Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:32:34 (839)


[15:32]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég spurði landbrh. hvort hann mundi á haustdögum leggja fram frv. um lækkun tolla á lágmarksinnflutningi ef sýnt væri að yrði ekki af innflutningi. Hann færðist undan að svara og það er í sjálfu sér svar. Hæstv. landbrh. benti á að Alþingi gæti breytt lögum. Vitaskuld getur Alþingi breytt lögum. Það var ekki mín spurning, hæstv. ráðherra. Ég spurði hvort hæstv. ráðherra mundi leggja fram frv. um lækkun tolla.
    Það er augljóst í þessu máli að það á að afgreiða það. Framsóknarmenn allra flokka sameinast um óbreytt ástand og þegar hæstv. landbrh. skýlir sér á bak við álit meiri hluta landbn., leggur mat hv. þm. Guðna Ágústssonar og Egils Jónssonar á Seljavöllum í þeirra meirihlutaáliti til grundvallar hvernig hann ætlar að taka á hugsanlegum breytingum á þessu frv., þá segir það alla söguna um hvernig hæstv. landbrh. ætlar að fara með þær heimildir sem honum verða faldar með þessu frv.
    Niðurstaðan er ljós í þessu máli. Það voru neytendur sem töpuðu. Þessu verður fylgt áfram eftir á haustþingi með breytingartillögum. Það verður reynt að knýja fram leiðréttingu á þessu þótt niðurstaðan hafi orðið eins og stjórnarmeirihlutinn vill hafa það nú.