Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 23:17:26 (902)


[23:17]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram hafa um mest verið málefnalegar, en um leið lýst þeim vanda sem mönnum er á höndum varðandi það úrlausnarefni sem til umræðu er.
    Ég þakka málefnalegar umræður og eins vil ég sérstaklega færa sjávarútvegsnefndarmönnum þakkir fyrir það mikla starf sem þeir hafa unnið varðandi meðferð málsins í þinginu. Öll meðferð þess ber þess merki að hér er verið að fjalla um mjög vandmeðfarið mál og mál sem er erfitt úrlausnar. Það snýst um mikla og viðkvæma hagsmuni og niðurstaðan og umfjöllunin öll hlýtur að bera keim þar af.
    Hér hefur verið á það minnst af einum hv. þm. að nú sé sérstaklega verið að refsa krókaveiðimönnum með því að ákveða heildaraflamark fyrir veiði þessara báta.
    Nú er það svo að það hefur átt sér stað nokkur saga varðandi þróun þessara veiða. Það er ekki lengra síðan en árið 1990 að sett voru lög sem skipuðu veiðum þessara báta með ákveðnum hætti. Þá áttu sæti í ríkisstjórn Framsfl., Alþb. og Alþfl. Þá var ákveðið að veiði þessara báta skyldi vera innan við 3 þúsund lestir og hún skyldi, ef hún ykist á tilteknu tímabili um meira en 25%, breytast yfir í aflahlutdeildarkerfi. Á síðasta ári kom svo aftur til endurskoðunar á þeim lögum og eins og hér hefur verið rifjað upp voru lagðar fram tillögur af svokallaðri tvíhöfða nefnd um að rýmka mjög verulega þau lagaákvæði sem ákveðin voru á vordögum 1990. Fyrstu tillögur um það voru bornar fram af svokallaðri tvíhöfða nefnd, sem laut forustu hv. 5. þm. Norðurl. v. og aðstoðarmanns þáv. hæstv. utanrrh., formanns Alþfl., og fólu í sér að aflamarkið færðist upp í 13 þús. lestir. Í umfjöllun um málið varð niðurstaðan hins vegar sú að miðað var við afla þessara báta á árunum 1992 og 1993 þannig að aflamarkið var sett við 21.500 lestir. Það var ekki vegna þess að menn hafi fundið það út að þar væru þau mörk sem setja ætti vegna þarfar sem fyrir hendi væru heldur með skírskotun til þessarar veiðireynslu.
    Það er deginum ljósara að 1.100 bátar sem þurfa að sæta því takmarki búa við mjög þröngan kost. Hér er um að ræða um það bil 20 lestir á bát að meðaltali og af því má glöggt sjá að sumir mega veiða býsna lítið til þess að aðrir geti veitt með viðunandi hætti til að hafa af því lífsviðurværi. Þar komum við raunverulega að kjarna þessa máls, vandanum sem við stöndum frammi fyrir, að hér er um að ræða mjög marga báta og takmarkaðan afla.
    Það er jafnerfitt núna og fyrir ári fyrir þennan fjölda báta að lifa af 21.500 lesta veiði í þorski. Það hefur ekkert breyst að því leyti á einu ári og þess vegna mjög erfitt um vik að halda því fram í þessari umræðu að nú sé verið að refsa með því að staðfesta þetta aflamark, en það hafi ekki verið raunin á síðasta ári þegar þessi ákvörðun var tekin. Þetta er nauðsynlegt að rifja upp vegna þess að sannleikurinn er sá að allir flokkar í þinginu hafa á að skipa þingmönnum sem hafa tekið ábyrgð á þróun þessara veiða og þeirra lagareglna sem um þær hafa verið settar á undanförnum árum utan Kvennalistinn sem einn hefur enga sögulega ábyrgð í þessu máli. Þetta er ég ekki að rifja upp til þess að gagnrýna þá sem hér hafa talað og eru núna lausir undan ábyrgð en hafa setið uppi með ábyrgðina áður. Ég held að það sé hins vegar nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að hér er um vandasamt úrlausnarefni að ræða og það sést best þegar litið er til baka og ákvarðanir þeirra sem mest belgja sig í þessari umræðu eru bornar saman við þær ákvarðanir sem þeir tóku meðan þeir höfðu ábyrgð. Það sýnir best að vandinn og úrlausnarefnið er ekkert einfalt.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði í umræðunni að frv. eins og það væri orðið væri býsna flókið og ég verð að taka undir þá gagnrýni sem hv. þm. bar fram með mjög málefnalegum hætti um þetta atriði. Því verður ekkert á móti mælt að þau lagaákvæði sem hér eru sett fram eru orðin mjög flókin. Þau bera þess merki að á undanförnum vikum hafa farið fram samningaviðræður sem mótast af ýmsum aðstæðum, af mismunandi hagsmunum innan hóps krókabátamanna, af mismunandi aðstæðum á milli krókabáta og annarra og ýmsum sjónarmiðum sem fram hafa komið í þeim umræðum. Þetta á við bæði efnislega um reglurnar sjálfar og fyrir þá sem eiga að vinna eftir þeim, bæði stjórnvöld og eins fiskimennina sjálfa. Og þetta á auðvitað líka við út frá beinu lagatæknilegu sjónarmiði. Ég held að það væri mikið keppikefli að menn reyndu þegar meiri ró færist yfir umræður að finna einfaldari lausnir á útfærslu þessara leikreglna. Ég er fyrir mitt leyti reiðubúinn til þess að eiga samstarf við Landssamband smábátaeigenda um slíkar athuganir því að ég held að þær séu öllum nauðsynlegar og ef vilji er fyrir hendi er sjútvrn. tilbúið til þess að skoða málin út frá þeim sjónarhóli því að það er ekki hægt annað en viðurkenna að sú gagnrýni á við rök að styðjast að frv. er orðið býsna flókið.
    Ég er þeirrar skoðunar að við höfum smám saman verið að bæta stöðu þessa útgerðarhóps. Það

er enginn vafi á því að lögin sem voru sett í fyrra voru mikil bót frá lögunum sem sett voru 1990 og það skref sem hér er verið að stíga er bót frá banndagakerfinu sem samþykkt var fyrir ári. En ég ætla ekki að halda því fram að hér sé endanleg lausn á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í þessu efni sem eru mjög margir bátar miðað við takmarkaða aflamöguleika. Róðrardagarnir eru framför, en þeir fela líka í sér að þeim dögum fækkar sem menn geta verið að frá því sem er í banndagakerfinu, en menn hafa meira frelsi til þess að velja það. En sá böggull fylgir skammrifi að þeir eru færri. Hér eru engar allsherjarlausnir, en alveg með ótvíræðum hætti er verið að bæta stöðuna frá því sem verið hefði ef lögin frá því í fyrra hefðu verið óbreytt.
    Hér hefur verið fjallað um hvort hækka ætti þetta aflamark. Þegar það var sett fyrir ári voru sjónarmiðin á bak við það þau að miða við aflareynslu bátanna á árunum 1992 og 1993 og menn komust að þeirri niðurstöðu að það væri sanngjarnt að miða við veiðireynslu þeirra ára, að skerða ekki veiðireynslu þessara báta. Á sama tíma höfðu stærri skipin þurft að sæta skerðingu og þess vegna var það að menn settu þetta aflamark fast, að menn sögðu sem svo: Fyrst þessi hópur þarf ekki að sæta skerðingu miðað við veiðireynslu á sama tíma og aðrir gera það er eðlilegt að það festist. Nú erum við vonandi að horfa fram á það, þó að það verði ekki á þessu ári eða næsta fiskveiðiári, að aflaheimildir í þorskveiðum geti aukist á nýjan leik og þá tek ég undir með hv. frsm. sjútvn. að þá er eðlilegt að endurskoða hvort þetta aflamark geti ekki orðið að aflahlutdeild og færst til upp á við í réttu hlutfalli við aukningu á heildarafla. Því miður er ekki að þessu komið, en sem betur fer þá sjáum við fram á þá tíð að það geti orðið fyrr en við ætluðum fyrir ekki löngu. Og jafnvel þó að það gerist höfum við ekki leyst allan þann vanda sem krókabátamenn standa frammi fyrir, jafnvel þó að það gerist. Og við skulum heldur ekki gleyma því að það er allur fiskiskipafloti okkar sem á við vanda að etja. Jafnvel þó að hluti hans hafi getað sótt afla á önnur mið utan landhelginnar sem vissulega hefur létt undir, þá er það svo að það á ekki við um nærri allan þann flota sem er á aflamarki.
    Þess vegna brýni ég fyrir mönnum enn og aftur að reyna að horfa á viðfangsefnin í sjávarútveginum út frá heildarhagsmunum. Það þjónar engum tilgangi þegar útgerðarmenn stærri skipa eru að bölsótast út í krókaveiðimenn og það þjónar heldur engum tilgangi fyrir þá að halda því fram að við höfum litla eða enga þörf fyrir veiðiskap með stærri skipum. Sannleikurinn er sá að við þurfum á þessum fjölbreytta veiðiskap að halda. Við þurfum á krókaveiðum að halda. Við þurfum á afla smábátanna að halda. Við nýtum ekki okkar fiskimið með skynsamlegum hætti nema við höfum öfluga smábátaútgerð, en það vitum við líka að við nýtum ekki þessa auðlind og tryggjum ekki stöðuga atvinnu nema við stöndum vel að öðrum útgerðarrekstri samtímis. Og þess vegna eigum við ekki að vera að ala á sundurþykkju milli þessara hópa. Við eigum miklu fremur að leitast við að tengja þessa hagsmuni saman og skynja að íslenskt þjóðfélag þarf á öllum þessum mönnum að halda og það eru sameiginlegir hagsmunir okkar að styrkja sjávarútveginn í heild sinni.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að lengja þessa umræðu frekar. Ég vil aðeins ítreka þakklæti mitt til hv. þm. sem hér hafa talað fyrir málefnalega umræðu, til nefndarmanna í hv. sjútvn. fyrir góð störf og vona að við getum sameinast um að hér sé stigið skref fram á við þó að það sé alls ekki gallalaust og feli alls ekki í sér neina endanlega lausn þessara mála. En þá er með ótvíræðum hætti verið að bæta nokkuð úr aðstöðu smábáta sem vissulega búa við þröngan kost og erfiðar aðstæður eins og sakir standa.
    Herra forseti. Það er rétt að ég svari fyrirspurnum sem hv. 5. þm. Vesturl. beindi til mín. Um þær vil ég aðeins segja að hvorki ég né þingmenn stjórnarflokkanna hefðum staðið að tillögugerð um þessi efni með þessum hætti ef við hefðum verið þeirrar skoðunar að þær stönguðust á við stjórnarskrá eða alþjóðlega sáttmála sem Íslendingar eru aðilar að. Og því aðeins stöndum við að þessum tillögum að við teljum að þær samrýmist bæði stjórnarskrá og alþjóðlegum sáttmálum.