Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 22:48:01 (897)


[22:48]
     Gísli S. Einarsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég reikna ekki með að hv. þm. Sjálfstfl. á Reykjanesi, fyrrv. bæjarstjóri í Ólafsvík og fyrrv. bæjarstjóri í Njarðvík, hafi verið að brigsla mér um einhver svik varðandi loforð sem ég hef gefið. Minn starfsháttur er sá að segja til um að hverju ég ætla að vinna án loforða. En auðvitað þekkir ekki hv. þm. hvernig það er.
    En varðandi hans eigin orð um banndagana, þá segir hv. þm. í sömu grein og ég vitnaði til áðan og geri enn, með leyfi forseta, laugardaginn 8. apríl 1995 í Morgunblaðinu, í B-blaðinu á síðu 7:
    ,,Sú leið var farin að auka aflahlutdeild krókaleyfisbáta úr um það bil 2.900 tonnum árið 1990 í 21 þús. tonn í ár. Það hefur því verið komið til móts við krókaleyfisbáta með afgerandi hætti við erfiðar aðstæður.``
    8. apríl sl. hafði hv. þm. ekki hugkvæmst að það væri til eitthvað sem héti róðrardagar eða sóknardagar. Það kom löngu seinna sem tillöguflutningurinn og tillögugerðin bera vitni um á þessum 4--5 dögum sem málið hefur verið í umfjöllun í þinginu því að þá liggja fyrir einar fjórar brtt. frá hv. meiri hluta sjútvn.