Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 16:07:53 (855)


[16:07]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ekki vil ég rengja góðan hug hv. þm., en einhver misskilningur er nú hér á ferðinni. Hv. þm. er auðvitað kunnugt um það eins og hverjum öðrum Íslendingi og þarf ekki sprenglærðan doktor í stærðfræði til þess að bændur eru viðjaðir í einokunarkerfi. Þeir eru ríkisstyrktir en jafnframt skipar ríkið þeim að draga úr framleiðslu. Framleiðni í landbúnaði hefur verið að minnka á Íslandi. Nú er það svo að GATT gat með þeirri útfærslu sem við lögðum fram tillögur um orðið upphaf að einhverri samkeppni. En til þess að bændur hefðu getað lagað sig að breytingunum hefði um leið þurft að losa þá úr viðjum þessa kerfis. Um það lágu líka fyrir tillögur hér, hv. þm. Ágúst Einarsson og ég lögðum hér fram tillögur um að ríkisstjórnin skipaði nefnd til að hefjast handa um það og tillögurnar liggja fyrir um að afnema framleiðslustýrðar beingreiðslur, taka upp grænar greiðslur til bænda, tryggja þannig svigrúm til starfslokasamninga. En fyrst og síðast afnema kvótakerfið þannig að þeir geti brugðist við samkeppni sem væru náttúrlega þau sjónarmið sem kjósendur hv. þm. væntu af honum að hann styddi.