Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 14:21:41 (826)


[14:21]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) :
    Herra forseti. Brtt. sú sem hér var gerð grein fyrir áðan gengur að nokkru leyti til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn. og er í samræmi við þær tillögur sem ég og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson fluttum fyrir 2. umr. Þar sem gengið er til móts við okkur í þessu stöndum við að þessari brtt. En þetta mál er vitaskuld miklu stærra heldur en það. Þetta er lokaumræða og afstaða liggur ljós fyrir. Formlega eigum við eftir að afgreiða þetta sem lög frá Alþingi, en þingmeirihluti, meiri hluti stjórnarinnar, felldi allar tillögur sem gengu út á að lækka tollana af innflutningi.
    Þarna var tekin afstaða gegn neytendum og það var í reynd tekin afstaða gegn hagsmunum bænda. Okkar áhyggjur varðandi þetta frv. um að tollar væru of háir voru studdar af yfirlýsingum langflestra umsagnaraðila sem komu að frv. hvort sem það voru aðilar sem þekktu til verslunar, verkalýðshreyfingar eða samtaka í atvinnulífi. Þeir voru sammála, langflestir þessara aðila að hér væri reitt of hátt til höggs.
    Ég barðist einkum fyrir því að lækka tollana á lágmarksinnflutningi, þ.e. á þessum 3--5%. Það voru nú ekki miklar óskir. Það var beðið um að þessi 3--5% fengju að koma inn í landið á eðlilegu verði. Þessi krafa var sanngirniskrafa og þrátt fyrir allan okkar málflutning í 1. og 2. umr. í hv. efh.- og viðskn. bar það ekki árangur. Stjórnarmeirihlutinn féllst ekki á neinar breytingar. Einu breytingarnar sem stjórnarmeirihlutinn gerði var að rýmka eilítið heimildir landbrh. til að gefa afslátt á tollum þótt mjög óvíst sé að það dugi til að fullnægja þessu markmiði.
    En stefnan liggur fyrir. Afstaða stjórnarinnar liggur fyrir í þessu máli og að okkar mati eru þessir tollar of háir. Ég veit að ég breyti ekki afstöðu ríkisstjórnarinnar núna. Menn eru búnir að gera upp sinn hug að breyta engu í landbúnaðarstefnunni að láta GATT-samninginn ná fram að ganga án þess að hann þýði raunverulega nokkrar breytingar í landbúnaðarmálum. Ég veit að hæstv. landbrh. og stjórnarmeirihlutinn breyta ekki um skoðun núna.
    En ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Ef það kemur í ljós að það verður ekki af lágmarksinnflutningi vegna þess að tollarnir eru of háir og aðrar heimildir frv. duga ekki til að tryggja lágmarksinnflutning mun þá hæstv. landbrh. leggja fram frv. á haustdögum um lækkun tolla á lágmarksinnflutningnum?