Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 16:04:46 (853)


[16:04]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Þetta eru mjög athyglisverðar rökræður um markaðshagfræði milli hv. þm., formanns Alþb. og fulltrúa markaðshyggjunnar í Sjálfstfl., hv. þm. Péturs Blöndals.
    Segjum nú sem svo að hv. þm. Pétur Blöndal hafi rétt fyrir sér. Að skömmtun á þessu lítilræði, 3%, þýði í reynd að menn færi verðið upp að innlendu markaðsverði og styngi lottóvinningnum í vasann sem eru rök hv. þm. Þá er hann raunverulega að segja: Eina leiðin til þess að stuðla að samkeppni er að sjálfsögðu sú að þetta taki til stærri markaðshlutdeildar. Hvers vegna er það þá að hv. þm. styður ekki þá einu tillögu sem hér hefur verið lögð fram um nákvæmlega það, þ.e. að tollunum verði stillt þannig að það verði að vísu tryggð vernd í upphafi plús fjarlægðarvernd, en síðan að verndin fari lækkandi á aðlögunartímanum. Hv. þm. á eftir að svara þessu: Er hann ekki almennt sammála því að samkeppnin sé nú af hinu góða? Gefið að við viljum báðir tryggja vernd í upphafi. Kann hann einhverja aðra leið til þess að beita aðhaldi við að rjúfa stöðnun einokunar en að smám saman verði samkeppni innleidd? Er hann virkilega að halda því fram ásamt hv. þm. Agli bónda og hv. þm. Páli Péturssyni á Höllustöðum að það sé skaðlegt fyrir bændur að mæta slíkri samkeppni smám saman? Ætlar hann sem fulltrúi kjörinn af kjósendum Sjálfstfl. hingað inn á þetta þing að halda því fram að þessar skoðanir séu rangar eða skaðlegar? Telur hann virkilega að hann sé að halda fram þeim skoðunum og standa undir því trausti sem kjósendur hans byggðu upp til hans og væntingum sem þeir byggðu upp til hans með því að gerast talsmaður einokunarsjónarmiða?