Húsnæðismál

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 17:52:29 (865)


[17:52]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Sl. laugardag hafði ég framsögu um húsnæðismál og skuldastöðu heimilanna. Sú umræða sem þá fór fram var að mörgu leyti ágæt þótt niðurstöður væru um margt óljósar. Nú eru niðurstöðurnar smám saman að lýsast í þá veru að þetta sé svolítið mikið af kannski og svolítið mikið af ef. Hins vegar er talað um þrjá þætti. Það er talað um að koma á fót bráðaþjónustu fyrir fólk sem á í greiðsluvanda en vandinn er hins vegar sá að ráðgjöfunum sem eiga að annast þessa bráðaþjónustu eru ekki fengin nein tæki í hendur. Þeim er ekki veittur aðgangur að fjármagni og ég vakti máls á því í minni framsöguræðu um daginn að þörf væri á því að setja á fót sérstakan sjóð sem ríki, sveitarfélög og hugsanlega fleiri aðilar, t.d lífeyrissjóðir, ættu aðild að og sem veitti fjármagn til fólks í greiðsluvanda á lágum og viðráðanlegu kjörum.
    Reyndar vil ég bæta því við að þarna þurfa að koma aðrar ráðstafanir einnig og þá þurfum við að fá sveigjanlegar sveiflujafnandi og greiðslujafnandi húsnæðisbætur. Þetta þarf síðan að stilla saman þannig að úr verði einhver raunveruleg bjargráð.
    Í annan stað er talað um að hækka lánshlutfall til þeirra í húsbréfakerfinu sem eru að festa kaup á íbúð í fyrsta skipti. Mig minnti að hæstv. félmrh. hefði gefið þá yfirlýsingu fyrir skömmu að þetta yrði hækkað í 75% þegar í vor.
    Í þriðja lagi er talað um að setja í nefndir og það hafi þegar verið gert bæði spurninguna um

greiðsluaðlögun og hins vegar um breytilegan lánstíma. Ég man ekki betur en þessi mál bæði hefðu verið til umfjöllunar í nefndum og ég hef saknað þess svolítið að hv. þingmenn Sjálfstfl. hafa ekkert tjáð sig um húsnæðismálin að marki. Að vísu kom hv. þm. Pétur Blöndal í ræðustól í umræðunni á laugardag en það væri fróðlegt að heyra sjónarmið þeirra og afstöðu sem létu þessi mál til sín taka á síðasta kjörtímabili og tóku þátt í því starfi sem þá var unnið, ekki síst til þessara mála en ég stóð í þeirri trú að þessi vinna hefði farið fram í ítarlegri athugun á vegum nefndar sem þá var starfandi.
    Hitt vil ég segja að þessi umræða hefur svolítið einkennst af karpi um það hver eigi sök á því hvernig málum er komið. Þannig er hæstv. félmrh. mjög uppsigað við húsbréfakerfið eins og við höfum öll orðið vör við hér. Aðrir hafa haft sitthvað að athuga við svokallað 86-kerfi, en það sem mestu máli skiptir að sjálfsögðu er hver niðurstaðan verður, að gripið verði til yfirvegaðra ráða.
    Ég vakti máls á því hér að það væri ástæða til að skoða þetta frá fleiri hliðum en húsnæðiskerfinu einu þröngt séð. Það kemur nefnilega í ljós þegar menn gaumgæfa þær athuganir sem gerðar voru á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á sínum tíma að það fólk sem á í mestum greiðsluvanda er fólk sem hefur orðið fyrir mestri skerðingu á undanförnum árum vegna svokallaðra jaðarskatta. Barnabætur, vaxtabætur og aðrar bætur hafa verið lækkaðar eins og kunnugt er. og það er að þessum þætti málsins sem ég hygg að þurfi að gefa nánari gætur, þ.e. greiðslugetu fólks.
    Það getur nefnilega verið að lausnanna sé að leita utan húsnæðiskerfisins sjálfs. Að hluta til held ég að svo sé. Þess vegna kom mér það svolítið spánskt fyrir sjónir þegar ríkisstjórnarflokkarnir eða fulltrúar þeirra sem höfðu talað mjög mikið um þessar skerðingar og hversu alvarlegar þær hefðu verið, meira að segja hæstv. forsrh., sem var fyrsti ábyrgðarmaður fyrir síðustu ríkisstjórn, sagði fyrir kosningar að sú gagnrýni sem hefði komið fram að jaðarskattar væru orðnir of háir væri rétt og á þessu þyrfti að ráða bót. Síðan kom það mönnum á óvart að þegar stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar var birt þá var sagt að ekki yrði ráðin á þessu bót fyrr en í fyrsta lagi í ársbyrjun 1987 og þá væntanlega í tengslum við kjarasamninga sem yrðu gerðir þá um áramótin.
    Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. hvort hann sé sammála því mati mínu að vandinn sem steðjar að fólki sem á í greiðsluerfiðleikum vegna húsnæðiskaupa kunni ekki að eiga rætur að rekja til þessa og hvort hann muni beita sér fyrir því í ríkisstjórninni að þessi afstaða til þeirra mála sem ég hér hef vikið að verði endurskoðuð við gerð fjárlaga í sumar.
    Það kom margoft fram á sínum tíma þegar menn voru að krukka í húsnæðiskerfið, t.d. þegar vextirnir í 86-kerfinu voru hækkaðir úr 3,5% upp í 4,9%, þá var það jafnan látið fygja með að það yrðu gerðar lagfæringar á vaxtabótakerfinu. Þessar lagfæringar létu alltaf á sér standa. Það eru hlutir af þessu tagi sem þurfa athugunar við. Þó að þetta eigi heima í húsnæðiskerfinu í þrengra skilningi þá held ég að það sé að verulegu leyti utan veggja þess sem þurfi að huga að.