Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 18:51:17 (804)


[18:51]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki mikill tími hér til þess að fara nákvæmlega ofan í saumana á fyrirspurn hv. þm. aftur. Ég minni þó á að þetta snýst ekki um Fríhöfnina, þó að þar sé ekki um merkingar að ræða, heldur um það m.a. að í sérpantanakerfi ÁTVR eru flöskurnar ekki merktar og það hafa í vaxandi mæli verið þær flöskur sem fara til smásölu í vínveitingahúsum.
    Í öðru lagi er minni vandi að fylgjast með því hvernig kaupin gerast á eyrinni og hverjir kaupa og selja þegar gerður er munur á annars vegar heildsölunni og hins vegar smásölunni.
    Varðandi starfsfólkið, þá ætla ég að lesa hérna fréttatilkynningu frá starfsfólkinu, með leyfi forseta:
    ,,Starfsfólk ÁTVR getur ekki gleymt því þegar fjmrh. skipaði nefnd til að gera tillögur um hvernig rekstri ÁTVR skyldi hagað í framtíðinni. Í þeirri nefnd sátu fulltrúar þeirra aðila sem mestan hag hafa af því að leggja ÁTVR niður.``
    Þetta er það sem starfsfólkið sagði. En það sagði hins vegar ekki að í nefndinni sat forstjóri ÁTVR. ( ÖJ: Hverjir voru hinir?) Ég man að formaður nefndarinnar var Júlíus S. Ólafsson. (Gripið fram í.) Ég man það ekki nákvæmlega, það hefur hann sjálfsagt verið á þessum tíma. Hann er núverandi forstjóri hjá ríkisfyrirtæki og er alls ekkert lengur formaður Tollvörugeymslunnar.
    Svo ætla ég að bæta við: Það var þriggja manna nefnd sem samdi þau lagafrumvörp sem við erum nú að fjalla um. Hverjir voru þessir menn? Það var í fyrsta lagi Snorri Olsen, núverandi ríkisskattstjóri. Í öðru lagi Ari Edwald, aðstoðarmaður dómsmrh. Hann flutti eitt frv. hér inn á þingið. Og í þriðja lagi Höskuldur Jónsson, forstjóri fyrirtækisins. Og ég segi: Menn geta ekki leyft sér þrátt fyrir það að vera starfsmenn í þessu fyrirtæki að láta líta svo út sem það sé eingöngu verið að skipa fólk sem fari gegn hagsmunum starfsmanna fyrirtækisins þegar í báðum tilvikum forstjóri fyrirtækisins á sæti í nefndunum.