Húsnæðismál

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 17:34:31 (863)


[17:34]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Sl. laugardag, þegar umræða varð utan dagskrár um skuldastöðu heimilanna og húsnæðismál, varð ljóst í lok umræðunnar að málið var hvergi nærri útrætt. Ástæðurnar eru einkum tvíþættar. Í fyrsta lagi að undir lok umræðunnar héldu hæstv. félmrh. og hæstv. viðskrh. uppteknum hætti frá því að þeir voru í stjórnarandstöðu að gagnrýna harðlega stöðu húsnæðismála og skuldastöðu heimilanna í landinu án þess að hafa nokkrar lausnir á því sjálfir hvernig ætti að leysa það mál. Reisn þeirra var ekki mikil því þeir notuðu til þess tækifærið þegar þeir sem deilt var harðlega á höfðu ekki ræðutíma samkvæmt þingsköpum til að svara þeirra ávirðingum. Í annan stað komu fram upplýsingar frá hæstv. félmrh. varðandi áformaða hækkun á lánshlutfalli sem nauðsynlegt er að fá frekari skýringar á.
    Niðurstaða umræðnanna á laugardaginn var skelfilega dapurlegur vitnisburður um svik Framsfl. við sína kjósendur. Athyglisvert var við umræðurnar á laugardaginn að framsóknarmenn sem fyrir aðeins nokkrum vikum eða fyrir kosningar töldu að líf, heill og hamingja þúsunda heimila fólks um land allt ylli á tafarlausum aðgerðum og að tími kannana og skoðana í nefndum væri liðinn hafa bókstaflega ekkert til málanna að leggja. Bjargvættir heimilanna sem boðuðu fólki að þegar í stað, þegar í stað sögðu þeir, yrði að ráðast í stærstu skuldbreytingu Íslandssögunnar, telja nú, komnir í ríkisstjórn, rétt að salta það mál og telja að það sé frekar forgangsmál að taka hér fyrir einkavæðingu á áfengi, ofurtollar taki við af innflutningsbanni á landbúnaðarvörum og aðgerðir sem fækka um 400--500 manns í smábátaútgerð sem ógnar líka lífsviðurværi margra byggða í landinu. Það skal nú vera þeirra forgangsmál og það hjá flokki sem fjölga ætlaði atvinnutækifærum um 12.000 á kjörtímabilinu. ( GÁ: Og stendur við það.) Niðurlæging framsóknarmanna er alger og mjög gott er það að hv. þm. Guðni Ágústsson skuli nú vera mættur til leiks. En uppgjörið sem þeir sögðu kjósendum að nú færi fram við Sjálfstfl. birtist nú kjósendum í því að þeir ganga nú í hlutverk skósveinsins við að framfylgja frjálshyggjustefnu sjálfstæðismanna. Blekkingar framsóknarmanna og yfirboð við kjósendur eru skólabókardæmi um það hvernig orð og efndir fara iðulega ekki saman í stjórnmálum og hvernig stjórnmálaflokkar eiga ekki að koma fram við kjósendur sína.
    Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er ekki hægt að ætlast til að framsóknarmenn komi í höfn á fyrstu vikum sínum í ríkisstjórn öllum kosningaloforðunum um að bjarga heimilunum í landinu. En það er mjög ámælisvert og raunar sorglegt að framsóknarmenn sem fyrir örfáum vikum vildu tafarlausa lagasetningu um greiðsluaðlögun heimilanna, 40 ára lánstíma húsnæðislána og boðuðu tafarlausa lækkun og frystingu á skuldum fólks í greiðsluvanda hafi nú ekki eina einustu lausn fram að færa til þess að leysa greiðsluvanda heimilanna og hafa þeir nú öll málin í sínum höndum í því efni. Málflutningur þeirra gengur út á að berja á húsbréfakerfinu sem þeir þó kappkosta í sama orðinu að segja að þeir telji að starfrækja eigi áfram og leggja ekki fram neinar marktækar tillögur um að breyta. Það er ekki mikil reisn yfir þessu, virðulegi forseti.
    Sl. laugardag kom þrennt fram í máli hæstv. félmrh. sem ég vil fara nokkrum orðum um og spyrja ráðherrann um nokkurra spurninga. Í fyrsta lagi greindi hann frá skipun tveggja nefnda, önnur á að vinna að frv. um greiðsluaðlögun og hin að athuga kosti þess að lánstími fasteignaverðbréfa yrði breytilegur frá 15--20 ára.
    Í öðru lagi greindi hann frá áformum um að hækka lánshlutfall í húsbréfakerfinu í 70%. Loforðið um greiðsluaðlögun er í hnotskurn lýsing á svikum og blekkingum framsóknarmanna í húsnæðismálum. Tími skoðana og kannana á ástandinu er liðinn. Ástæður greiðsluerfiðleika eru kunnar, tími aðgerða er runninn upp. Því er þetta frv. um greiðsluaðlögun flutt, sagði hæstv. núv. viðskrh. á Alþingi fyrir nokkrum vikum, þá óbreyttur þingmaður. Í gær sagði hæstv. viðskrh. í útvarpi að nú yrði bara frv. flutt þegar fram liðu stundir og sættir hann sig vel við að heimili í greiðsluerfiðleikum bíði skoðunar og athugunar í nefnd félmrh. Áhrif þess að lengja húsbréfalánin í 40 ár á nú að skoða í nefnd enda þótt félmrh. geti hæglega fengið þá vitneskju nú þegar frá ráðgjöfum sínum hvað það þýðir að lengja húsbréfalánin í 40 ár. Gallarnir við lánalenginguna eru augljósir. Það eru aukin afföll um á að giska 8% og meiri kostnaður hjá skuldurum, hærra íbúðarverð, t.d. um 5% á íbúð sem ber 40 ára lán, tvöfalt meiri vaxtagreiðslur á öllum lánstímanum eða um 4 millj. í stað 2 millj. fyrir venjulega þriggja herbergja íbúð. Ávinningur fólks sem er með 3 millj. kr. húsbréfalán er um 3 þús. kr. á mánuði vegna lánalengingarinnar í 40 ár hverfur því umsvifalaust í meiri afföllum og hærra verði íbúða. Þetta bjargráð framsónarmanna mun engu

skila fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum. Vinnubrögð hæstv. ráðherra að draga fólk á asnaeyrunum og setja málið í nefnd eru bæði mjög ámælisverð og alvarleg fyrir fólkið sem á hlut að máli. Það er líka ábyrgðarhluti að setja fasteignamarkaðinn í uppnám í marga mánuði meðan nefnd ráðherra skoðar og kannar úrræði sem þegar liggur ljóst fyrir að muni engu skila fyrir fólkið og einungis leiða til að fólk fer í biðröð eftir að lánalenging komi til framkvæmda sem getur skrúfað upp vexti og afföll af lánunum. Ég skora á ráðherrann að létta af óvissunni sem er í þessu máli og spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi eitthvað kynnt sér hvaða áhrif þessi loforð muni hafa, bæði fyrir lántakendur og fasteignamarkað.
    Ég hef einnig lagt spurningar fyrir hæstv. félmrh. og snertir aðallega hækkun á lánshlutfalli upp í 70% sem hann kynnti á laugardaginn. Spurningar mínar eru þessar:
    Í fyrsta lagi. Hver er ástæða þess að félmrh. hefur fallið frá þeirri yfirlýsingu sinni að hækka lánshlutfallið í húsbréfakerfiu í 75%?
    Í öðru lagi. Hverjir eiga rétt á 70% lánshlutfalli í húsbréfakerfinu?
    Ef einungis er um að ræða fyrstuíbúðarkaupendur er spurt hvernig skilgreining á fyrstuíbúðarkaupendum verður og hvort hækkunin nái til:
    1. Fólks sem hefur misst íbúð sína og stendur uppi eignalaust.
    2. Hjóna eða sambúðarfólks sem eiga enga íbúð en annar aðilinn hefur einhvern tíma á ævinni átt hluta í íbúð sem hann hefur misst.
    3. Fólks sem stendur eignalaust uppi eftir skilnað eða er jafnvel með skuldir umfram eignir.
    4. Fólks með innan við 10% nettóeign í íbúð.
    5. Fólks í miklum greiðsluvanda og ef svo er ekki þá er spurt: Hversu lengi þurfa íbúðareigendur í greiðsluvanda að bíða úrlausnar sinna mála og hverjar verða þær aðgerðir?
    Einnig er spurt: Hvað eykur það útgáfu húsbréfa á árinu 1995 í fyrsta lagi á ársgrundvelli að hækka lánshlutfallið og í annan stað það sem eftir lifir ársins 1995? Ég tek eftir því í Morgunblaðinu í dag að aðstoðarmaður ráðherra nefnir að til þess sé svigrúm á þessu ári að fara með lánshlutfallið upp í 70% og það kalli ekki á aukna útgáfu húsbréfa. Ég vara við því að þessi skoðun sé sett fram vegna þess að það er alveg augljóst að fasteignamarkaðurinn hefur verið í ákveðinni biðstöðu og fólk hefur verið að bíða eftir að ráðherrann stæði við loforð sín og þegar það liggur fyrir hver þau verða gæti farið svo að fólkið færi úr þessari biðröð og færi þá allt í einu að kaupa og selja fasteignir. Ég spái því að þetta kalli á aukna útgáfu húsbréfa.
    Að lokum er spurt: Hvaða áhrif mun það hafa á fasteigna- og vaxtamarkaðinn ef fólk frestar fasteignaviðskiptum og fer í biðröð eftir að staðið verði við aðgerðir í húsnæðismálum?
    Þetta eru þær spurningar sem ég hef lagt fyrir ráðherrann og og vænti að hann geti svarað vegna þess að ég lét hann hafa spurningarnar fyrir umræðuna þannig að hann gæti þá gefið greinargóð svör um það og það væri einnig gott að fá upplýst hvort hann standi við það loforð sem hann hefur einnig gefið um það að rýmka útgáfu húsbréfa og rýmka heimildir vegna viðhalda á fasteignum. Ráðherrann hefur látið þá skoðun sína í ljós að það þurfi að ráðast í að rýmka heimildir vegna viðhalds á fasteignum og talar um að það sé mjög atvinnuskapandi og er það rétt hjá ráðherranum. Núna þegar sumarið fer í hönd er spurning hvort þess megi vænta að ráðist verði í það að rýmka einnig heimildir vegna viðhalds á fasteignum.