Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 17:23:12 (789)


[17:23]
     Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil að fá að nota þetta tækifæri til andsvars til þess að reyna að svara hér þeim spurningum sem hv. þm. spurði um. Það kann að vera að síðar í umræðunni geti ég komið frekar inn í það og svarað nánar ef hv. þm. sættir sig ekki við svarið.
    Það er rétt, eins og fram kom hjá hv. þm., að landlæknir leggst ekki gegn frv. sem slíku. Hann varar hins vegar við afleiðingunum sem af því geti hlotist, sé um aukið framboð að ræða. Þetta kemur fram í greinargerð landlæknis til hv. heilbr.- og trn. frá 7. júní. Nú er það hins vegar svo að talsvert hefur gerst í þessum málum síðan þessi greinargerð var send frá embættinu og m.a. það, og kom fram í máli hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur áðan, að hér munu verða lagðar fram tillögur um stofnun forvarnasjóðs sem gert er ráð fyrir að hafi til ráðstöfunar 25--30 millj. kr. Það eru meiri fjármunir, held ég að mér sé óhætt að fullyrða, heldur en nokkurn tíma fyrr hafa verið settir í forvarnir á þessu sviði áður. Menn eru því að stíga mjög mikilvægt skref í þeim efnum.
    Ég átti samtal við landlækni fyrir nokkrum mínútum. Hann sagði mér þá að þegar þessi grein hans var skrifuð og þessar athugasemdir hans voru fram settar þá hafi þetta ekki legið fyrir. Hann sagði mér jafnframt að hann hefði látið hafa það eftir sér í fjölmiðlum að þetta breytti talsverðu í þessum efnum.
    Varðandi annað atriði er spurt var um, um tóbaksvarnirnar og vímuefnavarnirnar, þá hefur komið fram hjá heilbr.- og trmrh. að ráðherrann hyggst flytja frv. um áfengis- og vímuefnavarnir á haustþingi.
Einnig hefur komið fram að það er meiningin að flytja hér frv. um tóbaksvarnir með svipuðum hætti og fyrri ríkisstjórn flutti og barðist fyrir og munaði litlu að hér yrði samþykkt. Þannig að það er margt, hv.

þm., sem menn eru að vinna að í þessum efnum til þess að spyrna við fótum, til að draga úr tóbaksnotkun og eins til að draga úr áfengisneyslu. En eins og ég segi, hv. þm., ég er tilbúinn til að reyna að svara frekar, ef þetta er ekki fullnægjandi svar, síðar við umræðuna.