Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 14:02:19 (825)


[14:02]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson ):
    Herra forseti. Þegar hveitibrauðsdagar hæstv. ríkisstjórnar hófust höfðu menn á orði að styrkur hennar ætti fyrst og fremst að liggja í höfðatölunni ef ekki höfðinu. En það var nú með harmkvælum að höfðatalan dygði til þess að ná afbrigðum til að koma hér á framfæri brtt. sem ríkisstjórnin þó þrátt fyrir allt tók upp eftir stjórnarandstöðunni í þessu máli.
    Það er athyglisvert að lesa upphafsorð greinargerðarinnar:
    ,,Þar sem efasemdir eru um að lækkað verð vegna lægri tolltaxta skili sér til neytenda þykir nefndinni rétt`` o.s.frv.
    Þetta á við um 3% markaðsaðganginn. Enginn vafi er á því og enginn vefengir það að ofurtollarnir almennt á innflutning á 97% markaðshlutdeildinni eru svo háir að af innflutningi verður ekki. Það er

ekki einu sinni umdeilt. Þá var það spurning að því er varðar undanþágugreinina, lágmarksmarkaðsaðganginn sem einungis átti að taka til 3% af markaðshlutdeild, að hún alla vega átti þó að skila sér með einhverri verðlækkun til neytenda. En nánari skoðun og umfjöllun í efh.- og viðskn. leiddi í ljós að svo er ekki. Stjórnarmeirihlutinn hefur þó, og það er virðingarvert, beygt sig fyrir því raunsæja mati og þar með viðurkennt það og tekið upp efnislega brtt. okkar hv. þm. Ágústs Einarssonar, sem var á þá leið að þetta væri nú einu sinni staðreyndin og þá væri betra að bjóða út þessi leyfi og tryggja að andvirðið rynni í ríkissjóð fremur en að lottóávinningur af þessu tagi, ef einhver yrði, rynni til innflytjenda eða heildsala.
    Efnislega er þetta því viðeigandi amen eftir efninu eftir þá umræðu sem farið hefur fram bæði í hv. efh.- og viðskn. og í þingsalnum um þetta mikla mál sem upphaflega voru nokkrar væntingar bundnar við en eru nú ekki lengur. Það er ástæða til þess að árétta, ekki í löngu máli, hver niðurstaða þessa máls er.
    Í fyrsta lagi fer ekkert á milli mála hvað vakti fyrir frumvarpshöfundum. Það sem vakti fyrir frumvarpshöfundum var að stilla tollum svo hátt að það væri tryggt að meginreglu til að það yrði enginn innflutningur með aðild Íslands að GATT-samningnum, að það yrði enginn innflutningur, þ.e. tollarnir væru ofurtollar sem hindruðu viðskipti. Þetta er meginreglan. Um það deilir enginn, það vefengir enginn og á við um 97% af markaðnum í viðkomandi vöruflokkum.
    Þetta er að sjálfsögðu í blóra við yfirlýst meginmarkmið GATT-samninganna. Þau meginmarkmið áttu að vera að brjóta niður ofurtolla, lækka tolla, að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum, að greiða fyrir viðskiptum. Þetta átti hins vegar að gerast á einhverjum aðlögunartíma og þar átti að fara bil beggja ef sanngirni hefði verið gætt, þ.e. annars vegar að tryggja innlendum framleiðendum, bændum, vernd í upphafi sem síðan átti að lækka í áföngum á sex árum. Höfundar þessa stjfrv. beittu hins vegar sinni hugvitssemi til þess að stilla þessa tolla nægilega hátt til þess að koma í veg fyrir viðskipti, en sáu til þess yfirleitt að þeir væru ekki svo háir að þeir lentu í skuldbindingu um að lækka þá á sex árum. Þeir munu því ekkert breytast. Tollverndin verður eins og hún var í upphafi, algjör, og hún mun ekkert breytast. Þar með er farið tækifærið sem þessir samningar áttu að gefa bæði bændum og neytendum, þ.e. íslensku þjóðinni, til þess að byrja að feta sig út úr ógöngum landbúnaðarkerfisins, til þess að gefa kost á aðhaldi af samkeppni, jafnvel þótt hún yrði ekki að meginhluta til á grundvelli verðsamkeppni heldur gæða, og leggja þannig til þann hvata sem þarf til að þetta einokunarkerfi, sem situr yfir hlut bæði bænda og neytenda, færi að taka breytingum. Það hefur verið upplýst í þessari umræðu að framleiðni í íslenskum landbúnaði og vinnslu er á fornaldarstigi. Hún hefur farið minnkandi ár frá ári áratugum saman vegna þess undarlega kerfis að annars vegar eru menn hvattir og styrktir til framleiðslu og hins vegar er mönnum bannað að framleiða undir kvóta sem sjómenn reyndar kannast vel við í sinni grein. Kvóti til lands og sjávar. Það er stefnan. Það skal tryggt líka með þessu frv.
    Stjórnarsinnar hafa í veikburða málsvörn sinni reynt að bera því við að þetta sé nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni bænda. Það hefur verið afsannað í þessari umræðu. Það er ósatt mál og það er rangt og þeir vita í raun og veru betur. Hagsmunir bænda á Íslandi eru ekki þeir að viðhalda óbreyttu kerfi. Bændum er að verða það æ betur ljóst að þeir eru fangar þessa kerfis; að þetta kerfi, ríkisstýrt einokunarkerfi sem lokar þá af frá eðlilegum markaðsviðskiptum, hefur leitt þá í fátæktargildru þannig að stór hluti bændastéttarinnar er nú að verða að öreigum og sennilega fátækasta stétt á Íslandi. Og mega þakka það þeim bændavinum, sjálfskipuðum, sem kalla sig svo, sem hafa stýrt þessu kerfi áratugum saman, varið það og byggt það upp, staðið af óbilgirni gegn allri gagnrýni, ekki hlustað á sjónarmið gagnrýnenda né neytenda. Og niðurstaðan er þessi: Skipulögð fátækt --- eins og bændur kalla það sjálfir. Menn sem eiga slíka vini þurfa, sem kunnugt er, enga óvini.
    Að því er varðar hagsmuni neytenda er málið fljótafgreitt. Það er ekkert hlustað á þá. Í aðdraganda þessa máls, sem var lengi í nefnd embættismanna undir forræði forsrh., var aldrei leitað álits Neytendasamtakanna, aldrei. Og það kom fram í viðræðum við viðskiptaaðila sem hefðu átt að búa við þetta kerfi, eins og Hagkaup og fleiri slíka aðila sem vegna stærðar sinnar í smásöluverslun hefðu helst getað boðið upp á einhver viðskipti, að það var ekkert samráð haft við þá, enda gerðu þeir ekki ráð fyrir að það yrði neitt af neinum viðskiptum.
    Hvernig má það vera á seinasta kjörtímabili þessarar aldar, í augsýn nýrrar aldar, að forustumenn tveggja stærstu flokka þjóðarinnar afhjúpa enn þessa fornaldarhugsun í málefnum elsta atvinnuvegar þjóðarinnar? Við tölum ekki lengur um stærsta atvinnuveg þjóðarinnar því landbúnaðurinn hefur náttúrlega sífellt verið að dragast saman undir þessu kerfi, samkeppnisstaða hans hefur sífellt verið að versna, bændum hefur verið að fækka, þeim hefur fækkað um 4.000 frá árinu 1980 eða svo. Hvernig má það vera að þessi fornaldarhugsunarháttur er enn við lýði? Þetta er ekki bændum í hag, reynslan hefur sýnt það. Þetta kerfi situr yfir hagsmunum neytenda, reynslan hefur sýnt það. Þetta er í blóra við tilgang þess alþjóðasamnings sem við skuldbindum okkur til að fylgja fram að meginefni til. Hverra hagsmuna er verið að gæta? Það er verið að gæta hagsmuna kerfisins sjálfs. Þessara nokkurra hundraða einstaklinga sem hafa tekið sér það vald að sitja yfir málefnum bænda í skjóli ríkisstyrkja og ríkiseinokunar. Þeir sjálfir, sjálfum sér í hag, eru að reyna að framlengja lífdaga þessa kerfis.
    Það er athyglisvert á þessari stundu, í byrjun kjörtímabils ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl., að lesa nákvæmlega umsagnir þessara forustumanna úr viðskiptalífi og forustumanna neytenda um frv. sjálft, stefnu

þess, áhrif þess og tilgang. En þeir segja einfaldlega: Þetta frv. er þess eðlis að það mun stöðva viðskipti, koma í veg fyrir viðskipti, koma í veg fyrir að tækifæri til breytinga verði nýtt, koma í veg fyrir að aðhald af samkeppni verði markvert, með öðrum orðum innsigla óbreytt ástand. Kannast menn við að þetta hafi verið ásetningur stjórnarflokkanna fyrir kosningar? Var það út á þetta sem frambjóðendur Sjálfstfl. í Reykjavík öfluðu sér fylgis í kosningabaráttunni? Sögðu þeir kjósendum sínum það, þaðan sem bróðurparturinn af fylgi þeirra kemur, að það væri þetta sem þeir væru að berjast fyrir? Nei, þeir sögðu það ekki. Þvert á móti. Þegar skýrt var frá þeim staðreyndum að þetta væri nú engu að síður grundvallarstefna hæstv. landbrh. Sjálfstfl. í fyrrv. ríkisstjórn, þetta væru þau sjónarmið sem embættismenn hans og fulltrúar kerfisins hefðu sett fram í vinnunefndinni, þá afneituðu þeir því. Hæstv. ráðherra Halldór Blöndal sagði að það væri ósatt. Ekkert slíkt vekti fyrir honum, hann hefði enga slíka tillögu gert. Nú vita menn betur vegna þess að þessar tillögur lágu fyrir. Þær eru að vísu ekki ofurtollarnir sjálfir. Hvers vegna ekki? Það er vegna þess að þá hefðu þeir neyðst til að lækka þá í áföngum á sex ára tímabili. Þeir eru stilltir af hugvitsamlega til að rekast ekki upp í það þak, en þeir hafa þjónað sama tilgangi. Og ofurtollar eru þeir vegna þess að þeir hindra viðskipti. Ég á eftir að heyra þá hv. sjálfstæðismenn innan þings og utan rengja það hjá forstjóra Hagkaupa, hjá fulltrúum íslenskrar verslunar, frá fulltrúum Neytendasamtakanna, frá Samtökum íslensks iðnaðar að þetta sé raunsætt mat. Þeir reyndu við 1. umr. málsins að segja að þetta væri öfgakenndur málflutningur, en nú geta þeir lesið sér betur til hjá sínum eigin flokksmönnum, sem verið hafa a.m.k. hingað til.
    Eina málsvörnin sem hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarliðar reyna nú að hanga á sem hálmstrái í þessu máli er þessi: Þeir fluttu brtt. á seinasta stigi málsins. Og brtt., um hvað var hún? Hún var um það að ef það væri nú satt hjá okkur að það væri enginn hvati til meins innflutnings að því er varðar þessa 3% markaðshlutdeild, ef það væri nú enginn hvati til þess hvað átti þá að gerast? Jú, þá á að vera heimild til landbrh. til þess að flytja inn á lægri tollum skilyrt, að því tilskildu, eins og gamla framsóknarkerfið alltaf kallaði það, að ekki væri nægilegt framboð á innlendum markaði. En að öðru leyti er þetta heimildarákvæði sem ráðherranum er algerlega í sjálfsvald sett. Það að framselja í hendur hæstv. landbrh., með allri virðingu fyrir honum, heimild til þess hugsanlega að gæta með þessum hætti örsmárra hagsmuna neytenda í landinu er eins og ef sjómenn á Íslandi ættu að fagna því að hér yrði samþykkt tillaga sem heimilaði hæstv. sjútvrh. Þorsteini Pálssyni að afnema kvótakerfið ef honum svo þóknaðist. Það er svona ámóta trúlegt. Svo mætti bæta við að það væri líka heimild til hæstv. utanrrh., þ.e. Halldórs Ásgrímssonar, að aðstoða sjútvrh. við að afnema kvótakerfið.
    Þetta er hálmstráið sem stjórnarliðar munu reyna að hanga á, að þeir hafi samþykkt þessa heimild. Kannski, hugsanlega, ef til vill verður hún notuð. Og um hvað? Jú, einn hv. þm. taldi t.d. að þetta gæti varðað innflutning á eggjum. En það er alveg vitað mál að það verður bannað af heilbrigðisástæðum. Gæti það varðað einhvern tímann innflutning á ostum? Það er rétt hugsanlegt ef Framleiðsluráð landbúnaðarins segir hæstv. landbrh. að það sé ekki nægilegt framboð á ostum innan lands. En líkurnar á því að það ástand skapist eru nú ekki miklar.
    Það er verðugt hálmstrá ef hv. stjórnarliðar ætla að bera þetta á borð fyrir tugi þúsunda af kjósendum sínum í Reykv. og Reykn., launþega og neytendur í landinu, að þetta sé útkoman úr tveggja og hálfs árs vinnu þeirra við það að framkvæma skuldbindingar okkar gagnvart GATT og efna fyrirheitin um það að þetta ættu að vera fyrstu skrefin út úr einokunarkerfinu og í átt til nýrrar aldar.
    Þeir eru hættir að reyna að segja það, sem þeir reyndu í upphafi, að þeir séu að fara að alveg eins og aðrar þjóðir því að það eru þeir svo sannarlega ekki að gera. Það er engin þjóð að fara að með þessum hætti, ekki einu sinni Norðmenn sem virðast vera helsta fyrirmynd þessarar ríkisstjórnar, hvort heldur er í sjávarútvegsmálum eða landbúnaðarmálum, enda sú þjóð sem einna lengst hefur gengið í verndarstefnu en hefur það þó umfram okkur að vera olíuríki sem getur ausið af olíulindum sínum til að greiða niður slíkar atvinnugreinar vegna þess að Norðmenn reka niðurgreiddan sjávarútveg og niðurgreiddan landbúnað.
    Samanburðurinn við aðrar þjóðir, að þetta sé sambærilegt, stenst ekki. Það eru rangar fullyrðingar, það eru staðlausir stafir. Ég hef þegar lýst því hver reginmunur er á hvernig þetta er framkvæmt yfirleitt með Evrópuþjóðum. Í fyrsta lagi er þar að sjálfsögðu um að ræða lægri tolla. Og að því er varðar þær neysluvörur er vega þyngst í útgjöldum heimilanna í Evrópu eru gerðar undantekningar í hverjum tollflokknum á fætur öðrum þar sem tollarnir eru lækkaðir, bæði verðtollar og magntollar, til þess að koma til móts við sjónarmið og hagsmuni neytenda og til þess að setja af stað öflugri hvatningu til þess að knýja á um breytingar á styrktarkerfinu þar. Evrópusambandsstefnan í landbúnaðarmálum hefur sætt mikilli gagnrýni, en hún er hálfdrættingur í verndarstefnu á við íslensku stefnuna, þ.e. ríkisstuðningurinn í Evrópusambandinu er að meðaltali á bilinu 40--45% af framleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða þar, en hún er 75% hér af heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða í þessari grein sem skilar 2,8% inn í íslenska þjóðarframleiðslu. En í skjóli misvægis atkvæðisréttar og í skjóli þess að þetta kerfi sem slíkt er svo rótgróið og svo áhrifamikið í forustu þessara tveggja flokka gerist hið sígilda að þegar þeir ná saman í ríkisstjórn renna þessir framsóknararmar beggja flokka saman í eina blokk sem situr yfir hlut allra annarra. Og það er prófsteinninn á heilindi og trúnað þingmanna, sérstaklega Sjálfstfl. og kannski nýframsóknarmannanna sem auglýstu sig sem slíka í kosningabaráttunni, að það væri ný framsókn en ekki gamla framsókn sem er

búandi á Höllustöðum --- trúnaðinn og hollustuna við kjósendur þessara tveggja flokka sem kusu þá og gáfu þeim meiri hluta og sköpuðu forsendurnar, höfðatöluna ef ekki höfuðið á þessari ríkisstjórn. Hvar er trúnaðurinn? Hvar eru efndirnar í hverju málinu á fætur öðru? Í sjávarútvegsmálum, í GATT-málefnum, í málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna, í húsnæðismálum. Loforð svikin, loforð vanefnd. Með öðrum orðum: Kosningasigrar unnir á fölskum forsendum. Þinghaldið er ekki búið að standa lengi en í hverju málinu á fætur öðru er búið að sanna það að hér sitja menn uppi með ríkisstjórn sem er komin til valda í skjóli loforða og yfirlýsinga sem nú er komið að því að efna og vanefndirnar blasa við í hverju stórmálinu á fætur öðru. ( EgJ: Eru það ekki bara frammararnir?) Nei, það eru ekki bara frammararnir í Sjálfstfl. Það eru ekki hvað síst þeir sem kjörnir voru á þing af frjálslyndu og umbótasinnuðu fólki í Reykjavík og Reykjanesi í nafni Sjálfstfl. og í jafnvel í nafni nýframsóknar sem nú sitja uppi með sárt ennið og svikin loforð og óbragð í munninum út af vanefndunum.
    Herra forseti. Það þarf ekki að segja mikið meira um þetta mál. Þetta er niðurstaðan. Þetta er bautasteinninn. Þeir urðu meira að segja að lokum að viðurkenna það að jafnvel í þessu litla hænufeti, 3% af markaðshlutdeildinni, gátu þeir ekki efnt það og reyna ekki að halda því lengur fram að það sé von um nokkrar verðlækkanir til neytenda og þá er því bjargað með sósíalismanum, þ.e. það skal þá gert upptækt í ríkissjóð ef það verður eitthvað.