Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 14:47:30 (830)


[14:47]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Í 1. umr. um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, svokölluðu GATT-samkomulagi, var sérstaklega lýst áhuga á því að heyra sjónarmið samtaka launafólks til þessa samkomulags og í því sambandi var sagt að eftir því yrði tekið hverjir mundu tjá sig um þetta mál á Alþingi. Hér er ég að vísa til málflutnings hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar. Eins og kunnugt er tengist ég samtökum launafólks sem formaður BSRB og tek þess vegna til mín þessa ósk hv. þm.
    Að sjálfsögðu tjá menn afstöðu sína á hvað áþreifanlegastan hátt við atkvæðagreiðslu og það gerði

ég við lok 2. umr. Ég vil einnig gera mjög stuttlega grein fyrir þessari afstöðu úr ræðustól. Það sem ræður minni afstöðu er eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi tel ég vera rétt að Íslendingar staðfesti GATT-samkomulagið. Fyrir Íslendinga felur samkomulagið í sér grundvallarbreytingu að því leyti að horfið er frá þeirri stefnu að leggja bann við innflutningi á landbúnaðarvöru og þegar til langs tíma er litið þjónar þessi breyting án efa hagsmunum Íslendinga. Það er ljóst að á komandi árum mun gæta vaxandi samkeppni með matvæli í heiminum og leiða má að því rök að það séu hagsmunir okkar að stuðla að þessari þróun, hvetja til þess að matvæli séu lágtolluð og niðurgreiðslur hverfandi, þar sem íslenska þjóðin byggir afkomu sína ofar öðru á útflutningi matvæla. Hér er að sjálfsögðu fyrst og fremst um að ræða sjávarafurðir, en það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu efni. Af þessum sökum er rökrétt og eðlilegt að styðja og samþykkja þann alþjóðlega samning sem hér er um að ræða og felur í sér þá grundvallarbreytingu að hverfa frá banni og heimila innflutning búvara.
    Spurningin er svo hvernig eigi að beita þessari heimild. Varðandi útfærsluna á tollum lágmarksaðgangsins sat ég hjá, en styð hins vegar ákvæði um endurskoðun í ljósi reynslunnar. Reyndar er ég þeirrar skoðunar og tek undir þá tillögu, sem hér hefur komið fram, að lögin í heild sinni verði endurskoðuð fyrir árslok 1996. En á sama hátt lagðist ég gegn breytingartillögum sem gengu út á það að lögþvinga okkur til að keyra tollana niður meira en ráð var fyrir gert í tillögum ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna?
    Hér þarf að hyggja að ýmsum þáttum. Þannig þarf að skoða það viðskiptaumhverfi sem við erum í, en á það er að líta að hvað landbúnaðarframleiðsluna snertir skera Íslendingar sig úr öllum þjóðum í okkar heimshluta að því leyti að útflutningsbætur hafa verið aflagðar hér á landi. Aðrar þjóðir búa við mismikla útflutningsstyrki til að styrkja landbúnað sinn og jafna sveiflur í verslun. Þetta þýðir að tollastefna þjóðarinnar segir aðeins hálfan sannleikann um vilja þeirra til að lúta markaðslögmálum.
    Í þessu sambandi þarf þannig einnig að hyggja að öðrum þáttum, svo sem útflutningsbótum og þetta verðum við að hafa í huga þegar við fetum okkur inn á braut opnari viðskipta með matvæli og þess vegna er rangt að líta á verslun með landbúnaðarafurðir einvörðungu út frá þröngum neytendasjónarhóli. Skoða verður samkeppnisstöðuna í heild sinni og efnahagslegar og þjóðfélagslegar afleiðingar sem hljótast af þeim breytingum sem gerðar eru.
    Það er rangt, sem oft er gert og hefur verið gert í umræðum um þetta mál, að stilla þjóðinni upp í gagnstæðar fylkingar neytenda og framleiðenda. Staðreyndin er að sjálfsögðu sú að neytandinn er iðulega jafnframt framleiðandi og öfugt, framleiðandinn er jafnframt neytandi, og í sameiningu borgum við með sköttum okkar atvinnuleysisbætur og annan tilkostnað sem hlotist getur af óvarlegri og einsýnni atvinnustefnu.
    Nú er það alveg rétt, sem haldið hefur verið fram af þeim sem hafa viljað ganga lengra í lögþvinguðum tollalækkunum, að samkvæmt þessum lagabreytingum er gert ráð fyrir mjög kröftugri tollavernd og að í raun verði ekki grundvallarbreyting þar á næstu árin. Þetta er hins vegar ekki frábrugðið því sem gerist með öðrum þjóðum. Þannig komst sérfræðinganefnd OECD að þeirri niðurstöðu í vetur eftir að hafa farið yfir samningstilboð helstu þjóða sem aðild eiga að GATT-samkomulaginu að það muni ekki leiða til neinna umtalsverðra breytinga á heimsviðskiptum með búvörur allra næstu árin einfaldlega vegna þess að alls staðar verði háir tollmúrar eftir sem áður. Hins vegar er á það að líta að í þeim lagabreytingum sem hér eru til umfjöllunar er að finna heimildir og hægt að gera allar þær breytingar sem þeir sem lengst vilja ganga í þessu efni æskja.
    Með GATT-samkomulaginu er verið að stíga stórt skref því að með því er búvörum komið inn í ramma almennra viðskipta. Miklar líkur eru á því að í næsta skrefi verði alþjóðleg tollvernd með búvörur skorin niður svo að um munar. Mikilvægt er að íslenskur landbúnaður verði vel í stakk búinn að mæta þeirri samkeppni sem það mun hafa í för með sér. Ég er sannfærður um að það þjónar best hagsmunum þjóðarinnar að horfast í augu við þessar breytingar tíma og bregðast við af raunsæi.
    Ég tek undir að það er auðvelt að leiða að því rök að heppilegra væri að stíga stærri skref til lækkunar tollverndar en gert er ráð fyrir í frv., en mikilvægast af öllu er þó að undirbúa þau skref sem fram undan eru. Samtök launafólks, Alþýðusambandið og BSRB, hafa þannig hvatt til þess að ríkisvaldið hafi frumkvæði að því að efnt verði til samráðs milli bændasamtakanna, samtaka launafólks og annarra áhrifaaðila í þjóðfélaginu og þess freistað að ná víðtæku samkomulagi til að búa í haginn fyrir þær breytingar sem fram undan eru. Slíkt mundi þjóna hagsmunum neytenda, bænda og þar með þjóðfélagsins alls og auðvelda okkur aðlögun að markaðsaðstæðum sem fyrirsjáanlegar eru. Með þessu móti fengjum við stýrt þróuninni en létum ekki stjórnast af henni.
    Árið 1991 var efnt til samráðs af þessu tagi og náðist samkomulag um að draga verulega úr útgjöldum til landbúnaðarmála. Þannig voru útgjöld vegna búvörusamninga á árunum 1988--1991 að meðaltali 11,3 milljarðar uppreiknað á ári. Framlagið árið 1994 var komið niður í um 7 milljarða kr. Þannig hefur dregið úr þessum útgjöldum ríkissjóðs um 3--4 milljarða á ári hverju.
    Nú ber að leggja á það áherslu að gagnvart bændum gengu þær vonir sem menn höfðu gert sér ekki eftir. Menn höfðu gert ráð fyrir því að hluti stéttarinnar mundi nýta sér fjárhagslegar ívilnanir hins opinbera til að hætta framleiðslu, en sem kunnugt er gerðist þetta ekki. Afleiðingin varð flöt skerðing og með áframhaldandi sölusamdrætti og birgðasöfnun á bændastéttin það almennt á hættu að lokast inni í fátækragildru svo að notuð séu þau orð sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson viðhafði hér í ræðustól og ég tek undir. En mín skoðun er sú að við eigum að fara aðrar leiðir en hann leggur til.
    Ég tel hins vegar að ekki dugi annað en létta af kvótahömlum hið fyrsta og auka frjálsræði í verðlagningu á landbúnaðarvörum, en við slíkar aðstæður yrði mjög mikilvægt að riðið yrði þétt öryggisnet fyrir þá bændur sem vildu hverfa frá þessari framleiðslu. Um þetta yrði að gera samkomulag og að því þarf að vinna hvað sem líður þeim tollmúrum sem við leggjum upp með samkvæmt þeim lögum sem hér er verið að samþykkja. Þó að tollmúrarnir séu háir í upphafi, þá er ég sannfærður um að tollar á matvæli munu lækka og það hefur það í för með sér að það verður að gera skipulagsbreytingar í landbúnaðarframleiðslu þannig að atvinnuvegurinn geti mætt aukinni samkeppni frá útlöndum á komandi árum, en ég tel það óhjákvæmilega þróun.