Húsnæðismál

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 18:00:12 (866)


[18:00]
     Jón Baldvin Hannibalsson :
    Herra forseti. Það er verra að gefa íbúðareigendum falskar vonir um lausn á vanda þeirra en gefa þeim engar vonir. Í Biblíunni var þetta kallað að gefa steina fyrir brauð. Umræður um lausnir á erfiðleikum íbúðareigenda sem eru illa eða ekki grundaðar vilja stundum auka erfiðleikana frekar en hitt. Þá er betra að sleppa slíkum loforðum.
    Þetta eru ekki mín orð, herra forseti, heldur er þetta, með leyfi forseta, tilvitnun í þann mann sem einna fróðastur er um húsnæðismál nú, þ.e. rekstrarstjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins. Hann skrifaði þessi orð að gefnu tilefni þegar hann var að fylgjast með loforðavaðlinum í framsóknarmönnum fyrir kosningar sem var yfirgengilegur í þessum málaflokki eins og öllum öðrum. Hverju lofuðu þeir?
    Í fyrsta lagi lögðu þeir á borðið algerlega falska greiningu á vandanum og hún var rekin ofan í þá meira að segja fyrir kosningar. Svo komu loforðin. Fyrsta loforð: Það var hvorki meira né minna en 3 milljarðar takk á borðið við skuldbreytingar og lánalengingar. Nú heyrðum við á hæstv. félmrh., að hið skipulagða undanhald er hafið frá þessu loforði. Hann sagði: Það er kannski ekki rétta leiðin að auka enn á greiðslubyrði hinna skuldugu með því að lengja í hengingarólinni, með því að auka við lánin. Hann er núna að uppgötva það að þetta sem þeir boðuðu fyrir kosningar er með öðrum orðum dæmi um það sem ég var að vitna um, að vekja upp falskar vonir sem síðan stendur ekkert til að standa við.
    Næsta mál sem þeir brugðu upp var það að lausnin væri sú að lengja lánin og þá sérstaklega í húsbréfakerfinu úr 25 árum í 40 ár. Þetta var algerlega vanhugsað og var reyndar sýnt fram á það að þessi töfralausn mæld á mælikvarða greiðslubyrði meðalláns sem er um 3 millj. kr. mundi lækka greiðslubyrðina um 3.000 kr. á mánuði. Síðan var á það bent að ef ætlunin væri hins vegar í alvöru að aðstoða íbúðareigendur í greiðsluerfiðleikum væri leiðin t.d. sú að nota helsta tekjujöfnunarkerfið sem er vaxtabótakerfið.
    Það var undirstrikað sérstaklega að það er að sjálfsögðu ekki húsnæðislánakerfið sem við búum við og allra síst húsbréfakerfið sem er undirrót erfiðleikanna. En það var þriðja uppistaðan í málflutningi framsóknarmanna fyrir kosningar að húsbréfakerfið væri af hinu illa. Það er alrangt. Þeir gáfu í skyn að að húsnæðislánakerfið sem byggt hefur verið upp á undanförnum árum væri af hinu vonda og lofuðu upp í ermina á sér 3 milljörðum í skuldbreytingar, lengingu á lánum og við þetta verður að sjálfsögðu ekkert staðið.
    Þetta er enn eitt dæmið, enn einn málaflokkurinn þar sem Framsfl. fór fram með fölskum loforðum, vanhugsuðum yfirlýsingum sem ekkert er að marka. Og það er ástæða til þess að undirstrika þetta hér og nú sérstaklega vegna þess að það er háskalegt þegar framsóknarmenn, þar með talinn hæstv. félmrh., voru að halda því fram að það ætti helst að kollvarpa kerfinu og falla frá húsbréfakerfinu.
    Það er ástæða til þess að rifja það upp að það er ekkert mjög langt síðan framsóknarmenn fóru með húsnæðismál. Það var nefnilega fram að tímabilinu 1987 þegar Alþfl. tók við þeim málaflokki. Og hvernig var ástandið? Það var í stuttu máli þannig að fjárhagsgrundvöllur byggingarlánasjóðanna var kominn algerlega í þrot. Það var sérstakt verkefni hjá Ríkisendurskoðun að reikna það innan hversu skamms tíma þeir yrðu gjaldþrota báðir.
    Í annan stað hafði það algerlega brugðist lántakendum vegna þess að hlutfall lána var afar lágt hlutfall af kaupverði íbúða þannig að þeir sem voru í íbúðavandræðum urðu að fjármagna það að mestu leyti með dýrum skammtímalánum fram hjá húsnæðislánakerfinu. Og þeir sem þurftu að koma sér þaki yfir höfuðið urðu að sætta sig við það að þeir urðu að ráðast í íbúðakaup þegar kerfinu hentaði en ekki þegar þeim hentaði. Það voru reyndar 8 þús. manns í biðröð eftir lánum með óafgreiddar umsóknir þegar kerfið var gert upp.
    Húsbréfakerfið var stórkostleg framför frá þessu kerfi, bæði vegna þess að greiðslubyrðin var verulega lægri, hún var létt mjög verulega. Hlutfall lánanna var mun hærra af raunverulegu íbúðarverði og fjölskyldurnar voru leystar undan þeirri kvöð að vera með dýr skammtímalán og það var hægt að ráðast í íbúðakaupin þegar fólkinu sjálfu hentaði en ekki þegar kerfinu hentaði.
    Lengi mætti rekja það hvað gert var til að tryggja fjárhagsgrundvöll kerfisins til þess að koma til móts við þarfir fólks, til þess að útrýma biðröðum. Ég tala ekki um átakið sem gert var í félagslegu íbúðakerfi og það liggur alveg ljóst fyrir að greiðsluerfiðleikavandinn á ekki rætur að rekja til þess húsnæðislánakerfis sem byggt var upp sem var stórkostleg framför. Og lausnirnar sem framsóknarmenn boðuðu, að moka peningum í kerfið eða lengja lánin, eru báðar rangar og reyndar báðar vanhugsaðar. Nú er komið að skuldadögum, hæstv. félmrh., í þessu sem öðru.
    Það hafði enginn ætlast til þess að þeir framsóknarmenn kæmu fram með einhverjar sérstakar langtímaáætlanir í húsnæðismálum ef þeir hefðu ekki gefið tilefni til þess sjálfir. Ég er ekki með möppuna mína yfir loforðin sem framsóknarmenn gáfu í þessum málaflokki en hún er ansi þykk ef farið er að skoða það. Loforðin sem gefin voru, ekki bara í flokksþingssamþykktum, ekki bara í kosningayfirlýsingum, ekki bara í auglýsingaprógrömmum, í greinaskrifunum. Þetta var legio. Auðvitað bar þetta árangur. Í þessum málaflokki eins og öðrum voru menn með fölskum, vanhugsuðum málflutningi og með fölskum loforðum, sem aldrei stóð til að efna, að slá sig til riddara sem einhverja talsmenn láglaunafólks í greiðsluerfiðleikum. Og auðvitað tókst að afla atkvæða með þessum óheiðarlegu aðferðum. En það er komið að skuldadögum og það mun blasa við að þessi loforð verða afhjúpuð sem það sem þau voru. Þetta var aldrei hugsuð eða yfirveguð stefna. Að svo miklu leyti sem um er að ræða greiðsluerfiðleikana þá eru lausnirnar að sjálfsögðu í því fólgnar að líta fyrst og fremst á vaxtabótakerfið og það er þá ástæða til þess að beina því til hæstv. fjmrh. hvort hann er reiðubúinn til þess eða hvort hann telur sig hafa svigrúm til þess innan ramma ríkisfjármála en ekki að boða vanhugsaðar hugmyndir um breytingar á kerfinu sem vissulega vöktu falskar vonir. Það er vandinn sem framsóknarmenn eru í, það er heimatilbúinn vandi.