Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 16:28:38 (778)


[16:28]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég gat ekki skilið þær umræður sem urðu í hv. efh.- og viðskn. öðruvísi en þannig að þessar tillögur hefðu alla vega komið forstjóra ÁTVR mjög á óvart, þó það kunni að vera að hann hafi fengið að vita um þær eitthvað, ja alla vega á undan okkur í nefndinni.
    Það sem ég vil gera athugasemdir við er í fyrsta lagi hvernig þessi tillaga var upphaflega orðuð. Meiri hlutinn gerði reyndar breytingar á því. Mér finnst samt sem áður að lagatextinn eins og hann lítur út núna sé ekki nógu ákveðinn og það sé ekki ljóst um hvað hæstv. ráðherra á að setja reglur.
    Ég vil líka rifja það upp í þessu samhengi að það kom fram að stjórnir áfengisverslananna á Norðurlöndum þykja með allra fínustu stjórnum og halda helst ekki fundi nema í köstulum á Norðurlöndum og það eru yfirleitt fyrrv. forsetar þinga og slíkar persónur sem sitja í þessum stjórnum. Ég ætla að vona að það eigi ekki að fara að búa til neitt slíkt apparat hér.
    En ég vil bara ítreka það að með þeim breytingum sem verið er að gera á stofnuninni, ef þær ná fram að ganga, þá er alls ekki óeðlilegt að fyrirtækið fái yfir sig stjórn.