Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 21:34:04 (814)


[21:34]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er eins og stundum vill verða þegar verið er að fjalla um mál sem tengjast hinu Evrópska efnahagssvæði að þessi ræðustóll verður heldur lítilfjörlegur til að koma fyrir þeim málsgögnum sem menn þurfa að hafa þó að aðeins sé tekið lítið brot til þess að styðja mál sitt og er það nokkurt óhagræði. Í rauninni, virðulegi forseti, ætti það að vera verkefni forsætisnefndar þingsins að endurhanna aðstöðu fyrir þingmenn eftir að þeir eru komnir inn í þær aðstæður sem meiri hluti á Alþingi setti menn í á sínum tíma þegar við vorum sett inn í hið Evrópska efnahagssvæði og gert að skyldu að ræða mál á Alþingi út frá Rómarrétti öllum saman og þeim gögnum sem ungað hefði verið út á vegum Evrópusambandsins í gegnum árin, stofnana þess, framkvæmdastjórnar, ráðherraráðs, ekki síst dómstóls sem í rauninni er eitt mest afgerandi löggjafarvald Evrópusambandsins eins og kunnugt er. Það er ekki aðeins svo að það séu embættismenn sem einir mega gera tillögur að lagafrumvörpum, 17 embættismenn, sem kallaðir eru kommissarar í Brussel, sem eiga að gera tillögur að lagafrumvörpum, aðrir eru það ekki og ráðherraráð aðildarlanda sem um það fjallar og þingið hefur ekkert um það að segja nema aðeins fjárlög sambandsins og getur sett inn bænaskrár eins og við Íslendingar máttum gera áður en við fengum fullveldi á sínum tíma og áður en það var skert. Þessum aðstæðum hefur nú verið þröngvað upp á Íslendinga. Við höfum nú verið njörvuð við kerfi með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði sem gerir það að verkum að sú virðulega stofnun, sem við erum kjörnir til, Alþingi Íslendinga, hefur misst sjálfræði sitt á þýðingarmiklum sviðum þjóðmála, svo ekki sé sagt þýðingarmestu sviðum þjóðmála, því að ég held að það megi gild rök færa fyrir því að það sem heyrir undir samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði sem er eins og kunnugt er í um 130 greinum en síðan studdur af um 20 þúsund blaðsíðum af efni sem hefur ígildi laga og við erum bundin af. Við þyrftum í rauninni, virðulegi forseti, að geta haft fyrir okkur þegar við erum að ræða mál af þessu tagi, mál sem snertir sjálft dómskerfi Evrópusambandsins, að geta haft aðgang að dómasafni þess vegna þess að það eru túlkanir á dómum sem eru síst þýðingarminni en hin skrifuðu lög. Dómstóll eins og í Lúxemborg, dómstóll Evrópusambandsins eins og ég gat um, þróar réttarkerfi Evrópusambandsins, hann setur í rauninni lög eða ígildi laga með dómum sínum þannig að ekki verður fram hjá gengið eins og við þekkjum úr dómskerfinu og hann dæmir ekki út frá bókstaf. Það er einkenni þeirrar stofnunar. Hann dæmir ekki út frá bókstaf heldur út frá markmiði og það er eitt af því sem gerir réttarkerfi Evrópusambandsins allt annars eðlis en það réttarkerfi sem við erum vön á Íslandi. Við erum vön því að dómstólar dæmi út frá skráðum texta, út frá lögum, út frá hlutlægum lagabókstaf en dómstóll Evrópusambandsins dæmir út frá markmiðum þess, markmiðunum um samruna, markmiðunum um að greiða götur fjórfrelsisins og þróa það. Það er eðli þessa kerfis sem við höfum verið sett undir með aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði.
    Virðulegi forseti. Í rauninni er ekki hægt að hugsa sér öllu vesælla hlutverk þjóðar, sem vill telja sig sjálfstæða, en að vera bundin inn í slíkt kerfi, dregin þar varnarlaus á asnaeyrunum án þess að menn hafi í rauninni hugmynd um það fyrir fram og geti vörnum við komið svo lengi sem þeir ætla að hlýða. Nú er svo komið að ríkisstjórn Íslands sem bar það fram, hin fyrri og hefur nú verið endurnýjuð af Sjálfstfl. með Framsfl. innan borðs, sem virðist una sér allvel í þessu samkvæmi enda sá minni hluti sem var og sat hjá við gerð samningsins um Evrópskt efnahagssvæði nú orðinn meiri hlutinn í forustu Framsfl. og algerlega ráðandi í forustu Framsfl. Þeir aðilar sem voru efnislega sammála því að við færum inn í þetta kerfi og greiddu götu þess með því að sitja hjá við endanlega afgreiðslu á Alþingi Íslendinga eru nú orðnir hluti af ríkisstjórn landsins og ég held að það sé ekki ósanngjarnt að telja að þeir séu samstæðari um það í þeim flokki en þingmenn þingliðs Sjálfstfl. að fylgja í hólf og gólf út í æsar því reglukerfi sem sett hefur verið í kringum samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég held að það megi orða það svo að hin nýja forusta Framsfl. sé kaþólskari en páfinn ef Sjálfstfl. ætti að teljast páfinn í þessum efnum en það væri nú betur að Sjálfstfl. væri páfinn. Svo er því miður ekki. Páfinn er nefnilega í Róm og það tengist í raun Rómarréttinum sem er stjórnarskrá Evrópusambandsins og okkur er ætlað að fylgja.
    Virðulegur forseti. Þetta tel ég rétt að rifja upp í upphafi máls míns í sambandi við 2. umr. um þau frumvörp sem hér hafa verið lögð fram og gera ráð fyrir breytingum á stjórnkerfi Áfengisverslunar ríkisins og starfsemi Áfengisverslunar ríkisins vegna þess að meginástæðan fyrir þessum málum fyrir einlægan vilja núv. hæstv. fjmrh. og skoðanabræðra hans í Framsfl. að einkavæða sem flest fyrirtæki í landinu alveg án tillits til afleiðinga þess. Það er einfaldlega trú á þeim bæ hjá þeim hluta af Sjálfstfl. að standa þannig að máli. Þess vegna liggja fyrir þau mál sem nú eru komin til 2. umr. um breytingar á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins þrátt fyrir það sem fylgdi samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði af hálfu þeirra sem báru hann fram og við ræddum hér, virðulegi forseti, við 2. umr. málsins. Yfirlýsingum, bókunum og staðhæfingum var m.a. dreift inn á hvert heimili í landinu á kostnað ríkisins á vegum hæstv. þáv. utanrrh. þess efnis að ekki væri hin minnsta ástæða til þess að ætla að hrófla þyrfti við því sölukerfi á áfengi sem hér hefur verið túlkað.
    Ég rifjaði það upp, virðulegur forseti, við 1. umr. málsins og vil nefna það aðeins sér að þær yfirlýsingar, sem íslenska ríkisstjórnin lét sig hafa að gerast aðili að með hinum ríkisstjórnum Norðurlanda, kunna að hafa skipt sköpum um það að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði komst á. Það er auðvelt að sýna fram á það eins og staðan var í Noregi í þessu máli þar sem þurfti mjög aukinn meiri hluta norska Stórþingsins til þess að samþykkja málið. Á norska Stórþinginu gátu 42 þingmenn brugðið fæti fyrir samninginn og þar var norski kristilegi flokkurinn í lykilstöðu og sá flokkur hefur mjög ákveðna og einarða stefnu í áfengismálum. Það verður að teljast ólíklegt og ég vil segja útilokað, það er mitt mat, að sú niðurstaða hefði fengist í kristilega flokknum í Noregi að styðja samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði ef það hefði legið fyrir sem mat aðila og verið viðurkennt að líkur væru á því að breyta þyrfti í grundvallaratriðum stjórnkerfi og sölukerfi áfengis þar í landi. Ef Noregur hefði skorist úr leik þá geta menn leitt að líkum hvað orðið hefði um afdrifin af þessum dæmalausa samningi um hið Evrópska efnahagssvæði. Þá værum við ekki að ræða málið á grundvelli þeirra frumvarpa eins og þau eru rökstudd af hæstv. ríkisstjórn. Þá værum við kannski að fjalla um frv. frá einkavæðingarákafri ríkisstjórn sem vildi breyta þessu ríkisfyrirtæki af hugmyndafræðilegum ástæðum í einkafyrirtæki en ekki með svipu EFTA-dómstólsins yfir höfði sér eins og málið er borið fram og rökstutt.
    Virðulegur forseti. Með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði liggja fyrir bókanir ríkisstjórna varðandi áfengiseinkasölurnar í löndunum og í frv., sem ríkisstjórnin fyrrv. bar fram um samninginn, liggja fyrir skýlausar staðhæfingar um að ekki þurfi að hrófla við þessu kerfi. Samt eru ekki liðin tvö ár frá því að þetta kerfi gekk hér í garð eftir að samningurinn gekk í gildi og við ræðum þessi þingmál á grundvelli allt annars mats af hálfu stjórnvalda. Blaðinu hefur verið snúið við. Nú er talið líklegt af talsmönnum að ekki sé annað ráð en lúta þeim kröfum og því mati sem komið hefur frá eftirlitsstofnun EFTA og þeim forúrskurði sem kveðinn hefur verið upp í málum í Finnlandi gagnvart finnskum aðilum, að ráðlegast sé fyrir Íslendinga að leggja niður skottið strax og breyta kerfi sínu til þess að fá ekki yfir sig dóm.
    Það leggst heldur lítið fyrir þá sem gáfu yfirlýsingar um þessi efni á sínum tíma og í þeim hópi var hæstv. fjmrh. sem heldur fundi í hliðarsölum en á yfirlýsingum hans byggði hæstv. dómsmrh. yfirlýsingu sína þegar hann svaraði fyrirspurn frá mér á síðasta kjörtímabili á þinginu 1992 ef ég man rétt og prísar sig sælan fyrir það. --- Virðulegur forseti. Ég hefði áhuga á því að hæstv. fjmrh., sem ég held að sé einnig aðili að þessu máli og gott ef hann beri það ekki fram hér, hlýði á mál mitt. Hæstv. dómsmrh. svaraði fyrirspurn, sem ég bar fram í sameinuðu þingi og hæstv. ráðherra byggði svar sitt á bréfum og upplýsingum frá fjmrn. og frá viðskiptadeild utanrrn. Þær yfirlýsingar sem hann fékk þaðan voru mjög skilmerkilegar og alveg ótvíræðar. Það var ekki nokkur minnsta ástæða til þess að ætla að breyta þyrfti um þetta kerfi og þannig liggja eiðarnir fyrir af hálfu þessara ráðuneyta. Ég hef auðvitað grun um og hef látið það koma fram enda þótt það verði ekki sannað að þessar yfirlýsingar, og það er mjög alvarlegt mál, séu fram bornar af ekki mjög mikilli sannfæringu svo að ég orði það ekki grófar en það og segi ekki gegn betri vitund. Ég vil ekki viðhafa það hér við virðulegt stjórnvald. En í öllu falli án þess að mikill hugur fylgdi máli og það verður a.m.k. að ætla í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi að málið liggi þannig. Nógir vitnisburðirnir af hálfu stjórnvalda í þessu efni eru reiddir fram á Alþingi Íslendinga og það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni manna sem hafa gert ráð fyrir því að í þeim yfirlýsingum, sem fylgdu samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og þeim upplýsingum, sem tengdust máli manna sem báru þann samning fram, væri eitthvert hald þegar niðurstaðan er sú sem hér blasir við að þeir hafa snúið við mati sínu.
    Við erum að vísu að fjalla um mál út frá þeirri forsendu að verið sé að breyta hér sölufyrirkomulagi að því er varðar innflutning og heildsölu á áfengi en ekki að það þurfi að breyta kerfinu með þeim hætti að smásöluna þurfi að einkavæða þó að ég efist ekki um það að hæstv. fjmrh. mundi standa að slíkri breytingu strax í dag, í síðasta lagi á morgun, ef hann mætti ráða ferðinni. Svo mikill er hugur hans í sambandi við einkavæðingu og að auðvelda einstaklingum að stunda áfengissölu með ágóða burt séð frá allri áfengisstefnu eins og hún hefur verið mörkuð af stjórnvöldum sem hér er vegið mjög ákveðið að.
    Hins vegar hef ég ekki trú á því að það kerfi, sem menn ætla að byggja nú upp og stefnir að því að viðhalda áfengisdreifingunni í höndum ríkiseinkasölu, fái staðist til neinnar frambúðar. Síst af öllu þegar það stjórnvald, sem heldur um þræðina, er í rauninni með önnur sjónarmið uppi a.m.k. að hluta til. Ég tel miklar líkur á því að ekki líði mörg ár þangað til smásalan verði dæmd af ef menn ætla að halda áfram þeirri vegferð sem þeir hafa bundið sig hér í að undirgangast dóma kerfis Evrópusambandsins, dóma EFTA-dómstólsins sem bindur mat sitt við dóma sem Evrópusambandið kveður upp eins og kunnugt er. Þetta er 6. gr. samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og ástæða er til þess vegna þessara orða, virðulegi forseti, að minna á hana hér en hún kveður sem kunnugt er á um það að dómunum, sem Evrópudómstóllinn kveður upp, beri að fylgja og taka mið af þeim. Ég hef greinina fyrir framan mig og, með leyfi virðulegs forseta, vitna ég til hennar. Þar segir:
    ,,Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa þó að því tilskildu að þeir séu efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Evrópubandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála.``
    Það safn dóma sem Evrópudómstóllinn hefur kveðið upp frá því að hann var settur á laggirnar fyrir 1960 fyllir marga hillumetra og það eru þessir dómar sem við erum að taka mið af þegar við erum að meta réttarstöðu okkar á Íslandi. En hvernig ætli aðgengi okkar Íslendinga sé að þessum dómum? Hvaða möguleika ætli við höfum, hæstv. forseti, sem erum ekki þaulæfð í erlendum málum að fara yfir þessi efni og bera þau með traustum hætti saman við löggjöf okkar og meta réttarstöðu okkar út frá því? Þessi efni liggja ekki fyrir á íslensku máli og eru þannig ekki aðgengileg alþýðu manna á Íslandi og í rauninni er það með öllu ósæmilegt að við skulum vera komin inn í réttarkerfi sem byggir á slíku efni sem aðeins er til á erlendu máli. Ekki þarf lengi vitnanna við um það hvaða áhrif þetta hefur því að einmitt þau efni sem eru til umræðu og hér er vitnað til byggjast á nýlega felldum dómi af hálfu Evrópudómstólsins gagnvart finnsku fyrirtæki eins og ég hef þegar minnt á. ( Fjmrh.: Álit.) Og slíkir dómar eða álit segir hæstv. fjmrh. munu verða fleiri því að mikið safn hleðst þar upp á ári hverju og sumt varðar beint þau atriði sem hér er verið að ræða, önnur óbeint. Eins og kunnugt er eru mörg hólfin og margir þræðirnir í þessu dómkerfi sem liggja á milli mála og mál sem getur snert atriði eins og áfengislöggjöf þarf ekki að byggja á dómi sem kveðinn er upp í hliðstæðu máli heldur getur þar verið um að ræða dóm sem menn dragi af ályktanir þó að nokkuð langsóttar kunni að þykja af þeim sem skoða þessi efni með leikmannsaugum.
    Virðulegur forseti. Aðstaða okkar þingmanna til þess að fara yfir þessi mál er dálítið sérstök. Ég er með í höndunum eina af líklega 20 bláum bókum sem hafa að geyma viðaukana við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði og ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherrar hafi farið yfir þetta efni að mestu leyti. Mér sýnist hæstv. iðnrh. kinka kolli, hann mun vera vel lesinn í þessum efnum sem er orðin réttarstaða okkar Íslendinga og hefur nú fyrir tilstuðlan ötulla þýðenda verið komið á íslenskt mál. Við höfum litið svo til, hæstv. iðnrh., sem gegnir starfi heilbrrh. nú um stundir, að viðaukar þeir sem snúa að áfengismálum skiptu ekki máli fyrir okkur Íslendinga vegna þess að við værum undanþegnir í ljósi yfirlýsinga undanfarinna stjórnvalda og stjórnvalda EFTA-ríkjanna í aðdraganda samningsins. En það er annað uppi nú um stundir í ljósi þess sem hér liggur fyrir og það veit ég að hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem sem hlýðir á þessa umræðu, áttar sig á, einn af harðari andstæðingum hins Evrópska efnahagssvæðis og samningsins þar um þegar hann var hér til umræðu og er það nokkuð lýsandi að hv. þm. er ekki í hópi þerra sem sitja hér á ráðherrabekkjum. Það eru aðrir sem voru hallari undir þennan samning sem þangað hafa komist flestir enda þótt það gildi ekki um alla ráðherrana en undantekingin ein er þar til að sanna regluna.
    Í þessum viðauka í bók 3, hæstv. fjmrh., hvað eru þær margar? Man ráðherrann eftir því? Þær eru nálægt 20 talsins, viðaukarnir eru rösklega 20 og á bls. 627--655 er að finna ákvæði, reglugerðir Evrópusambandsins varðandi áfenga drykki og fjalla þær um innihald og auðvitað framleiðslu áfengra drykkja. En það er vissara fyrir ráðherrana og hæstv. ríkisstjórn og okkur á Alþingi að fara að dusta einnig rykið af þessum köflum í II. viðauka. Rétt til þess að búa menn undir það vil ég aðeins minna á þetta efni sem hér er að finna. Í upphafi í þessu safni, hæstv. forseti, er t.d. að finna reglugerð framkvæmdastjórnar EBE, nr. 3664/91 --- þetta eru há númer enda eru reglugerðirnar margar --- frá 16. des. 1991, um bráðabirgðaráðstafanir varðandi kryddvín, drykki blandaða með kryddvínum og hanastél blönduð með kryddvínum. Þetta er ein af þessum dýrmætu reglugerðum Evrópusambandsins og ég er viss um að hæstv. iðnrh. sem hlýtur að hafa áhuga á þessum iðnaði, ég trúi ekki öðru en hann hafi hug á því að efla einnig iðnað á þessu sviði ef kostur væri og þá á grundvelli þessarar reglugerðar sé þegar farinn að kynna sér þessa reglugerð. Hún er sett með hliðsjón af stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og er í þremur greinum og mörgum undirliðum sem ég ætla ekki að fara að hafa hér yfir því að af nógu er að taka, hæstv. forseti, ef út í þá sálma væri farið.
    Hér er einnig að finna reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE), nr. 351/92 frá 13. febr. 1992, um leiðréttingu á þýsku útgáfunni af reglugerð (EBE) nr. 3664/91 um bráðabirgðaráðstafanir varðandi kryddvín, drykki blandaða með kryddvínum og hanastél blönduð með kryddvínum. Það er sem sagt önnur reglugerð sem þarna er á ferðinni og af því að hún er ekki löng, er örstutt í rauninni miðað við lengd á þessum reglugerðum, er rétt aðeins að fara yfir það sem í henni stendur og sem er að verða hluti af íslenskum rétti, getur orðið það í öllum greinum ef að líkum lætur, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna hefur,`` --- þetta minnir á: ég, Kristján kóngur af guðs náð hefur, --- ,,með hliðsjón af stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, með hliðsjón af reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1601/91 frá 10. júní 1991, um almennar reglur varðandi skilgreiningu, lýsingu og kynningu á kryddvínum, drykkjum blönduðum með kryddvínum og hanastélum blönduðum með kryddvínum,`` --- vísað niður í stjórnartíðindi EB nr. L 149 frá 14. júní 1991, bls. 1 --- ,,einkum 16. gr. og að teknu tilliti til eftirfarandi:
    Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 3664/91 fjallar um bráðabirgðaráðstafanir varðandi kryddvín, drykki blandaða með kryddvínum og hanastél blönduð með kryddvínum.
    Villa er í 2. mgr. 1. gr. í þýsku útgáfunni af þeirri reglugerð. Ráðstöfun þar er ekki í samræmi við þá ráðstöfun sem var borin undir álit þar til bærrar nefndar. Af þeim sökum ber að leiðrétta þýsku útgáfuna.``
    Virðulegur forseti. Eins og sjá má varðar þetta mjög þýðingarmikil ákvæði og gefin út sérstök reglugerð um málið.
    ,,Samþykkt reglugerð þessa:
    1. gr. Í reglugerð (EBE) nr. 3664/91 er 2. mgr. 1. gr. leiðrétt á eftirfarandi hátt: (Þessi leiðrétting snertir einungis þýsku útgáfuna).
    2. gr. Reglugerð þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.
    Hún kemur til framkvæmda 17. des. 1991.
    Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 13. febrúar 1992.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,

Ray Mac Sharry framkvæmdastjóri.``

    Þetta er örstutt sýnishorn af þeim texta sem reglugerðin hefur að geyma, svona sem lítið dæmi af því mikla safni sem hér er að finna um áfenga drykki og reglur hafa verið settar um á vegum Evrópusambandsins og sem geta farið að varða okkur beint ef Rómarrétturinn gengur yfir oss á þessu sviði sem við erum að ræða í tilefni af þessum frumvörpum.
    Svo að aðeins sé tæpt á fyrirsögn er hér, með leyfi forseta: ,,Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1238/92 frá 8. maí 1992 um greiningaraðferðir bandalagsins á bragðlausu alkóhóli í víngeiranum.`` Þar er að finna í allmörgum greinum á röskri síðu fyrirmæli og ákvarðanir framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna um greiningaraðferðir bandalagsins á bragðlausu alkóhóli í víngeiranum. Það er ekki lítils virði að hafa það svo þaulunnið og ákvarðað eins og hér er gert og ákveðið í Brussel 8. maí 1992. En það er ekki aðeins að þar sé að finna merkan texta heldur fylgja síðan reglugerðunum að sjálfsögðu viðaukar á viðauka ofan. Með leyfi forseta er hér viðauki sem ber yfirskriftina ,,Greiningaraðferðir bandalagsins á bragðlausu alkóhóli í víngeiranum`` og það er að sjálfsögðu á mörgum síðum hvernig að því ber að standa. Ekki ætla ég að hafa þar mikið uppi og þreyta hæstv. forseta með þeirri framsetningu sem hér er að finna en hún er ítarleg og rétt til þess að sanna þá staðhæfingu mína leyfi ég mér að grípa niður í ,,Aðferð 1`` sem hefur fyrirsögnina ,,Alkóhólinnihald ákvarðað`` og það er gert þannig samkvæmt ákvörðunum Evrópusambandsins í þessum viðauka:
    ,,Ákvarða skal alkóhólstyrk alkóhóls miðað við rúmmál í samræmi við gildandi landslög eða, ef ágreiningur verður, með alkóhólmælum eða flotmælum samkvæmt skilgreiningu tilskipunar ráðsins 76/765/EBE frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi alkóhólmæla og alkóhól-flotmæla.

    Hann skal gefinn upp sem hundraðshluti miðað við rúmmál eins og mælt er fyrir um í tilskipun ráðsins 76/766/EBE frá 27. júlí 1976 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi alkóhól-töflur.
    Aðferð 2: Litur og/eða tærleiki ákvarðaður.
    Umfang og gildissvið. Með aðferðinni er unnt að ákvarða lit og/eða tærleika bragðlauss alkóhóls.
    Skilgreining. Litur og/eða tærleiki fenginn með þeirri aðferð sem hér er lýst.
    Meginregla. Lit og tærleika skal ákvarða sjónrænt með samanburði við vatn við hvítan og svartan bakgrunn, hvern af öðrum.`` --- Leggur þá hæstv. iðnrh. við hlustir enda er hér af mörgu að taka.
    ,,Búnaður. Litlausir glerhólkar, a.m.k. 40 sm háir.
    Vinnuaðferð. Setja skal tvo glerhólka (4) við hvítan eða svartan bakgrunn og setja sýnið í annan hólkinn upp að 40 sm markinu og vatn í hinn upp að sama marki. Horfa skal á sýnið ofan frá, þ.e. niður eftir hólknum og bera saman við samanburðarhólkinn.``
    Þá vona ég að þetta sé nú sæmilega ljóst enda eru þeir farnir að bera sig saman um þessa aðgerð, hæstv. iðnrh. og fjmrh., hvernig beri að fara með þetta er til kastanna kemur og þessi frv. ná fram að ganga.
    ,,Túlkun. Ákvarða skal lit og/eða tærleika sýnisins þegar skoðað er skv. 5. lið.
    Aðferð 3: Aflitunartími permanganats ákvarðaður.
    Umfang og gildissvið. Með aðferðinni er unnt að ákvarða aflitunartíma permanganats í bragðlausu alkóhóli.
    Skilgreining. Samkvæmt þeirri aðferð sem hér er lýst er aflitunartími permanganats sá fjöldi mínútna sem það tekur lit sýnisins að ná stöðluðum lit eftir að 1 ml af 1 mmól/l af kalíumpermanganatlausn hefur verið bætt í 10 ml af sýninu.``
    Það hlýtur að vera afar þýðingarmikið þegar kemur að meginreglunni í þessum texta, hæstv. fjmrh.
  ,,Meginregla. Aflitunartími permanganats er ákvarðaður og skilgreindur sem sá tími sem það tekur lit sýnisins að ná stöðluðum lit eftir að kalíumpermanganati hefur verið bætt í.
    Hvarfefni. Kalíumpermanganatlausn, 1 mmól/l.`` --- Hæstv. fjmrh. veit örugglega hvað er mól efnafræðilega séð þannig að ekki þurfum við að fara sérstaklega að rifja það upp en það er eitt þýðingarmesta hugtakið í sambandi við styrkleikamælingar í efnafræði eins og hæstv. fjmrh. gerþekkir vafalaust. --- ,,Blandað rétt fyrir notkun.
    Litalausn A (rauð).
    Nákvæmlega 59,50 g af CoCl2, þ.e. kóbaltklór og 6H2O er vegið.`` --- Þetta er vatnstengt kóbaltklóríð, það er mitt innskot, ég er að lesa úr þessum efnafræðitáknum. ( Fjmrh.: Það er ekki klórat.) Nei, það er ekki klórat, hæstv. fjmrh. Þetta er greinilega kóbaltklóríð sem er tengt vatni en ekki klórat eins og hæstv. fjmrh. var að geta sér til og virðist hann vera heldur illa lesinn í þessum texta sem kannski er afsakanlegt miðað við að ekki er á okkur skollinn Rómarréttur enn sem komið er á þessu sviði. En það mun rétt að búa sig undir það á Alþingi Íslendinga.
    ,,25 ml af saltsýru (P20 = 1,19 g/ml) og 975 ml af vatni er blandað saman. ( Gripið fram í: Þetta er stórhættulegt.)
    Kóbaltklóríðinu er bætt út í hluta af saltsýru/vatnsblöndunni`` --- og þarna kemur í ljós að þetta er vatnsblanda, --- ,,í 1.000 ml mælikolbu`` --- hæstv. fjmrh., hér hefur verið farið nokkuð hratt yfir í þýðingu sýnist mér þegar farið er að tala um kolbu. Það er að mér virðist nýtt. Kolbe á þýsku er vel þekkt gler sem notað er í efnafræði en mér sýnist það vera nýmæli í íslensku máli. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé það á íslensku í þessum texta --- ,,í 1.000 ml mælikolbu og því næst er fyllt upp að merkinu með blöndunni við 20°C.
    Litalausn B (gul). Nákvæmlega 45,00 g af FeCl3.6H2O [þ.e. ferróklóríðvatnsblöndu] er vegið.
    25 ml af saltsýru (P20 = 1,19 g/ml) og 975 ml af vatni er blandað saman og því næst er sama aðferð notuð og stuðst er við í litalausn A með járnklóríði.``
--- Nú fer að styttast í að aðferð 3 ljúki og ég ætla ekki að fara út í miklu fleira í þessu, þetta er sýnishorn. --- ( Fjmrh.: Þetta er fróðlegt.)
    ,,Stöðluð litalausn. 13 ml af litalausn A og 5,5 ml af litalausn B eru teknir með rennipípu (pípettu)``. --- Þarna hafa þýðendur sýnt nokkurt hugmyndaflug með því að þýða hið erlenda heiti pípettu sem er hér innan sviga með rennipípu og er það hið merkasta nýmæli sýnist mér því að ég hef ekki séð þetta hugtak áður. ( Iðnrh.: Hvar er þetta?) Á bls. 632 er þetta að finna og er nú hæstv. iðnrh. farinn að rýna í textann til að bera saman hvort rétt sé eftir haft. Hæstv. forseti, það finnst mér skynsamlega að verið þannig að ekkert fari hér á milli mála. Og athugasemd við þetta. --- ,,Athugasemd: Litalausnir A og B má geyma í myrkri við 4°C hita í nokkra mánuði. Blanda ætti nýja staðlaða litablöndu af og til.`` --- Lýkur þar aðferð 3 og þó ekki alveg, það er misskilningur, virðulegur forseti. Það er annað eins eftir. Virðulegur forseti, kannski ég grípi niður í tölul. 6 um vinnuaðferð þannig að við getum áttað okkur á að sæmilega nákvæmlega er tíundað:
    ,,10 ml af sýninu eru teknir með rennipípu`` --- og nú er ekki lengur þörf á að hafa pípettu innan sviga eins og var áður í textanum --- ,,og settir í tilraunaglas eða 50 ml í Nessler-glas.
    Sett í vatnsbað við 20°C.

    1 ml eða 5 ml, háð stærð sýnisins, af 1 mmól/l KMnO4`` --- þ.e. 1 millimól í lítra í kalíummanganatlausn, ég vona, hæstv. iðnrh., að ég lesi rétt í það, KMnO4, kalíummanganat tel ég það vera --- ,,lausn er bætt í, blandað saman og látið standa í vatnsbaði við 20°C.
    Tíminn skráður.
    10 ml af staðlaðri litalausn eru teknir með rennipípu og settir í tilraunaglas með sama þvermáli eða 50 ml af litalausn eru settir í Nessler-glas.
    Fylgst með litlabreytingum á sýninu og borið af og til saman við stöðluðu litalausnina með hvítt í bakgrunni.
    Skráð hvenær litur sýnisins verður sá sami og í stöðluðu litalausninni.`` --- Hvað varð um hæstv. fjmrh.? Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. hefur horfið oss undir lestrinum og þótti mér heldur lævíslega að verið að stinga af úr þingsal, hæstv. ráðherra, ábyrgðarmaður þeirra mála sem hér eru rædd, stinga af úr þingsal þegar verið er að rekja dæmi um vinnuaðferðir í sambandi við viðauka sem fylgir með tilskipun með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1238/92. ( Gripið fram í: Hann hefur líklega farið að rýna í tilraunaglasið.)
    Svo er athugasemd við vinnuaðferðina, hæstv. forseti, sem er mjög þýðingarmikil. Hún er svohljóðandi: ,,Athugasemd: Varast ber að láta sólina skína beint á sýnið á meðan á prófun stendur.``
    Hér er af nógu að taka, hæstv. forseti, og ég veit að hæstv. iðnrh. tekur þessa lesningu með sér þegar við höldum heim á leið í morgunsárið að þingfundi loknum til þess að eiga auðveldara með að slappa af og hvílast. En það er sem sagt, hæstv. forseti, ekki seinna vænna en ríkisstjórnin fari að kynna sér þessar forskriftir sem hafðar eru uppi áður en gleðitíð Rómarréttarins gengur í garð á Íslandi.
    Það er reyndar til umræðu í borgaralegum stjórnmálahópum, t.d. í Danmörku, því landi sem hefur lengst Norðurlanda búið við Rómarrétt, að fyrirskriftir af þessu tagi eru heldur hvimleiðar og nokkuð langt gengið á sumum sviðum. Vel þekktar eru þær fyrirskriftir því að það hefur verið vitnað til þess á Alþingi Íslendinga að því er varðar getnaðarvarnir af ýmsu tagi sem eru nákvæmlega skráðar og ákvarðaðar samkvæmt reglum framkvæmdastjórnarinnar. Annað dæmi varðar ávexti og sköpulag ávaxta eins og banana sem samkvæmt framleiðslureglum Evrópusambandsins verða að halda alveg tilskildum boga og framkvæmdastjórnin hefur lagt á sig margar stundir og mikið erfiði til þess að finna hið nákvæmlega rétta sköpulag á banönum. Þetta er sú blessun og forsjá, við mundum kannski segja forsjárhyggja, sem leidd hefur verið til öndvegis á Alþingi Íslendinga á fjölmörgum sviðum og tengist Rómarréttinum og fjórfrelsinu í hinum einstöku greinum. Menn skyldu bara gæta sín að vera sæmilega að sér, ekki síst þeir sem stunda framleiðslu og annað slíkt, að brjóta ekki gegn því og þeir sem eiga að gæta réttarstöðu Íslendinga séu vel að sér í þeim textum sem þar að lýtur.
    Stundum finnst mönnum sem þau efni af þessum toga geti flokkast undir gamanmál, virðulegur forseti, en svo er í rauninni ekki. Hér er á ferðinni mikið alvörumál vegna þess að menn eru settir undir reglusmíði á fjölmörgum sviðum þar sem ekki verður undan vikist nema menn taki á sig ákveðna áhættu, taki á sig þá áhættu að fá á sig refsivöndinn. Það eru þær aðferðir sem er að finna í ýmsum greinum um hið Evrópska efnahagssvæði, mig minnir í grein 111, er ekki svo, virðulegur forseti, hæstv. iðnrh. mundi kannski hjálpa til að rifja það upp. En það er sem sagt heimilt ef menn brjóta gegn ákvæðum í samningnum, einhverri grein, þá getur gagnaðilinn brugðist til varnar og kippt úr sambandi heilu sviðunum. Það er það sem ég leyfi mér hér að kalla refsivöndinn. ( Viðskrh.: Grein 112.) Grein 112 segir hæstv. iðnrh. og það má vera. Ég hef ekki flett upp á því. Það er aðeins farið að fenna yfir greinarnúmerið frá því að við ræddum þessi mál fyrir þremur árum og bárum okkur saman um einstakar greinar og ákvæði þessa samnings og það sem honum tengist.
    Það er ástæða til þess, virðulegur forseti, að víkja að því sem tengist áhrifum þeirra breytinga sem hér er verið að undirbúa að lögleiddar verði á möguleika Íslendinga til þess að halda uppi eigin heilbrigðismálastefnu, í þessu tilviki á sviði áfengisvarnamála. Eins og fyrir liggur í fjölmörgum umsögnum sem tengjast þessu máli er það mat fjölmargra sem um hafa fjallað og láta sig þau efni varða að afleiðingarnar af þeirri breytingu sem hér er verið að innleiða, að vísu varðar það fyrst og fremst innflutning og heildsölu á áfengi en engu að síður að áhrif þeirrar breytingar einnar geti orðið mjög veruleg að því er varðar áhrif á möguleika okkar til þess að halda uppi okkar eigin mótaðri áfengismálastefnu. Ég vil leyfa mér þessu til stuðnings, virðulegur forseti, að vitna til umsagnar áfengisvarnaráðs, sem er nýlega komin fram um málið, þar sem að þessu er vikið og sem ég tel nauðsynlegt að vekja athygli hv. þm. á. Þar segir í þessu áliti, með leyfi forseta:
    ,,Áfengisvarnaráði hefur borist til umsagnar frá efh.- og viðskn. Alþingis frv. til laga um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum, og frv. til laga um gjald af áfengi. Þó að lítill frestur sé gefinn og við hefðum gjarnan viljað svara hv. efh.- og viðskn. Alþingis ítarlegar leyfum við okkur samt að festa nokkrar línur á blað og skrifum þá um bæði frumvörpin samtímis jafnframt því sem við sendum nokkur minnisblöð um ýmsa þætti þessa máls.
    Í frv. þessu er gert ráð fyrir að afnuminn verði einkaréttur ríkisins til að flytja inn áfengi. Þessi einkaréttur hefur verið við lýði frá því í upphafi þriðja áratugar þessarar aldar. Áfengisverslun ríkisins var á þeim tíma stofnuð til að koma í veg fyrir að nokkur maður gæti haft persónulegan hag af því að fólk drykki sem mest. Spánverjar höfðu þvingað Íslendinga til að leyfa innflutning spænskra vína þó að það bryti

í bága við þau lög sem þá giltu í landinu. Á Alþingi var þá rætt um þetta sem grímulausar þvinganir af hálfu Spánverja sem voru þá helstu kaupendur að íslenskum saltfiski. Engum datt í hug að nefna þetta aukið frelsi.
    ÁTVR hefur síðan annast innflutninginn og það kerfi hefur reynst vel fyrir þjóðina að bestu manna yfirsýn. Nægir þar að nefna helstu þingskörunga þjóðarinnar í 70 ár. Nú er hins vegar svo komið að okkur er tjáð að einhverjir kerfiskarlar í Brussel telji þetta kerfi okkar ótækt og virðast sumir Íslendingar halda að þeir viti betur hvað er þjóð vorri til góðs en íslenskir stjórnmálamenn á borð við Bjarna Benediktsson og Eystein Jónsson.``
    Virðulegi forseti. Þá þótti mér nú leitt að sjá á bak síðasta ráðherranum úr þingsal þegar ég nefndi nafn fyrrv. forseta sameinaðs Alþingis, Eysteins Jónssonar. Bið ég nú um að reynt verði að hafa upp á hæstv. ráðherrum fjármála og heilbrigðismála. Ég geri hlé á máli mínu meðan forseti kanni vinsamlega aðstæður hæstv. ráðherranna.
    Virðulegur forseti. Þá er hæstv. heilbrrh. kominn í þingsal en hæstv. fjmrh. er hvergi sjáanlegur og óska ég eftir að honum verði gert viðvart.
    ( Forseti (RA) : Honum hefur þegar verið gert viðvart. Hann er væntanlegur.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Ég var að vitna til umsagnar áfengisvarnaráðs frá 29. maí 1995. Ég hef það aftur yfir því að á braut voru ráðherrarnir:
    ,,Nú er hins vegar svo komið að okkur er tjáð að einhverjir kerfiskarlar í Brussel telji þetta kerfi okkar ótækt og virðast sumir Íslendingar halda að þeir viti betur hvað er þjóð vorri til góðs en íslenskir stjórnmálamenn á borð við Bjarna Benediktsson og Eystein Jónsson. Telja menn það part af frelsinu að hver sem er fái að flytja inn áfengi og koma því á markað. Okkur þykir heldur óvarlega farið með frelsishugtakið þegar það er notað á þennan veg því að þarna er í raun og veru verið að svipta Íslendinga frelsi sem þeir hafa haft síðan Alþingi fékk löggjafarvald,`` þetta síðast nefnda er feitletrað í umsögn áfengisvarnaráðs, ,,þ.e. valdinu til að ákveða sjálfir hvern hátt þeir hafa á innflutningi, framleiðslu og dreifingu eina vímuefnisins sem löglegt er að selja í landinu. Við leyfum okkur að benda á að ríki þau sem mynda Bandaríki Norður-Ameríku hafa þennan rétt. Það er sem sé hluti af frelsinu sem Bandaríkjamenn búa við að tæpir tveir tugir ríkjanna hafa ríkiseinkasölu á áfengi, hin ríkin ekki.
    Okkur býður í grun --- ef það er rétt að kontoristarnir í Brussel heimti að við afnemum einkarétt ríkisins á innflutningi áfengis --- að gífurleg offramleiðsla Evrópusambandsríkjanna á áfengi sé orsök þeirrar kröfu.
    Vínfenið alræmda í Evrópu stækkar ár frá ári og nú er svo komið að yfirborð þess mundi varla hækka svo að neinu næmi þó að við fleygðum út í það allri offramleiðslu kjöts, smjörs og annars góðmetis á Íslandi í þúsund ár. Hefur þó margur fjasað mikið og lengi um smjörfjöll og óseljanlegar kjötbirgðir. Greinilegt virðist að tóbak á enn að vera einkasöluvarningur. Sú spurning hlýtur því að vakna`` --- virðulegur forseti, þeir hæstv. ráðherrar eru væntanlega að bera sig saman um kalíumpermanganatið og hvernig hægt sé að bera sýni upp við hvítan bakgrunn því að svartur er ekki þar nærhendis. --- ,,Hefur þó margur fjasað mikið og lengi um smjörfjöll og óseljanlegar kjötbirgðir. Greinilegt virðist að tóbak á enn að vera einkasöluvarningur. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort slíkt fyrirkomulag brjóti ekki jafnmikið í bága við reglur EES og einkaréttur ríkisins til að flytja inn áfengi. Eða er kannski engin offramleiðsla á tóbaki í löndum Evrópusambandsins?
    Áfengisvarnaráð telur að ekki hafi reynt á það hvort ÁTVR geti lagað sig að þeim breytingum sem e.t.v. þyrfti að gera á rekstri þess fyrirtækis að kröfu EES. Við vitum ekki betur en umboðsmenn erlendra áfengisframleiðenda eigi greiðan aðgang að því að koma vöru sinni á framfæri ekki síður en umboðsmenn tóbaksseljenda. Sjálfsagt mætti á einhvern veg bæta stöðu þeirra og samskipti við ÁTVR.
    Sá háttur sem á er hafður um merkingar áfengis hjá ÁTVR hefur án efa mikið að segja til að draga úr innflutningi og sölu smyglvarnings. Aftur á móti er ljóst að ef ,,allir`` fá að flytja inn áfengi fellur þessi mikilvægi þáttur niður. Þegar þar við bætist að birgðastöðvar geta verið í öðru hverju veitingahúsi og jafnvel í bílskúrum hjá innflytjendum og að þeir verða að selja sem mest á sem stystum tíma vegna þess hve varan er dýr ætti hverju mannsbarni að vera ljóst hvert stefnir.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lagði til við aðildarþjóðirnar í Evrópu að þær leituðust við að draga úr áfengisneyslu um 25% á síðasta fimmtungi þessarar aldar. Íslendingar samþykktu að taka þátt í þeirri tilraun. Ekki er líklegt að gífurleg fjölgun innflytjenda áfengis auki möguleika okkar á að ná því marki. Þá er í Íslenskri heilbrigðisáætlun lögð áhersla á að neyslu áfengis þurfi að minnka, ,,gera þurfi`` og það er orðrétt tilvitnun í íslenska heilbrigðisáætlun, ,,markvissa áætlun um samdrátt í notkun áfengis``.``
    Hér hef ég farið yfir smáhluta af umsögn áfengisvarnaráðs frá því í maílok. Ég vil nefna það, virðulegur forseti, af því að hér er vitnað í íslenska heilbrigðisáætlun að það var núv. hæstv. umhvrh. og ráðherra landbúnaðarmála, Guðmundur Bjarnason, sem átti hlut að því með stuðningi meiri hluta á Alþingi að þingið ályktaði vorið 1991 um íslenska heilbrigðisáætlun til ársins 2000. Sá sem hér stendur var formaður þeirrar nefndar sem vann málið, félmn. þáv. sameinaðs þings og í hana lögðum við sem störfuðum í nefndinni mikla vinnu og mikla alúð til þess að reyna að gera þessa íslensku heilbrigðisáætlun sem best úr garði. Þingið lagði blessun sína yfir verkið og ég veit ekki annað en hæstv. núv. umhvrh. hafi sem heilbrrh. verið ánægður með þann áfanga sem þarna vannst. Hann lagði a.m.k. mikla áherslu á það að fá

þessa ályktun samþykkta. Það leggst heldur lítið fyrir Alþingi Íslendinga og hæstv. ríkisstjórn og Framsfl. sem aðila að ríkisstjórn ef sléttað er yfir þau markmið sem þarna voru samþykkt og borin fram af fyrrv. heilbrrh. Framsfl. í ríkisstjórninni 1988--1991 með því að ætla að breyta aðstæðum í sölu áfengis með þeim hætti sem frumvörp þessi gera ráð fyrir. Mér finnst það satt að segja mikil hryggðarmynd sem fæst af þátttöku Framsfl. í núv. ríkisstjórn ef það er eitt af fyrstu verkunum að beygja sig fyrir kröfunni um að breyta hér sölufyrirkomulagi á áfengi sem leiðir til þess sem ég hef vitnað til að er mat áfengisvarnaráðs en mjög langt frá því að vera mat þess eins. Undir það taka flestir þeir, ég vil ekki segja allir vegna þess að ég hef ekki kannað það til hlítar, en flestir þeir, hæstv. forseti, sem hafa farið yfir heilbrigðismálaþátt málsins og sem bera fyrir brjósti þau markmið sem eiga vaxandi fylgi að fagna víða um lönd að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu á heilsufar manna og öryggi fólks og þá fylgifiska sem fylgja af misnotkun áfengis. Þetta á auðvitað ekki síst við um þá sem yngri eru, unga fólkið. Og menn skulu hafa í huga að neysla áfengis er oft og tíðum það fyrsta á langri en hraðri vegferð niður hjarnið í sambandi við notkun annarra vímu- og fíkniefna. Það er kannski sá vágestur sem við ættum allra síst að greiða götuna fyrir í okkar ágæta landi að auðvelda og ýta undir vaxandi neyslu á slíkri óhollustuvöru og ekki aðeins það, heldur er allt of vægt til orða tekið að tala um óhollustu í þessu sambandi því að annað og miklu alvarlegra heilsutjón fylgir þar gjarnan í kjölfarið.
    Virðulegi forseti. Í því sambandi er að fleiru að gá en aðeins þeirri breytingu sem hér er hugmyndin að lögleiða, breytingu á fyrirkomulagi á söluinnkaupum og heildsölu á áfengi. Þar ber einnig að hafa í huga þær breytingar sem kunna að fylgja með ef sú stefna verður tekin upp að Íslendingar taki að sér ytri landamæravörslu Evrópusambandsins eins og kann að fylgja í kjölfarið á hugsanlegum samningum Evrópusambandsins og íslenskra stjórnvalda um það að varðveita það sem kallað er vegabréfafrelsi milli Norðurlanda sem sett hefur verið fram sem ósk og pólitískt álit ríkisstjórna á Norðurlöndum. Þetta tengist, hæstv. heilbrrh., hinu svonefnda Schengen-samstarfi sem níu ríki Evrópusambandsins eru nú aðilar að. Sjö þeirra hafa þegar opnað landamæri sín eða afnumið landamæraeftirlit þannig að þar fer á milli bæði fólk og varningur og tvö ríki eru formlega aðilar þó að þau hafi ekki tekið upp ákvæði samningsins sem þó gekk í gildi 26. mars sl. Þetta Schengen-samstarf sem Danir hafa sótt um aðild að þýðir það í reynd að landamæraeftirlit er afnumið. En til þess að Danir geti orðið fullgildir aðilar að þessu samstarfi þurfa þeir annaðhvort að reisa eða stunda landamæragæslu út á við fyrir Evrópusambandið á landamærum sínum og gera kröfu til þess að Íslendingar og Norðmenn, svo að dæmi séu tekin, hugsanlega Svíar, nema þeir gerist einnig aðilar að þessu samstarfi, sýni vegabréf þvert ofan í þá stefnu sem verið hefur um áratuga skeið í gildi milli Norðurlanda að þeirra á milli sé frelsi til ferða án vegabréfa.
    En skilríkin ein eru ekki meginefnið. Það er það sem fylgir með, þ.e. skertir möguleikar á almennu eftirliti með hugsanlegu smygli, þar á meðal á fíkniefnum, getur fylgt í kjölfarið. Það er fyllsta ástæða til fyrir okkur á Alþingi að gefa gaum að þessu máli sem er á dagskrá stjórnvalda þessa mánuðina þegar við erum að ræða það mál sem hér er á ferðinni. Við skulum hafa það í huga, virðulegur forseti, og ég vænti að hæstv. heilbrrh. hafi það einnig í huga, að fljótlega getur að því dregið að við þurfum að gera það upp við okkur hér hvort við gerumst aðilar að hugsanlegu samstarfi að þessu leyti og innleiðum það kerfi sem því kann að fylgja. Eins og sakir standa er beðið eftir viðbrögðum hjá Evrópusambandinu við hugmyndum Norðurlanda og tilboði ríkisstjórna Íslands og Noregs um að taka að sér þetta ytra eftirlit á landamærum. Það er engan veginn víst að viðbrögð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins verði í fyrstunni a.m.k. eins og menn hafa verið að gera sér vonir um sem telja að þetta ætti að verða lausnin til að varðveita vegabréfafrelsi, sem svo er kallað, milli Norðurlanda, á skandinavísku kallað ,,Nordisk passunion``.
    Það fylgir sögunni í sambandi við þetta mál sem ég er að tengja þessu efni að gefnu tilefni að ekki verði einu sinni heimilað í sambandi við eftirlit með fólki og farangri þess að taka það sem kallað eru stikkprufur, að taka tilviljunarkennt úrtak til sérstakrar skoðunar sem væri vísir að því að vernda möguleika til ákveðins eftirlits. En þær upplýsingar sem ég hef fengið um þetta bera vott um það að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi á því allan fyrirvara að möguleiki sé á því að taka slíkar prófanir á einstökum farþegum. Það þurfi í rauninni að blikka rauð ljós á tölvu stóra bróður, sem verið er að koma upp í tengslum við þetta eftirlit, mig minnir að hún sé staðsett í Frankfurt, sem hefur að geyma nöfn þeirra sem að mati lögreglu innra öryggiseftirlits Evrópusambandsins eru óæskilegar eða grunsamlegar persónur. Og það er aðild að þessari tölvu stóra bróður í Evrópusambandinu sem á að vera eitt helsta haldreipið í sambandi við aðhald og eftirlit á ytri landamærunum. Við Íslendingar ætlum þá að setja það upp í Keflavík og annars staðar þar sem við erum að gæta að ytri landamærum hins stóra svæðis, þ.e. Evrópusambandsins, fara yfir tölvuna og láta hana svara fyrir okkur en missa réttinn til þess að hafa hér í rauninni virkt eftirlit með þeim sem koma til og frá landinu hugsanlega frá öðrum ríkjum Evrópu.
    Virðulegur forseti. Ég hafði ætlað mér en hef ekki gert alvöru úr því af tillitssemi við annríki á Alþingi að taka þetta efni til umræðu og inna hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. eftir stöðu þessa máls. En ég hef verið að reyna að fylgjast með því á norrænum vettvangi hvernig því líður og í rauninni væri æskilegt að ríkisstjórnin gæfi Alþingi yfirlit og skýrslu um stöðu málsins áður en Alþingi verður frestað og sumarleyfi tekur við, a.m.k. ef það gæti gerst að farið yrði út í samningaviðræður um þessi efni á sumarmánuðum þannig að þingið hafi upplýsingar um það hvað sé hér á ferðinni. Virðulegur forseti. Hæstv.

fjmrh., er ekki er sjáanlegur en ég hefði þurft að ná eyrum hans ef kostur væri vegna þessa máls í von um að hæstv. fjmrh. geti veitt okkur upplýsingar um þessi efni.
    ( Forseti (GÁS) : Það er verið að sækja hann.)
    Ég þakka, virðulegur forseti, og held áfram máli mínu á meðan hæstv. ráðherra er að skila sér í þingsal. Hér er um að ræða mál sem varðar sjálfseftirlit okkar sem ríkis sem gjarnan vill telja sig fullvalda en því miður verðum við að fara að setja spurningarmerki við ýmislegt sem varðar innihaldið í því hugtaki eins og málum er komið fyrir okkur og eins og þróun mála er um þessar mundir.
    Úti á hinu Evrópska efnahagssvæði á öðrum Norðurlöndum hafa menn miklar áhyggjur af þessu. Og þar hafa menn líka miklar áhyggjur, virðulegi forseti, út af þeim brigðum, sem svo má nefna, sem ríkisstjórnir landanna sem stóðu að yfirlýsingum sem tengdist samningnum um EES báru fram og sem eru nú að leiða til þess að ekki aðeins Íslendingar heldur önnur Norðurlönd eru að breyta um stefnu frá því sem áður var og beygja sig undir Rómarréttinn varðandi sölu á áfengum drykkjum. Þessar áhyggjur tengjast, eins og ég hef verið að víkja að, ekkert síður möguleikanum á að halda fíkniefnunum í skefjum, ,,knark``, eins og það er kallað á skandinavískunni, sem er kannski sú vá sem okkur ber að leggja hvað mesta áherslu á að bægja frá okkar dyrum. Við ættum sem eyþjóð að hafa raunverulega betri möguleika á því að hafa eftirlit og stemma stigu við innflutningi á slíkum efnum og njótum þar fámennis okkar og að innkoma í landið er á tiltölulega fáum stöðum. Aðstæður í öðrum Evrópulöndum eru áreiðanlega mun erfiðari að þessu leyti og ég tel að viðleitni íslenskra stjórnvalda og íslenskrar tollgæslu og fíkniefnalögreglu á þessu sviði hafi skilað árangri. Ég þori ekki að segja góðum árangri því hvað er góður árangur í þessum efnum? Í rauninni er hann ekki góður á meðan einhverjir verða þessum vágesti að bráð, sérstaklega uppvaxandi æska, með þeim hörmulegu afleiðingum sem því tengist.
    Ég vék að þeim breytingum, virðulegur forseti, þegar hæstv. fjmrh. var fjarverandi áðan, sem kunna að verða á möguleikum til að halda uppi virku eftirliti, eða svipað og við reynum nú, gagnvart smygli og innflutningi á vímugjöfum til landsins ef breytingar verða á möguleikum til eftirlits með hugsanlegu samstarfi eða samningi milli Íslands og ríkja Evrópusambandsins varðandi landamæraeftirlit, þetta tilboð íslenskra stjórnvalda ásamt norskum að taka að sér ytra landamæraeftirlit fyrir Evrópusambandið. --- Ég vildi biðja hæstv. fjmrh., því hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur, um að upplýsa okkur um það í hvaða stöðu þetta mál er og hvaða áhrif hæstv. fjmrh. telur að það geti haft á möguleika til eftirlits hjá okkur? Ég hef verið að vísa til þess sem lesa má m.a. í dagblöðum á Norðurlöndum og hefur reyndar verið á dagskrá býsna lengi í tengslum við EES-samninginn, og ég tala nú ekki um inngöngu Norðurlanda í Evrópusambandið, að þarna geti orðið veruleg breyting til hins verra. Og að hugsanlegt sé, um það vil ég ekki fullyrða á meðan ekki eru komin fram gögn um málið, að þetta tilboð íslenskra stjórnvalda um að taka að sér landamæravörslu fyrir Evrópusambandið geti valdið breytingum sem minnki möguleika okkar til eftirlits. Ég treysti því að hæstv. fjmrh. víki að þessu á eftir og upplýsi okkur um stöðuna að þessu leyti. Ég tel að málið tengist með skýrum hætti því sem við erum að ræða hér og nauðsynlegt sé að fá um þetta upplýsingar áður en lengra er haldið með þau mál sem liggja fyrir þinginu.
    Það hefur komið fram, virðulegur forseti, í sambandi við þessi mál að möguleikarnir á því að fylgjast með dreifingu áfengis verði mun lakari eftir að innflutningsaðilum fjölgar í skjóli þeirra ákvæða sem hér er verið að lögleiða. Ég get bent á margt þeirri skoðun til stuðnings. Þeir sem gjörst þekkja sem starfa við þessi mál hjá ÁTVR hafa ljóslega komið skilaboðum til þingsins um mat sitt að þessu leyti. Það er m.a. að finna í blaðagrein sem má lesa í DV og skrifuð er af Kristjáni Helgasyni. Þar er lýst áhyggjum um þetta og hvernig sú breyting sem hér er hugmyndin að lögleiða muni virka í sambandi við möguleika til eftirlits. Og það er sá þáttur sem tengist þessu máli sem ekki síst er ástæða til að hafa áhyggjur af. Ég tel nauðsynlegt að betur verði yfir það efni farið nú við 2. umr. málsins.
    Ég ætlaði í fyrri ræðu minni við 2. umr., virðulegur forseti, að koma að nokkrum þáttum sem snerta þetta stóra mál sem mikill tími þingsins hefur farið í og sem ríkisstjórnin gerði að sínu fyrsta máli hér og flaggmáli, eins og það mundi vera sagt á blaðamannamáli. Eins konar flagg sem borið er fram með þessu máli og sem hæstv. fjmrh. virðist leggja mikla áherslu á að fá einhverja niðurstöðu í. Ég vænti þess að áður en umræðunni lýkur verði ýmis vafaatriði sem uppi eru skýrð. Best væri að sjálfsögðu að menn hyrfu að því ráði, sem ekkert mælir gegn í rauninni, að menn notuðu sumarið til að fara yfir þessi efni með eðlilegum hætti og hugsa sitt ráð og búa sig undir að það sem var ásetningur íslenskra stjórnvalda, að við héldum, að halda á sínum rétti gagnvart EFTA-dómstólnum og undirbúa málafylgju sem best og láta á það reyna. Að því væri bragð að fylgja þessu kerfi til lokastigs en láta ekki einhverja forúrskurði fæla sig frá því að halda uppi stefnu sem mér heyrist að a.m.k. hluti ríkisstjórnarinnar sé reiðubúinn til að styðja í orði og við skulum vona að það sé einnig á borði.
    Ég læt hér lokið þessari ræðu minni, virðulegur forseti, þó ég hafi aðeins komið að fáeinum atriðum sem varða hið stóra svið þessara frv. Það er aðeins eitt frv. af þremur sem við erum að ræða þannig að af mörgu er að taka þegar fram í sækir varðandi umræðu um málið. Ég vænti þess að við fáum upplýsingar frá hæstv. fjmrh. um það efni sem ég vék að sérstaklega í máli mínu.
    Að endingu, virðulegur forseti, væri æskilegt að forseti þingsins tæki til athugunar þær aðstæður sem mönnum eru búnar hér til að ræða mál á grundvelli Rómarréttar á Alþingi Íslendinga.