Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 23:34:41 (904)


[23:34]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þegar fyrri umr. fór fram um þessa tillögu komu fram ítarleg sjónarmið hjá fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna við umræðuna. Þau sjónarmið fólu í sér nokkra gagnrýni á meðferð málsins og jafnframt ósk um að í framhaldi verði hugað rækilega að því að náið samráð verði haft við utanrmn. um þá kröfugerð og stefnumótun sem hæstv. ráðherrar setja fram í formlegum eða óformlegum viðræðum við Norðmenn.
    Ég tel mikilvægt, herra forseti, að hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur verði gert aðvart um að þessi umræða sé hafin vegna þess að þau rituðu undir þetta nefndarálit með fyrirvara og það er ekki alveg víst að þau hafi áttað sig á því að hún sé hafin, en mér er kunnugt um að a.m.k. annað þeirra ef ekki bæði vildu gera stutta grein fyrir sínum fyrirvara.
    Sá fyrirvari sem við höfum varðandi þessa afgreiðslu snýr fyrst og fremst að því magni sem tilgreint er í samningnum. Við höfum verulegar efasemdir um að sú tala sé rétt og teljum þess vegna að mikilvægt sé að árétta rækilega eins og reyndar er gert í samningstextanum og greinargerðinni og í framsögu utanrrh. á sínum tíma hér í þinginu að þessi samningur hafi á engan hátt fordæmisgildi varðandi frekari viðræður milli þeirra þjóða sem hagsmuna hafa að gæta og réttindi eiga gagnvart veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum. Við höfum bæði í umræðunni og eins á fundum utanrmn. gert rækilega grein fyrir þeim rökum sem við flytjum fyrir þessari skoðun okkar og ég tel í sjálfu sér ekki nauðsynlegt að rekja það ítarlega hér, en tel að hæstv. ráðherrum sem og öðrum nefndarmönnum sé nú orðið vel kunnugt um þær röksemdafærslur.
    Ég held einnig að það sé mjög mikilvægt að sá stefnugrunnur sem hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. hafa að leiðarljósi í samskiptum sínum sérstaklega við Norðmenn í þessu máli sé byggður á traustum rökum sem eiga víðtækan hljómgrunn í landinu. Þess vegna kom það sjónarmið fram í nefndinni sem rétt er að árétta hér að það er nauðsynlegt að það fari fram ítarlegar viðræður á næstunni milli viðkomandi ráðherra og nefndarinnar til þess að treysta efnisgrundvöll þeirra röksemda sem samningamenn af Íslands hálfu og einstakir ráðherrar færa fram í viðræðum við erlenda aðila um þetta efni. Ég ætla í sjálfu sér ekki að lýsa nánar hvers vegna við teljum að það sé þörf á slíkri samstillingu, en það er mikilvægt að hún sé áréttuð hér.
    Þess vegna teljum við að í nefndinni hafi verið gefið það fyrirheit að í framhaldi málsins verði náið samráð haft við utanrmn. um kröfugerð Íslendinga, þau sjónarmið sem fram eru sett í bæði óformlegum og formlegum viðræðum við fulltrúa annarra ríkja um þetta efni. Við treystum því að þau fyrirheit sem gefin voru á vettvangi utanrmn. um náið samráð, bæði áður en slíkar viðræður fara fram, meðan þær eiga sér stað og sérstaklega áður en ákveðin niðurstaða er fengin, verði efnd í verki. Það er ríkur vilji af hálfu okkar, sem undirritum þetta nefndarálit með fyrirvara, að hafa traust og náið samráð við fulltrúa ríkisstjórnarinnar um stefnumótum Íslendinga í þessum viðræðum og við treystum því að eftir þær umræður sem fram hafa farið á Alþingi sé það gagnkvæmt.
    Virðulegi forseti. Norsk-íslenski síldarstofninn er ein af mikilvægustu auðlindum sem okkar þjóð hefur getað hagnýtt sér á ýmsu tímaskeiði á þessari öld. Og ef við hyggjum að auðlindum Íslands í náinni framtíð er alveg ljóst að norsk-íslenski síldarstofninn er þar mjög mikilvægur þáttur. Það hefur oft á undanförnum árum verið eytt mikilli orku í stjórnkerfinu í að efna til viðræðna við erlenda aðila um að byggja stóriðjuver eða verksmiðjur á Íslandi með miklum tilkostnaði í þeim efnum og mikilli orku ráðherra, ríkisstjórna, sérfræðinga, stofnana o.s.frv. Ég fullyrði hins vegar að norsk-íslenski síldarstofninn er hvað hagsmuni Íslands snertir á við a.m.k. meðalverksmiðju af því tagi sem menn hafa rætt um og gert sér vonir um í samvinnu við erlenda aðila hvað stóriðnað snertir.
    Það hefur hins vegar ekki verið varið mikilli orku stjórnsýslustofnana, rannsóknarstofnana eða annarra aðila hér heima í að undirbyggja málflutning Íslands í þessu mikilvæga máli. T.d. er það módel sem íslenskir ráðherrar hafa vísað til sem meginrök okkar í málinu ekki ættað frá íslenskum vísindamönnum heldur öðrum. Ég tel þess vegna að það sé mjög mikilvægt að á vettvangi stjórnkerfisins, sérfræðistofnana og annarra, sé gengið þannig frá því að við sinnum þessu máli vel, undirbyggjum okkar rök bæði fræðilega og sögulega og getum þess vegna gengið á vit þeirrar óvissu, sem því miður Norðmenn sérstaklega hafa búið okkur í þessu máli, með traustan málstað.
    Að lokum vil ég árétta það, virðulegi forseti, að það hlýtur að vera meginsjónarmið Íslendinga að þær þjóðir sem hagsmuna hafa að gæta, við, Færeyingar, Norðmenn og Rússar, nái samkomulagi um nýtingu þessarar sameiginlegu auðlindar. Það er satt að segja mjög alvarlegt mál ef Norðmenn halda þannig á málum að þeir komi í veg fyrir að þessar fjórar þjóðir geti náð sameiginlegu samkomulagi um nýtingu þessa stofns og opnað þannig möguleika á því að ýmsar aðrar þjóðir sem eiga þar hvorki sögulegan né siðferðilegan rétt geti reynt að afla sér hans á næstu árum í skjóli þess að þessar fjórar þjóðir hafa ekki getað komið sér saman. Þess vegna er mjög mikilvægt að af hálfu Alþingis sé í umræðum hér og í afstöðu

utanrmn., eins og fram kom í nefndinni, lýst eindreginni kröfu til Norðmanna og annarra um að gengið verði til samninga um nýtingu þessarar auðlindar á næstu mánuðum og missirum.
    Virðulegi forseti. Ég tel mig í örstuttu máli hafa gert mér grein fyrir helstu þáttum þess fyrirvara sem fylgir stuðningi mínum og míns flokks við þann samning sem hér er til afgreiðslu, en tel brýnt að þingið að öðru leyti sameinist um afgreiðslu málsins.