Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 17:29:21 (792)


[17:29]
     Ögmundur Jónasson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta skuli vera á þennan veg, að það stendur sem áður hefur komið fram, að landlæknir leggst gegn samþykkt þessa frv. ( Gripið fram í: Hann varar við.) Ja, við skulum hafa það svo, svo að það fari ekkert á milli mála, ef samþykkt framangreinds frv. verður til þess að auka framboð og neyslu áfengis, sem margt bendir til að verði, leggst landlæknisembættið á móti samþykkt þess.
    Ég veit að það eru ýmsir sem hlæja að þessu. Menn hlæja líka kannski að Vímulausri æsku, Heimili og skóla, áfengisvarnaráði. Öll helstu almannasamtökum í landinu sem láta þessi mál til sín taka eru bara virt að vettugi. En Kaupmannasamtök Íslands og Verslunarráðið, menn bugta sig í duftið fyrir þessum aðilum og skjálfa í hnjáliðunum yfir skipunum og tilskipunum frá Brussel. Ég vek athygli á því að fyrir þá sem hafa efasemdir um að það kunni að vera einhver álitamál uppi í þessum efnum gagnvart þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum tekist á herðar þá mun koma fram brtt. frá mér og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þar sem tekið verður á þeim málum. En heppilegustu leiðina teldi ég að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar aftur þannig að hún endurskoðaði þessi mál og reyndi að vinna heimavinnuna sína svolítið betur, en stæði ekki hér á gati í öllum efnum.