Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 22:51:56 (899)


[22:51]
     Einar Oddur Kristjánsson :
    Herra forseti. Það frv. sem liggur fyrir er flutt og samið til að breyta rúmlega ársgömlum lögum, lögum sem sett voru í fyrravor og þjónuðu þeim tilgangi að stýra krókaleyfisflotanum. Það hefur öllum verið það ljóst lengi að þau lög voru mjög misheppnuð. Heima á Vestfjörðum og víða kringum landið gerðu menn sér strax grein fyrir því að þetta gæti ekki gengið svona, það væri hreinn voði ef þau gengju fram þegar viðbótarbanndagakerfið hæfist 1. sept. nk.
    Fyrir síðustu kosningar var rætt mikið um sjávarútvegsmálin, mjög mikið á svæði eins og Vestfjörðum og fleiri stöðum. Ég var í þeirri kosningabaráttu og það fór ekki á milli mála hverju ég lofaði kjósendum þar. Það er því rangt hjá hv. 4. þm. Vestf. að það sé tillitssemi við mig að rifja það ekki upp. Ég lofaði því fyrir kosningar að ég skyldi gera allt sem í mínu valdi stæði til að berjast fyrir því að þessum lögum yrði breytt. Ég lofaði því hvar sem var, hvenær sem var og síðan eftir kosningar frá því að þing kom saman tel ég að ég hafi ekki dregið af mér í þeirri baráttu.
    Sjútvn. hefur fjallað um þessi mál og lagt sig mjög fram um það allan tíma að ná sáttum um það og reyna að ná sem mestri og víðtækastri sátt. Það hefur að sumu leyti verið erfitt en í annan stað ánægjulegt. Það eina sem skyggir á það starf kannski, herra forseti, er að enginn Sighvatur var þar. Við höfum reynt að leggja okkur fram um þetta, við höfum talað um ýmsa tæknimenn, ýmsa menn í stjórnsýslunni, við ráðuneytið o.s.frv. Ég tel að við höfum náð árangri. Enginn Sighvatur var þar heldur, herra forseti, þó að hann hafi allt í einu birst, þessi virðulegi hv. þm., fyrir þrem dögum alheill og orðinn nýr og heldur nú ræður um að menn séu að flytja hér brtt. og setja lög í refsingarskyni við krókaleyfismenn til að traðka á hagsmunum Vestfirðinga og annarra útnesjamanna.
    Þessi hv. þm. stóð sjálfur að því að setja þessi vandræðalög sem við erum að reyna að losa okkur úr. Hann stóð að því ásamt flokksbróður sínum hv. 15. þm. Reykv., Össuri Skarphéðinssyni. Þeir kannast ekkert við það í dag. Það virðist ekki vera. ( GE: Það er rangt.) Það er gott ef einhver gerir það núna. Það var og er höfuðnauðsyn og nú eygjum við það að við erum lausir við banndagakerfið. Í fimm ár að ég held hefur það verið baráttumál smábátaeigenda að koma á róðrardagakerfi. Hvernig það má vera að það hefur ekki tekist veit ég ekki. Ég var ekki hér. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur verið hér í 20 ár. Hvað hann aðhafðist í þessu máli veit ég ekki. Ég setti ekki þessi lög, enda var ég ekki hér. En síðan ég kom hingað hef ég verið að reyna það. Vandamálið sem við er að stríða er náttúrlega það að í tíu ár hefur enginn viljað hlusta á þær viðvaranir að þessi floti væri alltaf að stækka og mundi þess vegna alltaf minnka rými þeirra sem væru að vinna þar. 1987 veit ég að samband smábátaeigenda eða félag gerði fyrst kröfur um það til stjórnvalda að stoppa innstreymið, stoppa afkastaaukninguna. Því var ekki sinnt. Árum saman hafa þeir endurtekið þá beiðni. Því hefur ekki verið sinnt. Ég veit ekki, herra forseti, hvar Sighvatur Björgvinsson, hv. þm. Vestfjarða, var þessi ár. Því hefur ekki verið sinnt að horfa til þess að við yrðum að hætta að fara aftur á bak, við yrðum að reyna að finna varanlega lausn á þessum hlutum.
    Núna hafa verið lögð fram frumvörp sem takmarka þennan aðgang verulega þannig að við getum þá byrjað að fara áfram. Það hafa líka verið lögð fram frumvörp um að úrelda þessa báta eins og önnur skip. Það mun hjálpa okkur í þeirri baráttu þannig að menn geti náð jafnvægi einhvern tíma í framtíðinni. ( GE: Minnka flotann um 50%) Hann var um 890 skip þegar þetta kvótakerfi byrjaði, hann var mest um 1.800 skip fyrir þrem árum en er núna 1.500. Það eru allir sem ég þekki sammála um að það er afkastaaukningin í honum á undanförnum árum sem er að valda þeim sjómönnum sem stunda þetta vandræðum. Ég veit um engan sem er því ósammála. Því er rétt að gera þetta þannig að þessir menn geti þá lifað í framtíðinni í einhverjum friði. Og það er mikið nauðsynjamál fyrir alla landshluta og alla þá sem af þessu hafa atvinnu og ekki síður landverkafólk hringinn í kringum landið. Ef við höldum svona áfram vita það allir að það eru ný og ný vandræði. Það er því mjög mikil skammsýni að hneykslast á því að nú eigi að loka þessu. Krókaleyfismenn hafa sjálfir beðið um í átta ár að loka búðinni, gerðu það fyrst 1987.
    Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að það eru margir vankantar á þessu frv., mjög margir, og ég þekki engan sem segir að það sé eins og hann vilji hafa það, mjög margir. En um það verður þó ekki neitt verra sagt en það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði um frv. sitt frá því í fyrra, að það hefði bara verið barn síns tíma. Ætli þetta verði þá ekki bráðum barn síns tíma? En það getur bjargað heilmiklu og það mun gera það því að menn eru ekki að ráðast hér á eða fótumtroða krókaleyfismenn heldur er hér verið að finna lausn sem getur bjargað einhverju í þó nokkurn tíma sem varðar verulega miklu. Það ættu mjög margir að geta lifað við þetta svona þó það sé hart og þó það skerði hlut margra. Ég hef engan heyrt þessar þrjár vikur sem við höfum verið að vinna að þessu máli raunverulega koma með neina aðra tillögu. Það er skiljanlegt í lok umræðunnar að stjórnarandstaðan komi með brtt. þar sem þetta er gert heldur betra, stærra og til að auka þetta miðað við það sem við erum að leggja til. Það er eins og gengur. Þessir menn hafa líka setið í stjórn og það fyrir skömmu.
    Menn ættu að spyrja að því hvernig stóð á því að þeir unnu ekki þessi afrek þá, meðan þeir höfðu þessi völd. Það vita það allir sem vilja vita það að menn breyta ekki þessum lögum nema með vilja þeirrar ríkisstjórnar sem við völd er hverju sinni. Það er alveg sama hvað menn hrópa í stjórnarandstöðu. Engu verður breytt nema með vilja stjórnarinnar. Herra forseti. Þetta vita allir. Þess vegna vita allir að í síðustu umræðu, þegar menn koma með yfirboð yfir það sem við erum þó búnir að semja um þá er það bara til þess að sýnast meiri en þeir sem hafa verið að reyna að búa þetta til.
    Ég er sannfærður um að frv. er ekki til skaða fyrir íslenska landsbyggð. Þetta frv. mun bjarga verulega miklu og á að vera til þess að við getum viðhaldið þessari útgerð enn um sinn. Ég geri mér grein fyrir því að það er von fólgin í því og ég vil þess vegna taka undir þau orð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði: Það er verk að vinna hér í Alþingi að fá stjórnvöld, fá þingheim inn á þá skoðun að krókaleyfið verður að fá að lifa í friði. Og það er rétt sem hv. þm. sagði hér. Það á ekki að tengja þessi tvö kerfi saman. Það gengur misjafnlega að fiska frá einu árinu til annars. Aflabrögð eru mismunandi og þó að afli krókabáta sveiflist þetta til og frá, 5--10 þúsund tonn, á það ekki að koma á sök. Þess vegna er ég sammála honum eins og reyndar flestum í sjútvn., þegar við höfum verið að ræða þetta á um liðnum vikum, um að það væri hið æskilega, sem við skulum reyna að stefna að, að það væri ekki þak á krókaleyfunum heldur hitt að þeir reyndu að vinna innan einhvers sveigjanlegs marks. En til þess að svo geti orðið verðum við að stoppa innstreymið á afkastagetunni. Við erum að stíga fyrstu skrefin til þess núna. Það er kannski ekki nægjanlegt, en við erum að stíga fyrstu skrefin, nokkuð sem menn hafa látið undir höfuð leggjast að gera í tíu ár. Betra seint en aldrei, herra forseti. Það er kannski ekki nægjanlegt sem gert hefur verið, en það er þó byrjað á að vinna það. Þannig hef ég trú á því, miðað við starf sjútvn. undanfarnar þrjár vikur, að það sé mikill vilji í þinginu og einlægur fyrir því að finna leiðir í alvöru til þess að krókaleyfi og smábátarnir geti lifað í friði. Það er því ástæðulaust fyrir einhverja menn að efna til þess ófriðar að hér sé eitthvað á ferðinni, eitthvert níðhögg í garð þessarar útgerðar. Það er alveg öfugmæli. Það er ekki verið að gera það. Það er verið að finna henni frið, að vísu ekki varanlegan, ég viðurkenni það, en það er verið að finna henni frið og það var lífsnauðsynlegt að gera það á þessu vorþingi vegna þess að það þoldi enga bið. Þetta var það sem ég lofaði, herra forseti. Ég lofaði að beita mér af öllu afli nú þegar fyrir því að þetta gæti gengið ( Gripið fram í: Og sýna ráðherranum tillit.) og við tókum það fram að aðrir þættir í breytingum varðandi fiskveiðistjórnunina yrðu eðlilega að bíða til haustsins. Ég skora því á þá menn sem hafa undir höndum einhverjar sannanir þess eða einhvers lags plögg eða geta bent á eitthvað um það að ég hafi svikið í einu eða neinu það sem ég sagði eða lofaði fyrir kosningar. Komi þeir með það og sýni fram á það. Hættið þið þessum dylgjum ella, það væri réttara. ( SighB: Dylgjur?) Það eru hreinar dylgjur þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson segist ætla að hlífa mér við að rifja upp mín kosningaloforð. Það þarf ekki að hlífa mér við því. Hann getur komið með þau öll hér. Það er engin hlífð í því. Ég þoli að heyra þau. Þau standast. Ég hef ekki svikið eitt einasta loforð.
    Það er mikilvægt að klára þetta mál núna. Við sjáum fyrir endann á því. Við sjáum fyrir endann á baráttunni fyrir því að fá róðrardagakerfið í gegn. Það er ekki eins og allir vildu, það er ekki eins og ég vildi, það er ekki eins og Félag smábátaeigenda vildi, en það er samt að líta dagsins ljós. Við höfum tíma til þess á næstu árum að þróa það og gera það betra.