Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 17:15:13 (784)


[17:15]
     Ögmundur Jónasson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hið almenna er að áfengi er merkt. Hið almenna er í verslun með áfengi að þar er hver flaska merkt. Það sem kom fram hjá víneftirlitsmönnum er að það þyrfti að auka og herða á þessum merkingum. Það þyrfti jafnvel að brennimerkja dagstimpla inn á það. Það sem við höfum verið að benda á er að það er auðveldara að gera þetta á einni hendi heldur en dreift. Ég spurði t.d. áðan hvort hæstv. ráðherra væri að tala um að fá alla áfengisframleiðendur í landinu til að senda birgðir sínar inn til tollsins eða hvar á að gera þetta? Mér er spurn.
    Það sem menn hafa sagt jafnframt er að upplýsingar sem hafa komið til skattsins, þegar misbrestur hefur orðið á eða þegar um svindl er að ræða, eru til orðnar iðulega vegna þess að ÁTVR hefur yfirsýn yfir öll viðskipti í viðkomandi veitingahúsum. ÁTVR hefur yfirsýn yfir öll viðskiptin og sér þegar ein tegund dettur út eða minnkar í hlutfalli við neyslu á öðrum drykkjum. Þannig hafa menn sagt að kosturinn við að hafa þetta dreifingarkerfi í höndum ÁTVR sé einmitt þessi miðstýring. Það sé auðveldara að hafa yfirsýn yfir það sem er að gerast. Í annan stað hefur verið bent á það að skilin á milli smásöluverslunar og heildsöluverslunar kunni að verða óljósari að ýmsu leyti. En hinu hafa menn kvartað yfir líka að það hafi verið brögð að því að þeir sem eru með veitingarekstur hafi farið í áfengisverslanir og keypt þar í smásölu og farið síðan með þetta inn á barina og selt með álagningu. Þetta er nokkuð sem breytist í rauninni ekki við þetta.