Húsnæðismál

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 18:21:33 (870)


[18:21]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin þó að þau hafi valdið mér miklum vonbrigðum. Þessi umræða hefur staðfest að ekkert á að gera á næstu mánuðum, ekki neitt, fyrir fólk í greiðsluvanda, ekki neitt. Flokkurinn sem talaði sem mest um greiðsluvanda heimilanna, sem ætlaði að setja á björgunaraðgerðir þegar hann færi í ríkisstjórn, sem ætlaði að hefja stærstu skuldbreytingu sögunnar, ætlar ekkert að gera á næstu mánuðum fyrir fólk í greiðsluvanda. Það verður í fyrsta lagi næsta vetur sem tekið verður á því máli.
    Ég held að við getum talað um eina stærstu blekkingu Íslandssögunnar sem Framsfl. hefur staðið fyrir í húsnæðismálum. Það veldur mér vissulega vonbrigðum og er algerlega óásættanlegt hvernig Framsfl. ætlar að framkvæma hækkun á lánshlutfalli upp í 70%. Ég spái því, hæstv. ráðherra, að þetta muni valda gífurlegum vonbrigðum og óánægju hjá fólki vegna þess að ráðherrann er að setja reglugerð sem mun mismuna fólki og skapa mikið misrétti. Fólk sem hefur misst eign sína og stendur uppi eignalaust fær ekki hækkun á lánshlutfalli sem gæti þó bjargað því að það gæti keypt íbúð á nýjan leik. Ég vara við þeirri framkvæmd sem hér á að eiga sér stað. Ég spyr ráðherra: Ef húsnæðismálastjórn, sem hann ætlar að leita umsagnar hjá, er á móti þessari framkvæmd mun ráðherrann þá breyta afstöðu sinni? Þetta er algerlega óásættanlegt.
    Ég er líka sannfærð um það að þessi leið mun kalla á aukna útgáfu húsbréfa. Fólk hefur verið í biðstöðu, hæstv. ráðherra, eftir að framsóknarmenn mundu framkvæma loforð sín. Nú gæti allt farið af stað á fasteignamarkaðnum þannig að þær 300 millj. sem ráðherrann telur sig eiga, sem ekki hafa farið út, gætu runnið út mjög fljótt og hvað ætlar ráðherrann þá að gera? Ætlar hann þá að lækka lánhlutfallið aftur? Það er alveg ljóst að ráðherrann hefur orðið undir gagnvart Sjálfstfl. vegna þess að hann hefur hlaupið frá loforðum sínum um að hækka lánshlutfallið í 75% og það er staðfest í Morgunblaðinu í dag, það er tekið undir það að það sé ósamræmi í yfirlýsingum ráðherrans sem 75% lánshlutfall þegar hann ætlar nú að framkvæma það með 70%. Ég ítreka það, virðulegi forseti, að þetta er algerlega óafsakanleg framkvæmd hjá ráðherranum og hér er um að ræða mikla blekkingu sem framsóknarmenn hafa staðið frammi fyrir við kjósendur sína.