Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 23:15:01 (901)


[23:15]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Í ræðu minni áðan láðist mér að geta þess, af því að mér var tíðrætt um ýmislegt annað, að ég hef jafnframt lagt fram brtt. á þskj. 105. Hún er flutt í framhaldi af því að til fundar við hv. sjútvn. komu fulltrúar línubáta sem óskuðu eftir því að línutvöföldun yrði afnumin og tekin inn sem viðbótaraflahlutdeild. Jafnframt var af þeirra hálfu lagt fram skjal þar sem flestallar línuútgerðir á landinu lýstu sig fylgjandi þessu. Ég hef þess vegna flutt þessa brtt. Þar er lagt til að niður verði felld sú regla að fiskur sem veiðist í mánuðunum frá nóvember til febrúar verði aðeins að hálfu talinn til aflamarks innan tiltekins hámarks, en ákvæði þessa efnis hafa verið í gildi allt frá árinu 1984 og hafa jafnan verið umdeild.
    Þess er að minnast, herra forseti, að fræg tvíhöfða nefnd lagði m.a. til að þetta tvöföldunartímabil á línuveiðum yrði fellt niður. Þá náðist ekki samstaða um að afnema ákvæðin þegar frv. var flutt á 117. löggjafarþingi í framhaldi af tillögu nefndarinnar. Þess í stað var lagt til að lögbundið yrði hámark þessarar línutvöföldunar og sú tillaga náði fram að ganga.

    Þetta er til þess fallið, telja margir sem hafa reynslu af línuútgerðum, að leiða til aukins kapps um sókn í línuveiðar án tillits til kostnaðar. Ég tel jafnframt að það séu augljós rök fyrir því að láta útgerðir einstakra skipa meta hvaða veiðarfæri og veiðitími eru hagstæðust en reyna ekki að stýra þessum þáttum með valdboði. Þess vegna legg ég þessa breytingu til, herra forseti.
    Ég legg jafnframt til að þessari viðbótaraflahlutdeild verði skipt milli línuskipanna í hlutfalli við línuafla þeirra á síðustu þremur vetrum, en það er ákveðin hefð fyrir því að miða við þriggja ára tímabil við úthlutun veiðiheimilda.