigi að vera í áfengismálum. Því þó ég segi að ég vilji ekki gera breytingar á því smásölufyrirkomulagi sem hér er þá verð ég jafnframt að viðurkenna að mér er óskaplega illa við að vera að hafa vit fyrir fólki. Fólk á að hafa vit fyrir sér sjálft og ráða sínum gjörðum. Hins vegar er það annað mál að þegar það snertir heilsu fólks og heilsu annarra, framkomu við annað fólk og félagsleg vandamál, þá ber okkur skylda til að taka á þeim málum. Við vitum að við erum hér að ræða um efni sem hefur í för með sér skaðlegar afleiðingar fyrir heilsu fólks, sem hefur áhrif á sálarástand einstaklinganna, sem leiðir af sér ofbeldi og kostar þjóðfélagið gríðarlegt fjármagn. Þannig er ákveðinn tvískinnungur í þessu. Annars vegar erum við, ríkið, að flytja inn áfengi sem við vitum að er heilsuspillandi, þó því fylgi nú oft á tíðum líka nokkur gleðiauki, og ríkið leggur mikinn skatt á þessa vöru, en verður jafnframt að verja miklu fjármagni til þess að taka á afleiðingum þessa innflutnings.
    Við öfluðum okkur upplýsinga um það í efh.- og viðskn. hversu miklir peningar færu hér í forvarnir og meðferð á áfengissjúklingum. Það kemur fram í minnisblaði sem við fengum frá heilbrrn. að það er hvorki meira né minna en tæplega hálfur milljarður kr. sem fer í áfengisvarnir sérstaklega. Þetta er engin smáupphæð, en ef ég man rétt þá eru tekjurnar af Áfengis- og tóbaksversluninni margir milljarðar. Þar er reyndar tóbakið inni í, sem að mínum dómi er mikið verra mál og algert skaðræði.
    Það hafa komið fram ákaflega athyglisverðar upplýsingar um það að á meðan dregið hefur verulega úr áfengisneyslu í ýmsum löndum Evrópu, m.a. löndum Evrópusambandsins, þá hefur áfengisneysla

aukist bæði hér á Íslandi og eins í Finnlandi. Það hefur orðið veruleg aukning á neyslu áfengis. Og það er stór spurning hvernig á þessu stendur. Hvað er það sem veldur? Eru það forvarnirnar eða er það menntun fólksins sem hefur brugðist eða erum við t.d. að horfa þarna á afleiðingar atvinnuleysisins sem hér hefur herjað nú um nokkurra ára skeið? Er verið að halda áfengi beint og óbeint að fólki hér eða hvað er það sem veldur? Mér fyndist ástæða til þess fyrir hv. heilbrrh., sem er ekki viðstaddur þessa umræðu, að kanna þessi mál rækilega, hvernig á þessu stendur. Í því samhengi vil ég minna á að nú um helgina bárust þau tíðindi að landlæknir varaði við þessum breytingum, hann teldi að hér gæti verið um breytingar að ræða sem hefðu aukna áfengisneyslu í för með sér og það er, eins og ég hef áður nefnt, sú stóra spurning sem við stöndum frammi fyrir. Hvaða afleiðingar hafa þessar breytingar og hvernig getum við brugðist við fyrir fram til að koma í veg fyrir að þær verði alvarlegar?
    Ég vil aðeins víkja að þeim brtt. sem liggja hér fyrir og ganga sem betur fer flestallar í þá átt að reyna að ýta undir forvarnir og eftirlit. Þar er verið að bregðast við þeim athugasemdum sem fram hafa komið við þessi frv. Þar er fyrst að nefna þær brtt. sem koma frá allshn. og snúa að því að herða reglur um innflytjendur eða réttara sagt að gera kröfur til innflytjenda. Það er ljóst að menn verða að hafa leyfi til innflutnings, þ.e. heildsöluleyfi, til að mega fara út í innflutning á áfengi og tóbaki. En eins og frv. birtust hér fyrst þá varð ekki annað skilið en að það gæti nánast hver sem er farið út í innflutning á áfengi.
    Það er tekið hér á ýmsum öðrum hlutum eins og framleiðslunni og auknu eftirliti á veitingastöðum og heimild til lögreglumanna. Það er verið að festa í lög heimild til lögreglumanna til að gefa sérstakar gætur að starfsemi þeirra sem heimild hafa til framleiðslu eða sölu áfengis. Það var nefnt hér í umræðunni að slíka heimild hefði skort. Ég veit nú svo sem ekki hvaða gildi slíkar heimildir hafa. Á það hefur verið bent í meðferð þessa máls að það sé eins og allar kærur stoppi hjá lögreglunni, strandi hjá lögreglunni, málum sé ekki fylgt eftir. Þetta er mál sem hæstv. dómsmrh. þarf að fara ofan í. Er það staðreynd að lögreglan fylgi ekki eftir kærum sem henni berast um brot á áfengislögum? Er það staðreynd? Ef svo er: Hvernig stendur á því? Er það vegna skorts á mannafla hjá lögreglunni eða er þar eitthvað annað á ferð? Mér finnst þetta vera nokkuð sem við þurfum að fá upplýst í þessari umræðu, hvernig stendur á þessum, en gefur auðvitað auga leið að það er ekkert auðvelt verk að hafa eftirlit með öllum þeim gríðarlega fjölda veitingastaða sem eru t.d. hér í Reykjavíkurborg. En það þarf að gera það hvort sem er og það sem hefur einmitt verið bent á í þessari umræðu er það að með því að hafa eitt sölukerfi ÁTVR þá hafa menn getað fylgst miklu betur með þessu eftirliti. Menn taka eftir því þegar einhver ákveðinn kaupandi, sem er í reglulegum viðskiptum við áfengisverslunina, hættir allt í einu að kaupa vodka og þá vekur það einmitt ákveðnar grunsemdir.
    Í brtt. allshn. er einnig tekið á auglýsingamálum. Þar er reynt að herða á auglýsingamálum. En mér þætti gaman að vita hvort þetta bann okkar við áfengis- og tóbaksauglýsingum muni standast til lengdar. Eftir því sem ég best veit þá er þetta alveg einstakt fyrirbæri. Ég veit ekki til þess að áfengisauglýsingar séu bannaðar í nokkru öðru ríki. Það kann að vera í Noregi, ég þekki það ekki, en mér vitanlega er þetta býsna sérstakt. Það verður gaman að sjá hvort eftirlitsstofnun EFTA á ekki eftir að gera athugasemdir við þetta. Stenst þetta? Ég einfaldlega geri mér ekki grein fyrir því. Teljast það ekki óeðlilegir viðskiptahættir og brot á eðlilegri samkeppni að mönnum sé bannað að auglýsa? Vegna þess að við vitum að það sem er að gerast hér og veldur því að það verður löng umræða um þessi mál hér á landi eru ekki bara hagsmunir starfsmanna ÁTVR heldur er hér að eiga sér stað ákveðinn menningarárekstur. Það eru að mætast hér ólíkir heimar norðurs og suðurs og þeir sem byggja Suður-Evrópu geta ekki með nokkru einasta móti skilið svona reglur og lög eins og hér gilda, að það sé t.d. bannað að auglýsa rauðvín og hvítvín, sem ósköp einfaldlega bara tilheyrir daglegum mat hjá íbúum í stórum hluta Evrópu. Þannig er það gildismat Mið- og Suður-Evrópu sem ræður ríkjum hjá Evrópusambandinu og væri fróðlegt að sjá hvort þetta auglýsingabann, þó það sé rökstutt með svona heilsufarslegum rökum, muni standast til lengdar.
    Eins og ég hef komið hér inn á hefur öll þessi umræða leitt til þess að hér liggur fyrir brtt. frá hv. efh.- og viðskn. um sérstakan forvarnasjóð. Sá sjóður hefur þann tilgang að stuðla að áfengisvörnum. Að mínum dómi er hér verið að stíga skref í rétta átt og samkvæmt því sem fram kom við vinnslu þessarar tillögu þá þýðir þetta að samtals verði varið u.þ.b. 50 millj. kr. til forvarna. Það eru ekki miklir peningar, en það er hægt að nýta þá vel og þetta er alla vega skref í rétta átt og ég lýsi yfir stuðningi mínum við þessa tillögu.
    Þá ætla ég aðeins að koma að enn einni brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn., sem snýr að því að breyta skipulagi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og setja henni stjórn. Eins og ég nefndi áðan þá tel ég rétt skref að skipta þessari ríkisstofnun upp í deildir og ég held að það sé eðlilegt og muni auðvelda skipulag og vinnu í þeirri stofnun. En það er þetta með stjórnina. Að mínu mati er hér um mjög ófullkominn lagatexta að ræða, svo maður skoði nú bara fyrst textann svona tæknilega séð. Og það að hér er ekkert kveðið á um hlutverk stjórnarinnar, hverjir skuli skipa hana og hvernig hún skuli starfa eða hversu fjölmenn hún á að vera, mér finnst þetta mjög ófullkomin lagasetning og óviðunandi og, eins og reyndar hefur verið bent á, að ráðherra á að setja með reglugerð nánari ákvæði um skipulag stjórnarinnar, ekki um hlutverk stjórnarinnar heldur um skipulag. Ég held að við verðum að breyta þessu orðalagi, hvort sem við erum sammála því að setja stjórn yfir stofnunina eða ekki.
    Ég held reyndar að við hljótum að þurfa að skoða þetta í samhengi við aðrar ríkisstofnanir. Er eðlilegt að setja stjórn yfir stofnun af þessu tagi og hvaða ríkisstofnanir eru þarna sambærilegar? Á það hefur verið bent að verið sé að gera verulegar skipulagsbreytingar á þessu fyrirtæki og það sé verið að gera ríkisstofnun að fyrirtæki sem annast verslun og viðskipti í stað þess að vera fyrst og fremst við innheimtu skatta. Það er alveg ljóst að það er verið að gera slíkar breytingar. Þá kemur spurningin: Er eðlilegt að slíkt fyrirtæki hafi yfir sér stjórn? Í sjálfu sér held ég að það kunni að vera eðlilegt í ljósi þessara breytinga.
    En það sem er gagnrýnivert er það að koma með svona tillögur algjörlega fyrirvaralaust án þess að það sé á nokkurn hátt rætt við þá sem stjórna þessari stofnun og í rauninni algerlega óviðunandi að forstjórar ríkisstofnana skuli frétta það í fjölmiðlum að þeir séu að fá yfir sig stjórn. Mér finnst mjög slæmt að það skyldu ekki eiga sér stað viðræður við Höskuld Jónsson, forstjóra ÁTVR, áður en þessi tillaga kom fram, því eins og hann sagði á fundi efh.- og viðskn. þá kom þetta honum mjög á óvart og hann spurði eðlilega: Hef ég brotið eitthvað af mér? Er einhver ástæða til að setja stofnunina núna undir eftirlit? Þetta er mjög gagnrýnivert hvernig hér er að verki staðið. En í ljósi þeirra breytinga sem verið er að gera á stofnuninni þá kann það að vera eðlilegt að skipa slíka stjórn. Okkur hefur bara einfaldlega ekki gefist tækifæri til þess að skoða þetta atriði betur. Þessi tillaga kom fram fyrir nokkrum dögum og það kom öllum mjög á óvart.
    Ég vildi gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh.: Sér hann þetta svona eins og ég hef hér lýst, að það sé verið að gera þessar breytingar á þessu ríkisfyrirtæki, í rauninni að breyta stofnun í fyrirtæki, sem eigi þá að hafa yfir sér stjórn eins og önnur sambærileg fyrirtæki eða er þetta bara skref til einkavæðingar? Það gefur auga leið að við það að setja stjórn yfir Áfengis- og tóbaksverslunina þá verður náttúrlega næsta skef, að breyta fyrirtækinu í hlutafélag, mun auðveldara. En við sitjum uppi með það að við verðum að standa við EES-samninginn, en eins og ég hef margoft komið inn á þá er það umdeilt hvort hér sé ekki verið að ganga óþarflega langt.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég sé búin að koma inn á flest það sem mér finnst skipta máli í þessu samhengi. Það sem veldur mér ákveðnum erfiðleikum í þessu er það hversu illa gengur að fá svör við spurningum eins og þeim hvort það hefði verið hægt að ganga skemmra og hvers vegna eigum við þá ekki að stíga skrefið til fulls og fá einfaldlega á okkur dóm eftirlitsstofnunarinnar þannig að við getum skoðað þetta mál allt saman í samhengi? Ég verð að segja að mér finnst ekki ástæða til að vera að afgreiða þessi mál hér á þessu þingi heldur, eins og ég segi enn og aftur, einfaldlega að fá það á hreint hvert skipulag þessara mála má vera samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins, sem við neyðumst til að segja okkur undir og þá jafnframt hvort hugsanlegt er að ná fram einhverjum breytingum á því. Ég á nú ekki von á að það sé hægt.
    Ég vil ítreka það að ég held að sú breyting ein og sér, að gefa innflutninginn frjálsan og að menn þurfi einfaldlega heildsöluleyfi til að stunda innflutning, þurfi ekki að hafa nein óæskileg áhrif ef rétt og vel er staðið að eftirliti að öðru leyti og ef við tökum nú það verkefni alvarlega að efla forvarnir og reynum að ná því markmiði sem alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sett, að draga úr áfengisneyslu í stað þess að auka hana eins og hér hefur verið gert. Þetta er ákveðið þjóðfélagslegt vandamál sem við eigum þarna við að glíma. Það er umdeilt hvernig að þessum málum skuli staðið, en það hlýtur að vera hlutverk ríkisvaldsins og þar með talið Alþingis, að sjá til þess að heilsa þjóðarinnar sé sem best og að fólk viti hvað það er að gera. Að öllum sé ljóst hvaða hættur fylgja ofneyslu áfengis eða óæskilegri neyslu áfengis. En jafnframt verðum við að beygja okkur undir það að standa við þá alþjóðasamninga sem við höfum gert. Það er ósköp einfalt mál.
    En enn og aftur, herra forseti, mér finnst að við eigum að fá niðurstöðu eftirlitsstofnunarinnar og dómstólsins varðandi það hvernig þessum málum skuli og megi vera háttað hér á landi.