Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:41:06 (843)


[15:41]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég geri ekki lítið úr því og held áfram að lýsa því yfir að það þarf auðvitað að bregðast við alvarlegu ástandi á ýmsum sviðum þjóðfélagsins þar sem kann að ríkja sárafátækt og neyðarástand. Og ég get sagt það við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson að í þeim málaflokki sem ég fer með, þ.e. landbúnaðarmálunum, hef ég miklar áhyggjur af því ástandi sem ríkir hjá sauðfjárbændum. Ég hef lýst því yfir margsinnis, bæði hér í þessum ræðustól og við fjölmiðla, og í landbrn. er einmitt hafin vinna til þess að reyna að bregðast við þeim vanda. En ég verð að ítreka það aftur að ég tel að það sé með öllu útilokað og ómögulegt að það liggi fyrir einhverjar lausnir á því vandamáli eða hvernig brugðist verður við því ástandi sem undir þann málaflokk heyrir og þann ráðherra sem hér stendur, að bregðast við því ástandi sem ríkir hjá mörgum sauðfjárbændum.
    Um endurskoðunarákvæðið ræddi ég áðan. Ég þarf ekki að endurtaka út af fyrir sig það sem ég sagði þá. Það eru auðvitað eins og kom fram hjá hv. þm. mörg fordæmi fyrir því að endurskoðunarákvæði hafa verið lögbundin. Ég er ekkert að andmæla því á nokkurn hátt, en ég sagði það líka að ég teldi að það gæti verið einnig óþarft og kannski í sumum tilvikum málinu ekkert til framdráttar að hafa yfir sér einhver dagsett ákvæði um það að fyrir þann tíma skuli lög vera tekin til endurskoðunar eða boðaðar einhverjar breytingar sem menn ekki sjá fyrir fram og vita ekki hvort þarf að leggja til eða bregðast við fyrr en reynslan hefur skorið úr um það. Þau fyrirheit sem hér hafa verið gefin í umræðum og gefin eru í þeim álitum sem ég vitnaði til, hvort sem þau eru frá hv. landbn. eða einhverjum öðrum, tel ég að séu meira virði og það liggi fyrir að menn fylgist með framkvæmd málsins og séu þá auðvitað tilbúnir til þess að bregðast við ef þeir álíta að framkvæmdin sé óásættanleg.