Húsnæðismál

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 18:19:14 (869)


[18:19]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Ég vil gera athugasemdir við yfirlýsingu sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gaf hér áðan þess efnis að enginn væri að gera kröfur á hendur framsóknarmanna um allsherjarlagfæringu á þessum málum ef ekki væri vegna loforða sem framsóknarmenn hefðu gefið fyrir kosningar. Ég vil mótmæla þessu. Eitt brýnasta úrlausnarefni sem þjóðin stendur frammi fyrir er að finna viðunandi langtímalausn á húsnæðismálunum.
    Það sem ég held að við þurfum að leggja áherslu á er að við lagfærum þetta ekki með því að vera í sífellu að skipta um kerfi. Athugun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði sýnir að það er ekki munur á stöðu fólks eftir því hvort það er í húsbréfakerfinu eða í kerfinu frá 1986. Báðir hópar eiga í greiðsluvanda og þess vegna er ég að hvetja til þess og við höfum verið að hvetja til þess að hin hlið málsins, greiðslugetan, verði skoðuð. Og það verður líka að skoða hvað er að gerast hjá þeim hópum sem lenda á milli kerfa sem eru of tekjuháir til að komast inn í félagslega kerfið, of tekjulágir til að komast inn í húsbréfakerfið og eru of tekjuháir til að fá húsaleigubætur. Það þarf að koma hér á húsnæðisbótakerfi sem tekur jafnt til kaupenda og leigjenda.
    Síðan vil ég minna á það sem ég rakti sl. laugardag í framsöguræðu minni þar sem kom fram að þegar sú skerðing, sem fólk hefur orðið fyrir vegna stjórnkerfisbreytinga á síðasta kjörtímabili, skerðing á vaxtabótum og barnabótum fléttaðist saman, þá nemur hún mánaðargreiðslu af meðalhúsbréfaláni. Að þessum hlutum þarf að hyggja og þess vegna beini ég aftur þeirri spurningu til hæstv. félmrh.: Hvað líður þessum málum yfir sumarið varðandi næstu fjárlög?