Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 16:06:47 (854)


[16:06]
     Pétur H. Blöndal (andsvar) :
    Herra forseti. Eins og ég gat um áðan byggir samkeppnin sem bændastéttin verður fyrir með þessum tillögum eða þessari lagasetningu á því að það verða flutt inn 3%. Og það er sú samkeppni í magni og vörum sem landbúnaðurinn lendir í. Hann mun ekki lenda í neinni verulegri samkeppni með verð, enda sé ég ekki hvernig menn ímynda sér að lægra verð á 3% af öllum markaðnum geti valdið verðlækkun. Það er samkeppnin í innflutningnum sjálfum af þessum 3% sem landbúnaðurinn þarf að standa við og sá innflutningur á að vaxa upp í 5%. Ég tel einmitt að það sé sú samkeppni sem bændur þurfi og sé nægjanleg fyrir bændur að hafa til þess að þeir geti náð áttum aftur og staðið aftur í samkeppni.