Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:50:08 (847)


[15:50]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem ég hef áður sagt og ætla að segja það við hv. 4. þm. Norðurl. e. að ég ætla ekki að gefa neina yfirlýsingu um hvernig kann að verða staðið að þessari brtt. hans. Ég hef lýst afstöðu minni til þess og jafnframt sagt það, sagði það held ég áðan, að ég gæti

auðvitað ekki gefið neina yfirlýsingu fyrir hönd stjórnarliða um hvernig þeir taka á eða bregðast við í atkvæðagreiðslu um málið. Málið hefur komið hér inn í umræðuna með afbrigðum og mælt fyrir því af hálfu hv. flm. en ekki verið tekið annars staðar til frekari umfjöllunar. Það má svo sem velta þessu ákvæði fyrir sér, hvernig þetta hljóðar, hvort það er eins og eðlilegt væri.
    Ég sagði líka að það væru fjölmörg fordæmi fyrir því að ákvæði um endurskoðun væri inni í lögunum. En ég hef líka marglýst því yfir, bæði við 2. umr. og eins núna, að það verði fylgst vel með málinu og það sé eðlilegt að þingið geri það og ríkisstjórnin sé tilbúin til að bregðast við ef framkvæmdin ætlar að sýna sig að verða ekki ásættanleg. Þá verður það auðvitað gert.
    Ég hef líka vitnað til ákvæða í nefndarálitum í þessu sambandi og ég mun láta það duga, hæstv. forseti.