Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 22:37:51 (896)


[22:37]
     Kristján Pálsson :
    Herra forseti. Ég vil við þessa umræðu minna á að við atkvæðagreiðslu um að vísa frv. til 3. umr. tók ég sérstaklega fram að við 3. umr. teldi ég mig ekki skuldbundinn til þess að styðja það frv. sem lægi hér frammi nema búið væri að dagsetja það róðrarkerfi sem verið hefði til umræðu að lögfesta en ekki var búið að dagsetja.
    Ég vil einungis rifja þetta hér upp til þess að það sé ljóst og klárt að þar sem lögin gera ráð fyrir því að dagsetningin sé klár, þá mun ég styðja það frv. sem hér er lagt fram.
    Ég vil einnig að það komi fram vegna orða hv. þm. Gísla Einarssonar og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um það sem ég hef skrifað um sjávarútveg á liðnum vikum að það er rétt hjá þeim að ég lagði til að ef banndagakerfið yrði áfram við lýði, þá væri ekki verjandi að setja það á vetur öðruvísi en bæta við það a.m.k. 10 þúsund tonnum. ( Gripið fram í: Það stendur ekki.)
    Ég get ekki séð annað en að með því að slátra því banndagakerfi sem allir hafa hræðst í þessum þingsal, þá séum við í raun búnir að gefa það svigrúm og afstýra þeirri hættu sem af banndagakerfinu hefur stafað, þ.e. þá fyrst og fremst þeirri hættu að Alþingi Íslendinga var hér að ákveða að menn ættu að róa á mánudögum yfir alla vormánuðina, menn ættu að róa á ákveðnum vikudegi óháð veðrum. Sem gamall sjómaður hef ég aldrei getað skilið að nokkur maður gæti róið eftir lögum frá Alþingi upp á dag ár fram í tímann. Ég hef aldrei getað skilið það og í mínu sveitarfélagi og í mínum uppeldisstöðvum vestur á fjörðum var meira að segja talið óheillamerki að róa yfirleitt á mánudögum. Ég held að með því frv. sem hér liggur fyrir hafi menn afstýrt hættunni af því kerfi sem hv. alþm. samþykktu fyrir 2--3 árum og við getum leyft okkur að standa að því frv. sem hér liggur fyrir.
    Vegna orða Gísla Einarssonar um það hver mín áhrif væru í þessu frv. vil ég bara benda honum á að lesa þær greinar, sem ég hef skrifað, betur því að í þeim hef ég minnst sérstaklega á að það ætti að auka við aflamarksbátana um ákveðinn fjölda tonna eða um 5 þúsund tonn sem yrði dreift á þá báta. Ég hef líka talað um að svokölluð 100% regla ætti að falla niður. Hún er eitt af því sem kemur fram í þessum lögum að verður breytt við gildistöku þeirra.
    Ýmislegt annað er þarna inni sem bæði ég og fleiri höfum haft áhrif á, enda erum við sem hér erum inni að setja lög, en lög eru bræðrasættir og það nær enginn fram öllu sínu og allra síst á fyrstu dögum þingsins.
    Ég veit ekki hvað hv. þm. Gísli Einarsson kom mörgum loforðum fram af sínum loforðalista fyrir kosningarnar síðustu eða þar áður. Hann hefur ekki upplýst um það, en ég get alla vega sagt það að á þeim fjórum árum sem ég á eftir að sitja hér á þingi þangað til næstu kosningar verða mun ég reyna að standa við þau loforð sem ég hef gefið og það er enginn vafi á því að fleiri atriði sem þarna hafa verið munu ná fram í tillöguformi þó síðar verði.
    Ég vil svo minna á að það róðrardagakerfi sem núna er lögleitt hér er ein aðal og stærsta krafa krókakarla á undanförnum vikum. Ég minni á það sem Arthur Bogason, forustumaður trillukarla, sagði við

Davíð Oddsson fyrir tveimur dögum, með leyfi forseta:
    ,,Krafa trillukarla er skýr. Við viljum að sett sé á róðrardagakerfi þar sem menn hafa frjálst val um sóknardaga sína hvenær sem er á árinu.``
    Hann segir einnig í bréfi frá 31. maí:
    ,,Landssambandið hefur í langan tíma barist fyrir því að sett verði á svokallað leyfisdagakerfi þar sem eigendur bátanna geti sjálfir valið sína sóknardaga. Hingað til hefur því verið haldið fram að slíkt kerfi sé ekki hægt að setja í gagnið strax.``
    Hann segir í Ríkisútvarpinu, með leyfi forseta: ,,Við höfum einmitt bent á að á sínum tíma þegar banndagakerfið var sett á í fyrsta skipti, þá voru uppi alls konar raddir um að það væri ekki nokkur einasta leið að hafa með því eftirlit hvort einhver trillukarl væri á sjó á banndegi.``
    Nú heyrast þessar raddir ekki og ástæðan er ósköp einföld. Menn hafa hlýtt þessum lögum og það yrði nákvæmlega eins með þetta, ekki síst með það í huga að þeir eru sáttir við róðrardagakerfið en hafa ekki verið sáttir við banndagakerfið.
    Ég vil einnig minna á yfirlýsingu sem kom frá almennum fundi smábátaeigenda og annarra íbúa á Barðaströnd sem haldinn var á sjómannadaginn 1995, með leyfi forseta. Þar skora þeir á þingmenn og aðra þá sem um málið hafa að segja að sjá til þess að frv. það sem nú liggur fyrir Alþingi um breytingar á stjórnun fiskveiða nái ekki óbreytt fram að ganga. Áhersla sé lögð á að ekki verði settur kvóti á handfæraveiðar og krókaleyfisbátar fái sjálfir að velja róðrardaga.
    Þetta kemur einnig fram í bréfi frá stjórninni 10. júní og allar þær yfirlýsingar sem ég hef í höndunum ber að sama brunni, þ.e. að koma í veg fyrir þetta svarta kerfi sem hv. Alþingi kaus yfir sig fyrir þremur árum. Ég held, ef eitthvað er að marka allar þessar yfirlýsingar, að við séum að fara að ýtrustu óskum forustumanna trillukarla um að gefa þeim kost á því að velja sjálfir hvenær þeir fara á sjó. Ég viðurkenni að þessu er skipt niður á ákveðin tímabil, en eigi að síður er enginn sem þarf að lúta því að fara á sjó í vitlausu veðri. Það er hann einn sem ber ábyrgð á því hvenær hann fer á sjó en það er ekki ákveðið með lögum frá Alþingi.
    Það er að sjálfsögðu ekki allt með þeim hætti í þessum lögum sem öðrum að menn sjái allt fyrir. En við vitum að það eru ýmsar brotalamir í stjórnun á veiðunum í dag sem þarf að lagfæra og ég held að það geri sér allir grein fyrir því að á næstu mánuðum, eins og hv. þm. Árni Ragnar Árnason sagði, verði þetta mál tekið aftur upp eða á næsta ári. Þá eru atriði eins og stærðarmælingar báta og sífellt aukin sóknargeta báta mjög alvarlegt mál fyrir þá krókabáta sem eru þarna í dag. Við sjáum það á myndum sem okkur berast eins og einni sem ég er hér með af nýjum bát sem heitir Gáski 900. Þessi bátur er samkvæmt brúttórúmlestamælingu, sem er sú mæling sem er í gildi samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögunum, 5,91 tonn. Ef þessi bátur er aftur á móti mældur eftir lögum um mælingar skipa er hann allt í einu mældur eftir brúttótonnum og þá er hann orðinn 17,3 tonn. Auðvitað er þetta mikið vandamál og hlýtur að þurfa að skoða, því að við erum ekki lengur að tala um trillubáta. Við erum farnir að tala um vertíðarbáta. Það er einmitt þessi feiknarlega sókn sem hefur verið að sprengja krókakerfið og koma kannski í veg fyrir að menn næðu í alvöru utan um það. Og ég er ansi hræddur um að við náum aldrei í alvöru utan um það fyrr en við erum búnir að ná utan um þessa gríðarlegu sóknareiningu og að menn samræmi þau lög sem eiga að gilda um fiskveiðar annars vegar og svo mælingar skipa hins vegar.