Alþjóðaviðskiptastofnunin

23. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 00:17:46 (913)


[00:17]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Með því frv. sem nú er komið til endanlegrar afgreiðslu er verið að stíga skref í átt til opnari viðskiptahátta með landbúnaðarvörur, skref sem eflaust á eftir að hafa nokkur áhrif á stöðu íslensks landbúnaðar og íslensks viðskiptalífs. Það verður ekki lengur bannað að flytja inn landbúnaðarvörur. En að dómi okkar kvennalistakvenna er þó gengið of langt í tollvernd og girðingasmíði sem mun leiða til afar takmarkaðs innflutnings og þar með koma ekki fram þau áhrif sem til er ætlast með GATT-samningnum. Það er tilgangur þess samnings að ýta undir alþjóðaviðskipti með landbúnaðarvörur og við eigum að standa við þann samning og nýta okkur hann bæði til sóknar og varnar jafnframt því að efla íslenskan landbúnað. Okkur er öllum ljóst að Alþingi verður að ganga frá þessu máli fyrir 1. júlí nk., en frv. er þó þannig útfært, þrátt fyrir breytingar til batnaðar, að ríkisstjórnin verður að bera á því ábyrgð og því munum við kvennalistakonur sitja hjá við afgreiðslu málsins.