Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:19:44 (837)


[15:19]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ekki veit ég hvaðan hæstv. forsrh. hefur það að ég hafi lýst því yfir að vinstri stjórn væri borðleggjandi vegna þess að það er ekki rétt eftir mér haft. En það er athyglisvert að hæstv. forsrh. vill minna á það hvernig til núv. ríkisstjórnar var stofnað. Og það er rétt að formaður Framsfl. óskaði eftir viðtali við þann sem hér stendur og kvaðst gera svo í umboði félaga sinna úr stjórnarandstöðu á fyrra tímabili. Hann fékk þau svör hjá mér og hefur staðfest að það sé rétt að ég mundi ekki vera í stjórnarmyndunarviðræðum við annan flokk meðan á viðræðum stæði milli samstarfsflokkanna. Ef þeim viðræðum yrði hins vegar slitið, þá værum við reiðubúnir til þess að ræða við formann Framsfl. Hvernig hann túlkar þessi ummæli á þann veg að vinstri stjórn hafi verið borðleggjandi er mér ókunnugt um, það hlýtur hann að skýra fyrir sjálfum sér. Ég hef ekki sagt það og ekkert fullyrt um það.
    Alþfl. var með hreinan skjöld í þeim viðræðum. Hann lýsti því yfir að hann yrði ekki í stjórnarmyndunarviðræðum við aðra flokka á sama tíma og við tókum það trúanlegt að hæstv. forsrh. beitti sér fyrir áframhaldandi viðræðum stjórnarflokkanna. Það er meira en sagt verður um Sjálfstfl. undir forustu hæstv. forsrh.