Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 21:57:46 (889)


[21:57]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Mér er kunnugt um að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er staddur í þinghúsinu. Mér þætti vænt um ef það væri hægt að fá flutning á honum hingað í þingsal.
    Herra forseti. Það var ekki örgrannt um það þegar við gengum til þessa vorþings að í brjósti mér bærðist örlítil samúðartilfinning gagnvart hæstv. sjútvrh. Ástæða þess var sú að upp var risinn í liði stjórnarinnar nýju flokkur uppreisnarmanna sem höfðu fyrir kosningar haft uppi allt aðra stefnu en hæstv. sjútvrh. Margir þeirra höfðu gengið fram fyrir skjöldu, barið sér á brjóst og sagt: Ef við komum inn á þing, þá munum við gera allt sem við getum til að brjóta á bak aftur stefnu hæstv. sjútvrh. Einn af þeim var einmitt sá hv. þm. sem nú gengur í salinn, Einar Oddur Kristjánsson, og reisir hönd í kveðjuskyni, enda glaður og reifur á þessu kvöldi. ( EOK: Risinn.)
    Herra forseti. Það voru ýmsir aðrir en hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem fær nú vænni bita af minni ræðu þegar fram á kvöldið sækir, sem lofuðu ekki bara upp í aðra ermina heldur báðar og sennilega skálmarnar líka. Þeir þingmenn sem lofuðu hvað mestu voru kannski ekki þeir hv. þm. Sjálfstfl. á Vestfjörðum sem mestum árásum hafa sætt í þessari umræðu og af hálfu vina sinna krókakarla. Þeir sem mestu lofuðu voru nú e.t.v. hv. þm. Framsfl. á Suðurnesjum. ( Gripið fram í: Hvað verður þá sagt um ykkur?) Hv. þm. Hjálmar Árnason, sem talar hér í kvöld eins og hann sé óflekkaður unglingur, var auðvitað einn af þeim. En allir menn hafa fortíð í stjórnmálum og gildir einu þó að ferill þeirra sé ærið skammur

enn þá.
    Hv. þm. Hjálmar Árnason fór stórum í ræðu sinni áðan og réðst að mér þótti með frekar óvanalegum hætti á hv. þm. Sighvat Björgvinsson m.a. fyrir óvönduð vinnubrögð og óvanaleg vinnubrögð. Hann talaði um að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefði ekki verið nema tvo daga á þessu þingi og væri strax farinn að reifa það að menn hefðu ekki nægilega góð vinnubrögð uppi í hv. sjútvn. Það kann vel að vera að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi bara verið tvo daga á þessu vorþingi. En eitt vil ég segja þér, hv. þm. Hjálmar Árnason, að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson skilur þó þær tillögur sem hann hefur samið og sett fram. Það er meira en hægt er að segja um ykkur hv. þm. í meiri hluta sjútvn. því að það var ekki hægt að hefja þessa umræðu vegna þess að menn stóðu yfir ykkur, talsmenn og starfsmenn hæstv. sjútvrh., og voru að reyna að láta ykkur skilja þær tillögur sem þið eruð að flytja hér í kvöld fyrir hæstv. sjútvrh.
    Ég taldi að þegar hæstv. sjútvrh. kom til þings mundi hann þegar í stað verða ofurliði borinn. Hér væri kominn vargur í vé hæstv. sjútvrh., menn sem höfðu sagt það fullum fetum að þeir höfnuðu stefnu hæstv. sjútvrh. En ég sá að mér hafði skjöplast því ég sé nú að ekki þurfti að vorkenna hæstv. sjútvrh. Það kom í ljós að þeir sem hæst höfðu fyrir kosningarnar fylltust þeirri sömu samúð gagnvart hæstv. sjútvrh. og ég fékk snert af á vordögum. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gaf þá yfirlýsngu á þinginu, herra forseti, að hann væri á móti þeirri stefnu sem hæstv. sjútvrh. var að flytja. En vegna þess að hann vissi að hæstv. sjútvrh. hefði viðkvæmt sálartötur, þá vildi hann af einstakri tillitssemi við hæstv. sjútvrh. ekki ganga gegn honum. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson vildi miklu frekar ganga gegn þeim mönnum sem kusu hann, mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum sem skrifuðu upp á stuðningsyfirlýsingu við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Hvers vegna? Vegna þess að hann gaf loforð. Hann lýsti því einfaldlega yfir að hann ætlaði að breyta stjórnkerfi fiskveiða og hann lýsti því sérstaklega yfir að hann ætlaði að rétta hlut krókakarlanna. Það voru orðin, hv. þm. En af tillitssemi við hæstv. sjútvrh. liggur nú krókaflotinn á Vestfjörðum í valnum, en sá sem uppréttur dansar á tætlunum af stefnu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar situr hérna í sæti sínu svalur og svellkaldur í kvöld. Svona geta hlutirnir nú snúist við, herra forseti.
    Svo ég víki aðeins að stefnu framsóknarmanna á Suðurnesjum, þá var það svo að þeir lofuðu því að það yrðu teknir tugir þúsunda tonna af þorskaflaheimildum af togaraflotanum og settir yfir í bátaflotann. Er þetta ekki rétt, hv. þm. Hjálmar Árnason? Var ekki sagt að torgaraflotinn ætti einungis að fá 15% af þorskaflaheimildum? Það er nákvæmlega það sem sagt var. Og ég veit ekki í hvaða veröld hv. þm. Hjálmar Árnason lifir. Það eru örfáir dagar síðan hann gaf út blað ( HjÁ: Nei. Það er rangt.) eða framsóknarmenn á Suðurnesjum gáfu út blað og það var merkilegt blað. Það fjallaði bara um afrek Framsfl. á þingi. Þar var að vísu ekki minnst á hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, en þar var mikið um hv. þm. Hjálmar Árnason. Þar er frá því greint á baksíðu eins og hér hefur reyndar komið fram áður að hetjan Hjálmar stoppaði kvótafrv. og síðan er heil opna þar sem er reifuð umhyggja hv. þm. fyrir bátunum. Herra forseti. Ég get ekki séð þá umhyggju birtast í þeim tillögum sem hv. þm. hefur flutt í kvöld eða á þessu þingi. Ég get ekki séð þá stefnu sem hv. þm. hafði uppi fyrir kosningar, ég finn hana einfaldlega ekki í þeim frumvörpum sem hann er að fylgja.
    Ég vil jafnframt ræða frekar það sem hann sagði um tilurð banndagakerfisins og hlutverk Alþfl. í þeirri fæðingu. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að það má segja að það hafi verið tvær ljósmæður við þá fæðingu, annars vegar ég og hins vegar hæstv. sjútvrh. Þá var staðan þannig að ef ekkert hefði verið gert, þá var samkvæmt orðanna hljóðan í þágildandi lögum ljóst að hlutdeild krókaflotans hefði farið niður í 2.800 tonn. Það var það sem menn stóðu frammi fyrir þá og það var þess vegna sem menn fóru í þetta banndagakerfi. 21.500 tonn var einfaldlega aflinn sem menn töldu að þá mundi duga. Annað er komið í ljós og þá er það skylda þessa þings að reyna að breyta því. Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði að ekkert hefði breyst, þetta kerfi hefði bara verið vitlaust. En það er tvennt sem hefur breyst.
    Í fyrsta lagi hefur það komið fram að togaraflotinn er ekki jafnháður þorskveiðum á heimamiðum og áður. Togaraflotinn hefur sótt upp í 50 þúsund tonn á fjarlæg úthafsmið og hann hefur líka í vaxandi mæli sótt á Reykjaneshrygg til þess að veiða úthafskarfa. Með öðrum orðum, togaraflotinn hefur haft sína afkomu í miklu ríkari mæli en áður af veiðum utan kvóta og veiðum utan efnahagslögsögunnar. Þetta hefur gerst. En það er líka annað sem hefur gerst. Og hv. þm., af því að hann er skynugur piltur, drap áðan óbeint á það og benti á þá staðreynd að árferði í sjónum er miklu betra en áður. Og hann er kannski einn af örfáum þingmönnum í þessum sal sem hafa pælt í þessum málum og komist að þeirri niðurstöðu að árferðið skiptir máli. Það getur til að mynda dregið úr dánartíðni. Hann minntist á það og hv. þm., það er nákvæmlega þetta sem hefur gerst.
    Það sem hefur líka breyst er að það er meiri þorskgengd á grunnslóð. Fyrir nokkrum mánuðum sögðu menn að þetta væri hégilja, þegar krókakarlarnir og aðrir bátasjómenn voru að halda þessu fram. Það er ekki fyrr en á þessu vori sem sérfræðingarnir, sem hæstv. sjútvrh. byggir allt sitt traust á, eru búnir að viðurkenna það og það veit hv. þm. Hjálmar Árnason vegna þess að ég hef rakið þetta fyrir honum einu sinni áður en ég skal gera það aftur.
    Staðreyndin er sú að það er aukin þorskgengd á grunnslóð. Það hefur komið í ljós að sérfræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar vanmátu einfaldlega stórlega tvo mikilvæga árganga sem nú eru fimm og sex ára og það eru þeir árgangar sem eru uppistaðan í veiðinni. Þetta eru fiskarnir sem hafa síðustu missiri verið að vaxa upp í veiðistofninn á grunnslóðinni. Af árganginum 1989 eru þetta 30 millj. þorska. Af árganginum 1990 eru þetta 25 millj. þorska í veiðinni. Miðað við þær forsendur sem Hafró gefur sér þýðir þetta í viðbótarafla 80--90 þús. tonn og þetta er fiskur, hv. þm., sem Hafró viðurkenndi ekki að væri til í fyrra.
    Þetta er það sem hefur breyst og það er þess vegna sem krókabátarnir eru að taka miklu meiri afla en áður og þá veltum við því fyrir okkur: Ef það er svona miklu meiri afli á grunnslóð, hver á að taka hann? Ég hef bent á að togararnir eru ekki jafnháðir þessum veiðum á grunnslóðinni og þeir voru áður og ég benti líka á annað, sem hv. þm. Hjálmar Árnason var mér a.m.k. sammála um í kosningabaráttunni, og það er þetta: Bátarnir eiga sögulegan hefðarrétt á því að nýta grunnslóðina. Og annar meginþátturinn í kosningastefnu framsóknarmanna á Suðurnesjum byggðist einmitt á þessu. Hann byggðist á að ýta togurunum út af grunnslóðinni vegna þess að þessi hv. þm. og starfssystir hans af Suðurnesjum sögðu: Þeir eiga hefðbundinn nýtingarrétt, þeir eiga sögulegan rétt til að nýta þetta. Og þannig hefur Ísland byggst upp. Það er alveg hárrétt hjá þeim.
    Hins vegar er þegar hv. þm. kemur til þings allt annað uppi. Þá kemur hann og ræðst á hv. þm. Sighvat Björgvinsson fyrir að fylgja sinni sannfæringu í þessu máli eins og hann hefur alltaf gert og talar um óvönduð vinnubrögð. Herra forseti. Mig langar að benda á það sem ég kalla óvönduð vinnubrögð hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni. Það vill svo til, herra forseti, að hann lenti í svolitlum deilum við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon hérna rétt áðan vegna þess að honum varð talsvert tíðrætt um nauðsyn þess að setja upp fjareftirlit. Hvað er það sem segir í þessari grein um það sem hann vill? Hvaða eftirlitskerfi vill hann? Ég ætla að rifja upp fyrir hv. þm. alveg eins og hann rifjar stundum upp fyrir sínum skólanemendum í Fjölbrautaskólanum á Suðurnesjum það sem rétt er. Þar segir hv. þm. þegar hann er að tala um eftirlitið, með leyfi forseta:
    ,,Uppi eru hugmyndir um að eftirlit með róðrum verði með tæki sem skyldað verði að hafa í öllum bátum og skrái ferðir þeirra sjálfkrafa.`` --- Ég er enn að tala um fjareftirlitið. --- Svo segir, með leyfi virðulegs forseta, og er hann að tala fyrir sjálfan sig og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Hann segir: ,,Okkur líst betur á að taka upp skylduskráningu á legudögum bátanna í landi þar sem t.d. hafnarverðir staðfesta landleguna á sérstökum eyðublöðum.``
    Þarna var það nú fjareftirlitið sem var svo nauðsynlegt, hv. þm. Hjálmar Árnason, þó að þín ræða eða sá partur hennar sem snerist um eftirlitskerfið hafi verið á allt öðrum grunni en þú skrifar fyrir þína kjósendur á Suðurnesjum. Þetta, hv. þm., kalla ég óvönduð vinnubrögð.
    Herra forseti. Það kann vel að vera að mér og mínum flokki hafi margoft orðið sundurorða við hæstv. sjútvrh. og allir vita að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur allt aðra stefnu í sjávarútvegsmálum en hæstv. sjútvrh. Það þýðir ekki að við berum eitthvert sérstakt vantraust til hæstv. sjútvrh. Við höfum til að mynda aldrei sett honum þá úrslitakosti að hann færi burt eins og sumir aðrir hv. þm. Hitt er annað, herra forseti, að í þeirri brtt. sem hér liggur fyrir frá meiri hlutanum og hv. þm. Hjálmar Árnason stendur að án þess að hafa nokkurn fyrirvara aldrei þessu vant, þar er að finna vantraust á hæstv. sjútvrh. Muna menn hvernig hin upprunalega gerð tillögunnar um sóknarkerfið var? Þar var að selt í hendur hæstv. sjútvrh. að meta hvenær tæknilegar og fjárhagslegar forsendur væru fyrir hendi. Það kom fram í umræðum af hálfu stjórnarandstæðinga, engra annarra, að sumir þeirra treystu ekki hæstv. sjútvrh. fyrir þessu. Nú er það svo að það er komið í ljós að meiri hlutinn í sjútvn. treystir heldur ekki hæstv. sjútvrh. Hann telur að hann sé þarna að leggja á einhvers konar flótta í málinu og ætli sér aldrei að taka upp róðrardagakerfi. Og það er þess vegna sem eina verulega breytingin í þessum brtt. sem fyrir liggja er nákvæmlega sú að honum er fyrirskipað að setja upp þetta kerfi. Það er vegna þess að hans eigin stuðningsmenn, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og aðrir fleiri sem sýna mikið tillit gagnvart ráðherranum, treysta honum einfaldlega ekki og þetta er eina breytingin sem er verulega róttæk frá hinu fyrra formi tillögunnar.
    Með öðrum orðum, herra forseti, kemur í ljós að þegar hinn óflekkaði hv. þm. af Suðurnesjum, Hjálmar Árnason, skammar hv. þm. Sighvat Björgvinsson fyrir að vantreysta hæstv. sjútvrh., þá er skjalfest hérna á borðum alls þingheims að það er hv. þm. Hjálmar Árnason og Framsfl. sérstaklega sem ekki treysti hæstv. sjútvrh. í þessu máli og það er búið að skrifa um það heila grein í blað framsóknarmanna á Suðurnesjunum. Þannig er það nú.
    Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur verið sjálfum sér samkvæmur í þessu máli frá upphafi og það má rekja aftur á síðasta kjörtímabil. Það er alveg rétt sem hv. þm. Hjálmar Árnason segir. Auðvitað ber ég mikla ábyrgð á banndagakerfinu og ég hef aldrei skorast undan henni. Ég hef hins vegar margoft sagt að kerfið gekk einfaldlega ekki upp, tók undir með hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni sem lýsti því hversu hrikalega það hefði brugðist. Það er alveg hárrétt. En menn voru á þeim tíma einfaldlega að bregðast við aðstæðum. Ég verð hins vegar að segja að það form sem hér liggur fyrir, sú útfærsla sem liggur fyrir á róðrardagakerfinu er varla mönnum bjóðandi, herra forseti. Hún er alls ekki bjóðandi framsóknarmönnum á Suðurnesjum vegna þess að hún er svo víðs fjarri því sem þeir sögðu fyrir kosningar, og ég verð auðvitað að segja það, hv. þm. Hjálmar Árnason, að það er ekki hægt að gera svona hluti og allra síst er hægt að bjóða okkur það frá manni sem hefur sína atvinnu af því að innræta æsku landsins trúna á góð og gömul gildi. Það er ekki samræmi á milli þess annars vegar, hv. þm., og þess að koma hér með tillögur sem eru víðs fjarri öllum þeim kosningaloforðum sem framsóknarmenn á Suðurnesjum gáfu.

    Auðvitað voru það fleiri en framsóknarmenn á Suðurnesjum sem gáfu loforð. Einn ágætur hv. þm. Sjálfstfl. gaf líka loforð. Það er hv. þm. Kristján Pálsson, sá sem ég tel einna glöggskyggnasta manninn í liði Sjálfstfl. Hvers vegna? Vegna þess að hann skilgreindi fyrir kosningar stefnu Framsfl. á Suðurnesjum í sjávarútvegsmálum og niðurstaða hans varð þessi: Lýðskrum, blekkingar, yfirboð, gylliboð. Og ég tek hatt minn hvenær sem er ofan fyrir honum og mundi jafnvel borða hann fyrir hv. þm. ef ég ætti hatt. En líka þessi hv. þm. gaf sín loforð. Hann má þó eiga það, herra forseti, að hann gerði það ekki fyrir kosningar heldur eftir kosningar og það er öllu meiri mannsbragur að því, en þá eru líka gerðar meiri kröfur. Eitt af því sem hv. þm. sagði í grein sem hann birti föstudaginn 6. maí er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að 10 þúsund tonnum af þorski verði bætt við kvóta krókabáta á yfirstandandi fiskveiðiári sem verði til að fækka banndögum.``
    Herra forseti. Þarna leggur einn af hv. þm. Sjálfstfl. til að kvóti krókabátanna verði aukinn um 10 þús. tonn. Þetta þykir mér góð tillaga. Hún er í stíl við það sem hæstv. forsrh. sagði fyrir kosningarnar. Hvað sagði hann fyrir kosningarnar? Hann var á fundi á Hótel Húsavík og þar spurðu krókakarlar hann hvort hann væri ekki til í að slaka út eins og 10 þúsund tonnum. Og frá þessu var sagt í Morgunblaðinu með svofelldum orðum, herra forseti:
    ,,Sagðist Davíð ekki vera sérfræðingur í fræðum fiskifræðinga, en hann teldi að það gæti ekki skipt sköpum fyrir uppbyggingu þorskstofnsins þótt trillukörlum yrði leyft að veiða 10 þúsund tonnum meira á handfærum en fiskifræðingar ráðlegðu.``
    Herra forseti. Ég er sammála fiskifræði hæstv. forsrh. Ég tel að hún sé miklu betri en hæstv. sjútvrh. Ég tel að það skipti engum sköpum fyrir uppbyggingu þorskstofnsins þó að það sé slakað út 10 þúsund tonnum. En ég tel líka annað. Ég tel að þegar maður sem gegnir stöðu forsrh. lætur svona frá sér rétt fyrir kosningar, þá jafngildi það nánast loforði. Menn geta deilt um það við mig, en það er mín skoðun og ég verð var við það að krókakarlar úti um allt land litu þannig á málið. Þeir töldu að í þessu fælist nánast yfirlýsing um að ef þeir tryggðu hæstv. forsrh. embættið áfram mundi hann gera þetta. En hann gerði það ekki.
    Hv. þm. Kristján Pálsson lagði þetta hins vegar til og þess vegna vænti ég þess, herra forseti, vegna þess að ég veit að hv. þm. Kristján Pálsson á sér marga skoðanabræður, þá muni sú tillaga sem ég flyt hér ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur hljóta brautargengi héðan í kvöld. Hv. þm. Kristján Pálsson getur ekki annað, eftir að hafa sett þetta niður á prenti, en stutt sína eigin tillögu nema vera maður að minni.
    Það hefur komið í ljós, herra forseti, að það er talið óábyrgt að vilja að þorskaflamarkið verði aukið. En ég segi: Það eru engin fiskifræðileg rök sem mæla gegn því. Ég minni á að það hefur skyndilega komið í ljós að veiðistofninn hefur stækkað um 10%, herra forseti. Og það væri hægt að færa mörg rök fyrir því af hverju þetta væri í lagi.
    Hæstv. sjútvrh. sveipar jafnan sína stjórnun á fiskveiðum Íslendinga vísindalegum hjúp og einkum og sér í lagi á þessu ári. Nú er hann búinn að finna upp aflareglu og samkvæmt þessari aflareglu má einungis veiða 25% af veiðistofninum og hann styður hana vísindalegum útreikningum. Hann getur þó ekki bent á neitt, ekkert, ekkert plagg sem hefur komið frá nokkrum sérfræðingi þar sem segir nákvæmlega að það sé í lagi að veiða 25%. En hann getur bent á skýrslu þar sem er að finna útreikninga sem leiða að þeirri niðurstöðu að það megi veiða 21,5%. Það er talsverður munur á 21,5% og 25%. Er það ekki 16% munur? Ég held það. Ef maður mundi beita þessum 16% á aflahámarkið væri það í kringum 25 þúsund tonn. Það væri aldeilis búbót, hæstv. sjútvrh., fyrir bátaflotann. Það mættu allir una vel við ánægðir.
    En þó er það eitt sem ég vil nefna sérstaklega, herra forseti. --- Herra forseti. Hér kemur vísa sem hv. þm. var að stinga að mér:
        Einar braut af sér oddinn,
        upphefð hlaut ekki neina.
        Kaldur þykir þeim koddinn
        sem kúra til fóta hjá Steina.
    Herra forseti. Í þeirri skýrslu sem ég var að rekja nokkur atriði úr kemur fram eftirfarandi:
    ,,Reikningarnir bentu einnig til að miðað við 175 þús. tonna afla væri líklegt að hrygningarstofninn héldist óbreyttur og sýndi engin batamerki á allra næstu árum. Af hermireikningum mátti þó ætla að líkur á hruni væru litlar og stofninn rétti smám saman við sér þegar til lengri tíma væri litið.``
    Herra forseti. Þetta var skrifað í fyrra. Í dag er það svo að hrygningarstofninn sem átti að haldast óbreyttur og ekki sýna nein batamerki á allra næstu árum er í staðinn fyrir að vera 235 þús. tonn orðinn 300 þús. tonn. Veiðistofninn sem átti bara að rétta smám saman úr sér þegar til lengri tíma væri litið hefur þegar stækkað um 10%. Því spyr ég: Ef veiðistofninn hefur stækkað um 10% er þá ekki hægt að álykta að það megi lyfta þessu þaki, 175 þús. tonnum, um svo sem eins og 10%? Stofninum væri engin hætta búin. Væri þá ekki hægt að auka þorskaflahámarkið um 10 þúsund tonn? Auðvitað væri það hægt. Það væri í stíl við það sem einstakir hv. þm. Sjálfstfl. hafa sagt og það væri í stíl við það sem hæstv. forsrh. var að gefa mönnum væntingar um fyrir kosningar. Og það eru engin fiskifræðileg rök sem mæla gegn því. Það er hins vegar hægt að tína til pólitísk og efnahagsleg rök og ég virði það, en ég fullyrði að þó að heildarþorskaflinn væri aukinn um 10 þúsund tonn mundi það einungis hafa afskaplega lítil áhrif á uppbyggingu þorskstofnsins. Það er hins vegar athyglisvert að í hvert einasta skipti sem reynt er að beita á hæstv. sjútvrh. fiskifræðilegum rökum svarar hann engu þó að hann hafi heilan her sérfræðinga.
    Herra forseti. Þetta er ástæðan fyrir því að ég tel í lagi að hækka þorskaflahámarkið um 10 þúsund tonn. Það voru fleiri í þessum sal sem töldu það í lagi. Þegar við vorum hér við 2. umr. gerðist það að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom í pontu og hann skoraði á mig, gersamlega að tilefnislausu því að ég er friðsamur maður, að flytja með sér tillögu um að auka þorskafla krókabáta um 10 þúsund tonn. Illt er að eggja óbilgjarnan. Ég kom hér upp, herra forseti, og ég tók þessari áskorun og þessa tillögu lagði ég fyrir hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Ég stóð í þeirri trú að hann ætlaði að standa við sín frýjunarorð og flytja tillöguna með mér, ekki síst vegna þess að hann kaus DV á mánudaginn sem leið til þess að endurtaka þessa áskorun. ( EgJ: Hann var bara að grínast að þér.) Herra forseti. Það kann að vera að það sé hlegið hér að einhverjum þingmönnum en ég vona að það verði ekki hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson þegar þessi dagur er úti.
    Herra forseti. Ég vil láta koma fram að þrátt fyrir að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi frammi fyrir allri þjóðinni skorað á mig að flytja með sér tillögu um að auka þorskaflahámark krókabáta um 10 þúsund tonn, þá hefur hann nú fallið frá því. Hann hefur gengið á bak orða sinna. Annað er ekki hægt að kalla það, hv. þm., og mér þykir það afskaplega miður að þurfa að segja þetta vegna þess að ég átti von á allt öðru. Ég átti ekki von á því að Vestfirðingar kiknuðu svona í hnjánum í hvert einasta skipti sem hæstv. sjútvrh. hvessir á þá augun. ( EOK: Þú veist betur.) Og það sem mér þykir verst, herra forseti, er að hv. þm. segir að ég viti betur. Ég veit betur. Og hvað veit ég? Ég veit að í tillögunni sem hv. þm. stendur að er talað um að aflamarkið eigi að vera 21.500 tonn, það er svo einfalt. Og ef hv. þm. hefur einhverja aðra skoðun á því, þá er hann með aðra tillögu en var lögð fyrir mig í þingsalnum. Ef hann hefur aðra skýringu á því er rétt hún komi fram.
    Ef t.d. hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson telur að í þeim tillögum sem hér liggja fyrir felist eitthvað annað en 21 þúsund tonna aflahámark ber honum skylda til þess að láta það koma hérna fram. Svo einfalt er það. Það er bara þannig, herra forseti, að stjórnarskráin býður mönnum, hún býður þeim bókstaflega að fara eftir sannfæringu sinni. Og það hefur komið fram margoft í þessum sal að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur allt aðra sannfæringu en þá sem hann er að flytja hér í kvöld. Það er svo einfalt.
    Herra forseti. Þegar núv. ríkisstjórn hóf sína göngu lagði hún fram verkefnaskrá sem hæstv. sjútvrh. samdi og lagði til að samþykkt yrði í ríkisstjórninni og þar var talað um m.a. að tryggja stöðu þeirra sem hafa haft lífsviðurværi af krókaveiðum. Þar var talað um að leita leiða við stjórnun krókaveiða annarra heldur en að fjölga banndögum. Staðan er þessi, herra forseti, alveg sama hvað þingmenn segja og alveg sama hvað þingmenn eru mikið á móti banndagakerfinu; það kerfi er enn þá lykillinn að öllum þessu ,,biksi`` vegna þess að það er á grundvelli viðbótarbanndaga sem sóknardagarnir eru reiknaðir út. Og þegar hv. þm. Hjálmar Árnason gerði með skörulegum hætti grein fyrir atkvæði sínu við 2. umr., þá talaði hann einmitt um að það væri forsendan fyrir því að hann mundi greiða þessu atkvæði við 3. umr. að þetta banndagabiks væri farið út. En það er enn þá lykillinn að öllu saman. Svo einfalt er það.
    Herra forseti. Þá skrifaði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson grein í Morgunblaðið. Hann er því miður illa fjarri góðu gamni en hefur fullkomlega löglegar ástæður til þess. Þar er hann að túlka verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar og talar um krókabátana og segir, með leyfi forseta:
    ,,Hér er sérstaklega gert ráð fyrir því að hlutur þeirra sé bættur.``
    Ég er viss um að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er sammála því. En herra forseti. Mér er ómögulegt að skilja hvernig hv. þm. Vestfirðinga geta tekið svona til orða og síðan fylgt þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Hér hef ég samþykkt frá Suðureyrarhreppi þar sem segir, herra forseti, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hver verða áhrifin af hinum nýju tillögum þingflokka sjálfstæðismanna og framsóknarmanna? Skerðing á þorskveiði krókabáta á Suðureyri er um 40%. Það er í tonnum talið um það bil 450 tonn eða sem nemur tveimur mánuðum í vinnu í sveitarfélaginu. Það þýðir fjölgun atvinnuleysisdaga upp á fjölda daga á ári bara á Suðureyri.``
    Hv. þm. Sjálfstfl. á Vestfjörðum hljóta að vera á allt öðru máli en Suðureyrarhreppur því að ella gætu þeir varla samþykkt slíka tillögu eins og hér liggur fyrir.
    Hér er ályktun gegn frv. frá sveitarstjórn Vesturbyggðar, frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Patreksfjarðar, frá hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps, frá fundi íbúa smábátaeigenda á Barðaströnd og hér er listi með 350 undirskriftum frá Patreksfirði. Öll þessi mótmæli eiga uppruna sinn í Vestfjarðakjördæmi, herra forseti.
    Það er skoðun mín að það frv. sem án efa verður samþykkt hér þegar líður á nóttina sé fyrsta skrefið að því að útrýma krókabátum á Íslandi. Ég er á móti því af pólitískum ástæðum, af efnahagslegum ástæðum og líka af rómantískum ástæðum. Það eru svona veiðar sem voru upphaf flestallra byggðarlaga á Íslandi og það eru þessar veiðar sem halda uppi fjölmörgum byggðarlögum. Og ef þetta frv. verður að veruleika, þá mun það leiða til þess að fjölmargir sjómenn munu missa sína atvinnu og líka fjölmargt fiskverkafólk í landi.
    Ég tel að sú klásúla sem þegar er búið að samþykkja um úreldingu feli það í sér að þar með sé

búið að löggilda aðferð til þess að helminga krókabátaflotann á tiltölulega skömmum tíma. Og til langs tíma litið felur hún það í sér í rauninni að hann muni hverfa nema hv. þm. muni síðar taka á því og breyta þessum lögum aftur. Eitt sanngirnismál vil ég nefna. Það liggur fyrir að hæstv. sjútvrh. ætlar sér samkvæmt yfirlýsingum að auka heildarafla í þorski upp í 200 þúsund tonn innan tveggja til þriggja ára. Þetta er 33% aukning. Er þá ekki sanngjarnt að krókabátar muni samkvæmt því sem liggur fyrir líka fá aukningu á fjölda róðrarbáta um 33%? Ég held að allir sem hér eru inni að frátöldum hæstv. sjútvrh. séu þeirrar skoðunar. Hv. þm. Hjálmar Árnason lýsti því í sinni ræðu áðan að hann treysti því að svo yrði það í framtíðinni. Hv. þm. Árni R. Árnason sagði að svo yrði það í framtíðinni og þá spyr ég hv. þm. stjórnarliðsins, sérstaklega þessa tvo: Ef mönnum finnst vera sanngirnisatriði að fjöldi róðrardaga aukist í takt við vöxt þorskstofnsins, hvers vegna er það ekki í þessum lögum? Það er nánast enginn hv. þm. í þessum sal sem er á móti þessu utan einn, og það er hæstv. sjútvrh. Og, herra forseti. Nákvæmlega í þessu atriði speglast þau miklu tök sem hæstv. sjútvrh. hefur á stjórnarliðinu. Það er alveg ljóst að hér er fjöldi manna sem í hjarta sínu er á móti meginefni þeirra tillagna sem hér liggja fyrir eins og kristallast í því að allir hv. þm. sem hafa tjáð sig um málið eru þeirrar skoðunar að það eigi að fjölga sóknardögum þegar þorskstofninn vex og þegar kvóti verður aukinn um 33% eftir tvö ár. Þeir eru allir þeirrar skoðunar. Og ég spyr: Hvernig í ósköpum stendur á því að þeir hafa ekki burði í sér til þess að lögfesta það, hvers vegna láta þeir hæstv. sjútvrh. í nánast öllum málum sem tengjast þessu frv. beygja sig aftur og aftur og aftur. Og ég spyr að síðustu, herra forseti: Hvar er nú stolt Vestfirðinga?