Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:53:41 (849)


[15:53]
     Pétur H. Blöndal :
    Herra forseti. Nokkurs misskilnings hefur gætt í ræðum hv. þm. og þá sérstaklega hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, 9. þm. Reykv. Hann segir að tollar lækki ekkert. Lágmarksaðgangurinn sem um er talað byggir á krónutölusköttum og þær krónutölur verða ekkert hækkaðar á næstu fimm árum. Nú er það svo að þó verðbólga sé orðin lítil er hún ekki horfin og þetta mun valda 5--10% lækkun á þessum tollum á þessu tímabili og þar með möguleikum á lágmarksinnflutningi. Einnig hefur endurtekið verið vísað í ummæli innflytjenda, t.d. Hagkaups, um að þeir mundu ekki flytja neitt inn. Það sögðu þeir áður en hv. efh.- og viðskn. gerði brtt. sem olli töluverðri lækkun á þessum lágmarkstollum. Lágmarkstollarnir voru lækkaðir úr 75% og nú er líka möguleiki að taka 50%. Það þýðir að t.d. ef við tökum svínakótilettur, þar sem fasti krónutöluskatturinn er 775 kr. á kg, þá eru 75% 581 kr. á kg, en 50% eru 388 kr. Þannig að sú lækkun sem hv. efh.- og viðskn. lagði til er hvorki meira né minna en 200 kr. á kg. Og ef það getur ekki valdið því að það verði innflutningur þá veit ég ekki hvað er að.
    Varðandi það að 3% innflutningur geti valdið lækkun á verði til neytenda, þá veit ég ekki hverjum hefur dottið það í hug. Það eru væntingar sem einhver hefur lofað og kannski vænst, en lítum á hvernig þetta kemur fyrir í raunveruleikanum. Segjum að einhver innflytjandi gæti flutt inn nautakjöt á 1.000 kr. kg, nautalundir, og þær væru til sölu í verslunum allt í kring á 1.800 kr. Af hverju í ósköpunum ætti maðurinn að selja þetta á 1.000 kr.? Jú, hann getur svo sem gert það til að auglýsa sig upp, en þá er það líka auglýsingakostnaður. Hann er þá búinn að ná heilmikilli auglýsingu sem hann mundi þurfa að borga fyrir annars staðar. Hann nýtur því á einhvern máta þess verðmunar ef hann ekki hreinlega stingur því vasann sjálfur.
    Að búast við því að verðlækkun á 3% af markaði valdi verðlækkun almennt á markaðnum er rangt --- þeir menn þekkja ekki viðskipti sem halda það. Það þarf að vera innflutningur upp á 20--30% með lægri tollum, verulega lægri tollum, til að valda almennri lækkun á verðlagi. Ég ætla vona að menn skilji þetta.
    Ég vil benda á það sem ég benti á fyrr í umræðunni, við 2. umr., að við erum að gera mjög mikla breytingu, við erum að opna það sem áður var bannað, og það er að mínu mati meginatriði þessa máls. Og það er von að margir séu hræddir við þær breytingar. Fólk er yfirleitt hrætt við breytingar, það veit hvað það hefur en ekki hvað kemur. Mér heyrist á flestum hv. þm. að þeir séu sammála því að flytja ekki meira en 3--5% inn með lægri tollum. Sem sagt að valda ekki landbúnaði Íslands verulegri hættu sem mundi gerast ef hér mundi steypast inn segjum allt sem hægt er að flytja inn ótakmarkað.
    Við verðum að veita landbúnaðinum tíma til að aðlagast. Og ég held að það séu nánast allir sammála því. Það sem menn eru ekki sammála um er trúin á hvort af þessu verður, af þessum 3--5% og það eru menn ekki vissir um.
    Þá kemur einmitt að brtt. frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að Alþingi setji í lög ákvæði um að það skuli endurskoða þessi lög fyrir árslok 1996. Ef maður lítur á þetta ákvæði rökfræðilega er það alveg furðulegt. Ef einhver maður les lögin fyrir árslok 1996 veit hann að þetta verður endurskoðað, ef hann les lögin eftir árslok 1996 spyr hann: Hver á að endurskoða? Er það fjmrh. eða hver á að endurskoða? Sem sagt skylda sem Alþingi Íslendinga hv. leggur á sjálft sig að breyta lögum.
    Nú er það þannig að hver einasti hv. þm. á Alþingi hefur heimild til að leggja fram frv. að lögum og láta ræða það. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gæti að sjálfsögðu ,,nóterað`` í bókina sína: Rétt fyrir áramót árið 1996 ætla ég að leggja fram frv. til laga um að endurskoða þessi ákvæði. Svona ákvæði getur meira að segja tafið fyrir. Einhver þingmaður kemur í haust, t.d. ég, og segir: Ég er ekki ánægður með innflutninginn sem varð, þetta er mjög lítið og minna en búist var við --- maður sér það að sjálfsögðu ekki í haust, sér það kannski um jólin. Þá fer ég á stað og spyr einhvern þingmann að því hvort það eigi ekki að fara að endurskoða þessi ákvæði og þá segir hann: Í lögunum stendur 1996, við skulum bara bíða. Þetta ákvæði gæti hugsanlega tafið fyrir. Ég sé ekki að hv. Alþingi þurfi að setja sér svona kvaðir því að hver einn og einasti þingmaður hefur leyfi til að koma með svona brtt. fyrir þennan tíma. Svona ákvæði í lögum er bara furðulegt.