Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:00:48 (832)


[15:00]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað, en mér þykir að sumir hv. þingmenn tali eins og þeir hafi aldrei komið áður að þessu máli. Auðvitað hafa þeir gert það. Ég hef áður látið mín sjónarmið í ljós og skal ekki lengja þessa umræðu. En ég vil þó ítreka að þetta frv. er auðvitað málamiðlun milli framleiðenda og neytenda og það vita hv. þingmenn mætavel.
    Samt sem áður lagði meiri hluti efh.- og viðskn. sig fram um að koma meira til móts við hagsmuni neytenda með brtt. og með leyfi virðulegs forseta vil ég fá að rifja upp eins og þær voru skýrðar í 2. umr. þessa máls.
    Aðalbreytingin sem meiri hluti nefndarinnar lagði til fólst í tvennu: Í fyrsta lagi var lagt til að inn í þá grein frv. sem fjallar um tollkvóta verði bætt nýjum valkosti fyrir landbrh. þegar hann ákveður hvaða tollar skuli lagðir á þær vörur sem tilgreindar eru í viðauka IVA, þ.e. hina svokölluðu viðbótartollkvóta sem heimilt er að leyfa innflutning á. Í frv. er gert ráð fyrir tveimur valkostum, að annaðhvort skuli þessir tollar vera 75% af þeim magntolli sem lagður er á hlutaðeigandi vörulið eins og hann er tilgreindur í tollskrá eða miða við þann toll sem gildir fyrir svokallaðan lágmarksaðgang. Meiri hluti nefndarinnar lagði til að ef ráðherra kysi að miða við magntollinn, þá gæti hann valið milli þess hvort um væri að ræða 50 eða 75% af honum í hverju tilviki. Með þessari breytingu var verið að koma til móts við þá gagnrýni sem fram kom m.a. frá Neytendasamtökunum þess efnis að þrátt fyrir lágmarksmarkaðsheimildina væru litlar líkur á því að um innflutning yrði að ræða þar sem tollar á þann innflutning yrðu það háir.
    Í öðru lagi var lagt til að nýju ákvæði yrði bætt inn í 20. gr. frv. og það felur í sér skírskotun til hvaða atriða landbrh. beri að líta þegar hann tekur ákvörðun um úthlutun viðbótartollkvóta samkvæmt viðauka IVA og B. Nánar segir:
    ,,Annars vegar skal hann hafa til hliðsjónar að nægilegt framboð á hæfilegu verði sé til staðar á hverri vöru á hverjum tíma. Hins vegar skal hann líta til þess hvort þeir lágmarkstollkvótar sem hann hefur þegar úthlutað samkvæmt viðauka III hafi verið nýttir af leyfishöfum eða ekki.``
    Og með vali á tolltöxtum samkvæmt 3. og 4. mgr. 3. gr. frv. getur hann haft áhrif í því efni. Tilgangur þessara breytinga er annars vegar að lögin gefi leiðbeiningu um það hvenær og í hvaða skyni úthluta skuli hinum frjálsu kvótum og hins vegar að fram komi í lögunum að tilgangur þessa ákvæðis sé m.a. að stuðla að því að innflutningur verði í samræmi við skuldbindingar samkvæmt GATT-samkomulaginu. Með báðum þessum breytingum var því verið að koma til móts við þau neytendasjónarmið sem fram komu hjá mörgum þeirra gesta sem fyrir nefndina komu og í umsögnum með nefndinni bárust og sumir hv. þingmenn hafa m.a. vitnað til í þessum umræðum.
    Ég rökstuddi þessar brtt. sérstaklega með dæmum við 2. umr. og þau segja sína sögu. Því verður auðvitað fylgt eftir pólitískt séð að þessu markmiði löggjafans verði framfylgt.
    Það var minnst á kosningabaráttuna hér áðan, en í kosningabaráttunni var haldinn sérstakur fundur um GATT-málið á vegum Neytendasamtakanna í Reykjavík þar sem fulltrúar allra flokkanna mættu og þar var engum blekkingum beitt varðandi GATT-málið af hálfu sjálfstæðismanna. Við erum að stíga hér stórt skref eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson veit, enda var hann sjálfur hæstv. utanrrh. í síðustu ríkisstjórn sem mótaði gang þessa máls og Alþfl. kom að sjálfsögðu fullkomlega að.
    Vissulega er þetta frv. álitamál og reynslan ein fær skorið úr því hver áhrifin verða. En kollsteypur þjóna engum tilgangi og það verður að vera aðlögunartími. Alþingi hefur það í hendi sér á hverjum tíma að breyta þessum tollum og það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt mál í þessu sambandi og ég tel enda rétt og eðlilegt að tollarnir verði endurskoðaðir að nokkrum tíma liðnum þegar reynsla er fengin.
    Vegna umræðna um þá brtt. sem efh.- og viðskn. flytur við 3. umr. málsins skiptir auðvitað máli að með þessari brtt. skapast möguleiki á því að koma í veg fyrir að kvótar gangi kaupum og sölum, en gert er ráð fyrir að það ráðist af aðstæðum hverju sinni hvaða aðferð til úthlutunar er valin, og þetta mál hafði verið rætt þó nokkuð í nefndinni.
    Virðulegi forseti. Ég ítreka að við erum að stíga stórt skref í þessu máli sem getur leitt til mikilla breytinga í íslensku þjóðfélagi, enda eru fulltrúar allra flokka á Alþingi sammála því að láta þetta mál fram ganga. Og þeir eru einnig allir sammála því að hafa tollvernd í frv., enda þótt menn greini á um hversu langt eigi að ganga, a.m.k. í þetta sinn.