Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 19:00:30 (809)


[19:00]
     Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég vakti athygli á því fyrr í dag að þinghald hefði verið nokkuð stíft undanfarna daga og nauðsyn bæri til þess að menn reyndu að semja um það þinghald sem eftir er. Viðræður hafa ekki farið mikið fram um það efni og ég vil vekja athygli á því að engir samningar hafa verið gerðir um að halda kvöldfund í kvöld. Ég minni á að það var kvöldfundur í gær og það var viðtekin regla fyrir nokkrum árum þegar Sjálfstfl. var síðast í stjórnarandstöðu að hann þoldi ekki að haldnir væru kvöldfundir tvö kvöld í röð, svo að ég nefni nú fordæmi sem þeir gáfu meðan þeir sátu utan ríkisstjórnar. Ég vísa til þeirrar hefðar sem þá var og fer fram á það, virðulegi forseti, að forsetar beiti sér fyrir því að viðræður verði teknar upp í kvöldmatarhléi um þinghaldið og að samningar verði gerðar um það hvernig því verður háttað í kvöld og á morgun. Ég tel óviðunandi að ekki skuli vera rætt við stjórnarandstöðuna af neinni alvöru um hvernig þinghaldinu verði háttað á næstu klukkutímum eða næsta sólarhringinn.