Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 21:27:34 (883)


[21:27]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hv. alþm. af Akranesi og Vesturlandi, spurði sérstaklega í ræðu sinni um samkvæmni þeirra tillagna sem koma fram í frv. sem hér er til umræðu og brtt. stjórnarsinna í hv. sjútvn. við þau ákvæði sem við Íslendingar höfum undirgengist samkvæmt Ríó-sáttmálanum. Sá sáttmáli fjallar um nýtingu náttúrlegra og lifandi auðlinda innan þeirra marka að þær komist ekki í útrýmingarhættu og geti haldið áfram að skila afrakstri. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. vegna þess að hann skoraði á hv. þm. að fylgja brtt. nokkurra félaga hans við frv.: Ef svo færi eftir að tillagan yrði samþykkt og þeir flyttu sambærilegar tillögur um samsvarandi aukna hlutdeild fyrir aðra báta sem veiða í íslenskri lögsögu, skyldi það verða í samræmi við þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist samkvæmt Ríó-sáttmálanum um að lifandi auðlindir fái að skila afrakstri, fái að vaxa en þeim verði ekki útrýmt?