Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 14:45:25 (829)

[14:45]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég get sagt eins og danskurinn þegar hv. þm. telur að batnandi manni í mínu tilviki sé best að lifa: lige måde, lige måde, því að ég kann líka miklu betur við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sem stjórnarandstæðing heldur en ég kunni hann við hann sem ráðherra og finnst mér að mörgu leyti að hv. þm. sé nú að ná upp fyrri dampi þegar hann fór hér um landið og spurði: Hverjir eiga Ísland? og hélt 100 fundi á mettíma eins og kunnugt er. Sem sagt: okkur er þá báðum batnandi best að lifa.
    Varðandi aftur sinnaskipti hv. þm. í þessu máli, þá skil ég ekki alveg röksemdafærsluna vegna þess að ég held að ef uppboðsþóknun eða umsýsluþóknun, ef við köllum það gjaldið sem menn þá greiða til ríkisins fyrir að fá leyfi til að flytja inn, leggst ofan á háa tolla hljóti það að valda enn hærra vöruverði en ef það leggst ofan á lága tolla. Ég skil ekki nema þetta eigi að koma út á eitt. ( Gripið fram í: Þetta er dálítið flókið.) Já, þetta er dálítið flókið.
    Ég held að hugsunin eigi að vera sú, hv. þm., að þetta skipti máli, þetta geti valdið hærra vöruverði til neytenda nema við séum búin að gefa þá hugsun upp á bátinn að lágt innkaupsverð og lágir tollar skili sér yfir höfuð til þeirra sömu. Sú kenning hefur komið fram, hv. þm. Pétur Blöndal hefur haldið því fram, að þetta mundi aldrei skila sér vegna þess að menn mundu hirða mismuninn í álagningu. Ef það er röksemdafærslan skil ég þetta, en annars ekki. Þess vegna tel ég að enn standi hin sömu rök fyrir því að þetta gæti valdið hærra verði að breyttu breytanda.
    Varðandi þriðju aðferðina, að velja úr, þá er ég sammála og erum við greinilega sammála um það. Ef menn gætu treyst því að skynsamlega yrði með það farið yrði það að mörgu leyti skynsamlegasta aðferðin, en ekki að menn búi út tening með sex hliðum og það stendur búvörudeild Sambandsins á þeim öllum. Svo er þeim kastað upp. Það er ónýtt fyrirkomulag. ( Gripið fram í: Hún er víst ekki til lengur.)