Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 21:43:22 (887)


[21:43]
     Hjálmar Árnason :
    Virðulegi forseti. Það vorar seint á Íslandi nú. Það segja mér ágætir hv. þm. úr landbn. að svo seint komi vorið að sumir bændur hafi ekki náð að hleypa kúm úr fjósi, þeir hafi ekki náð að upplifa þá skemmtilegu stund þegar kúm er í fyrsta sinn á vori hleypt út og horfa á þær skvetta og hamast. En það vorar hjá krötum á Íslandi nokkuð snemma.
    Mér komu í hug þessar íslensku kýr eftir að hafa hlustað á ágæta og virðulega þingmenn Alþfl. fara stórum hér í ræðustóli í kvöld líkt og kýrnar á vorin. Þeir hafa blásið af mikilli innlifun og látið hátt og talað skemmtilega og mikinn ( Gripið fram í: Mikið eftir enn þá.) og eiga ugglaust mikið eftir enn í fórum sínum, enda er vor hjá krötum.
    Forsendan í tali hv. þm., einkum hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, er sú að núverandi kerfi, svokallað banndagakerfi, sé óalandi, óferjandi og jafnvel drepandi. Það er forsendan og málflutningurinn snýst í kringum þá forsendu. Hv. þm. fjallaði um ferskt minni sitt frá framboðsfundum, en talaði minna um ferskt minni sitt úr ráðherratíð. Mér þykir ástæða til þess að spyrja í framhaldi af þeirri ræðu: Hver ber ábyrgð á því banndagakerfi sem hér hefur verið, hver ber ábyrgð á því?
    Það hefur komið fram í yfirlýsingum frá hæstv. sjútvrh. að það er ekki síst fyrir þrýsting frá hv. þm. Alþfl. sem banndagakerfinu var komið á. Og skilji ég það rétt var það hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem greiddi atkvæði með hámarki á afla fyrir krókabáta, jafnvel um aldur og ævi, 21 þúsund tonn. Í átta ár bar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem aðrir hv. alþýðuflokksþingmenn fulla ábyrgð og höfðu stjórn á þessu kerfi sem þeir andmæla svo hressilega og stundum skemmtilega nú þegar þeir eru komnir í stjórnarandstöðu. Ég tel tal af þessum toga vera með eindæmum.
    Ég tel það líka vera með eindæmum að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson skuli koma hér og saka hv. samþingmenn sína um litla vinnu, fljótfærnisleg vinnubrögð þegar honum sjálfum hefur skolað hér inn á þingið fyrir um það bil tveimur dögum og á þessum tveimur dögum hefur hann afrekað m.a. það að skanna hversu stórir fiskstofnar á Íslandi eru og treystir sér til að koma hér og lýsa stærð þeirra. Þar kunna að leynast þau vísindalegu gögn sem hv. þm. Gísli Einarsson auglýsti eftir áðan. Á þessum tveimur dögum hefur hann og í stund milli stríða eftir hádegi í dag náð að smíða eins og eitt frv. um fiskveiðistjórnun og hann hefur náð að slumpa á einhvers konar útfærslu þess. Ég segi fullum fetum: Ég tel þetta ábyrgðarlaust tal. Ég tel þetta ekki vönduð vinnubrögð.
    Mig langar að víkja að því sem fram kom í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar þar sem hann nefnir að veiðar séu nú í sögulegu lágmarki og dregur einfalda ályktun og skýra: Því má um kenna kvótakerfi. Hv. þm. gat þess ekki að á Nýfundnalandi hafa fiskstofnar hrunið, hann gat þess ekki að hið sama hefur gerst við Færeyjar, við Eystrasalt og þannig má áfram telja. Hv. þm. gat þess ekki að fiskifræðingar spá því að jafnvel innan tveggja ára verði óhætt að veiða um það bil 200 þúsund lestir af þorski. Hann gat þess ekki. Og hvers vegna skyldi þorskstofninn vera aftur á uppleið? Það gæti verið vegna þess að togveiðar á landgrunni hafa minnkað, það gæti verið. Það gæti verið vegna kvótakerfis. Það gæti verið vegna þess að náttúrlegur dauðdagi fiskstofna er minni en reiknað var með og þannig má áfram halda. Það eru að sjálfsögðu margar ástæður sem liggja fyrir því að veiði er í sögulegu lágmarki um þessar mundir og ég tel það vera fyrir neðan virðingu hv. þm. að draga svo einfaldar ályktanir.
    En þrátt fyrir að veiðar séu nú í sögulegu lágmarki vegna kvótakerfis, þá kemur fram í síðari hluta ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að það sé samt landburður af fiski. Þetta eru mótsagnir og mér finnst það ekki við hæfi í umræðum um jafnviðkvæm og mikilvæg mál.
    Ég tel það líka verið nokkuð sögulegt og athyglisvert að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson eftir að hafa starfað með hæstv. sjútvrh. í átta ár, skuli lýsa nú yfir vantrausti á þennan fyrrum félaga sinn með því að lýsa því yfir hér úr ræðustól að hann dragi í efa að nokkuð meira muni verða gert í fiskveiðistjórnarmálum þrátt fyrir verkefnalista hæstv. ríkisstjórnar.
    Hv. þm. sem voru í síðustu tveimur stjórnum, þar á meðal tveir fyrrv. hæstv. ráðherrar, bera fulla ábyrgð á því banndagakerfi sem nú er svo mjög fjargviðrast yfir og menn eru almennt sammála um að sé óalandi og óferjandi. En þeir skulu bera fulla ábyrgð á þeim ákvörðunum sínum. Forsendur hafa ekki breyst nema þá að því leytinu til að þessir sömu hv. þm. eru nú í stjórnarandstöðu.
    Víkjum þá að því frv. og þeim breytingum sem hér hafa verið kynntar. Þá vil ég geta þess sem ég hef saknað úr umræðunni að hún snýst ekki einungis um krókabáta. Það er líka verið að fjalla um aukningu aflamarksbáta, þeirra sem hafa orðið fyrir mestri skerðingu. Það er einmitt sett 10 tonna hámark til að koma meira til móts við þarfir smábátaeigenda. Það er rétt að vekja athygli á því. Sú umræða má heldur ekki hverfa.
    Það er líka verið að taka á því sem eigendur smábáta og aðrir hafa fjallað um lengi og viljað draga úr þeirri aukningu sem hefur verið í smábátaflotanum. Vissulega hefði verið full ástæða til þess að bregðast fyrr við en það er þó gert núna. Betra seint en aldrei. En það eru banndagarnir, sem fyrrverandi stjórnarliðar bera fulla ábyrgð á, sem mesta umræðu hafa fengið. Og það er rétt að undirstrika að með þeim brtt. sem fram hafa komið, þá er verið að lögfesta róðrardaga. Það hefur verið baráttumál smábátaeigenda um langa hríð og frv. felur það í sér að nú skulu þeir lögfestir. Sem og við allar aðrar breytingar, allar kerfisbreytingar, þá mun yfirgangstími, breytingartíminn, að sjálfsögðu valda erfiðleikum og af því hljóta menn að hafa áhyggjur. En meginatriðið er að hér eru róðrardagar lögfestir.
    Ég vil líka vekja athygli á þeirri breytingu að þegar rætt er um 21 þúsund lestir, þá er verið að tala um 21 þúsund lestir af þorski, ekki þorskígildi. Krókakarlar hafa einmitt kvartað undan því að ýsa og ufsi séu nokkuð dýru verði keypt á kostnað þorskmöguleika og það er verið að svara þessum sjónarmiðum og gefa veiðar á öðrum tegundum frjálsar.
    Mér þykir líka ástæða til að benda á yfirlýsingu talsmanns meiri hluta stjórnarliða úr hv. sjútvn., að þegar --- og guð gefi --- aukning verður í heildarafla, þá treystum við því að bátasjómenn, krókakarlar, muni njóta góðs af.
    Það er líka vert að minna á þátt öryggis. Með róðrarkerfinu eykst öryggi trillukarla, þá geta þeir betur sjálfir valið sér veður, valið sér daga til róðra heldur en ákveða brælu fyrir fram ár fram í tímann á dagatali. Það eitt felur í sér öryggi. En langtímamarkmið frv. felur líka í sér öryggi, fjareftirlitið, og ég vil vara við talsmáta eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði sig sekan um að tala um gervihnattarugl. Það hefur lengi verið baráttumál sjómanna að koma slíku öryggis- og eftirlitskerfi upp. Og við eygjum nú möguleika á því að koma slíku kerfi upp og því hljótum við að fagna þó að þar séu slegnar tvær flugur í einu höggi. Það er öryggisþáttur sjómanna sem þetta felur í sér sem langtímamarkmið.
    Það má lengi teygja og toga frumvörp um jafnviðamikil og viðkvæm mál. Þau munu aldrei verða fullkomin og um þau mun aldrei ríkja alger sátt. En ég tel, hæstv. forseti, að hér sé gengið mjög til móts við smábátaeigendur og á þá ekki síst við róðrardagakerfið og sannarlega von um hlutdeild í aflaaukningum í náinni framtíð. Það er fullur vilji til að tryggja þeirra hagsmuni sem annarra þeirra sem stunda það göfuga starf, sjómennskuna. Og það er okkar brýnasta mál að ná sátt um það við alla aðila. Ég tel að það sé eitt meginverkefni kjörtímabilsins að gera það með málefnalegum hætti þannig að sátt náist.