Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 16:09:09 (856)


[16:09]
     Pétur H. Blöndal (andsvar) :
    Herra forseti. Ég er að mörgu leyti sammála síðasta ræðumanni, hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, um að íslenskir bændur eru reyrðir í viðjar langvarandi kerfis. Kerfis sem er búið að vara mjög lengi og við skulum ekki láta okkur detta það í huga eða láta okkur dreyma um að við getum kippt þeim út úr því kerfi á einum degi.
    Hér kom fram að landbrh. er að láta vinna að tillögum um hvernig landbúnaðurinn verður búinn undir þessa breytingu. Það þarf langan tíma til. Ég hef líkt þessu við ópíumsjúkling, það þarf að venja hann af og það er ekki hægt að gera það á einni nóttu. Ég býst við að þau fimm ár sem þessi samningur gefur bændum muni duga þeim til þess að venjast af þeim styrkjum sem þeir hafa fengið og öllu því kerfi sem þeir eru negldir í og ég reikna með að hæstv. landbrh. muni einmitt vinna að tillögum í þessu skyni.