Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna

24. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 00:24:21 (918)

[00:24]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir fjallar um sérstaka úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Það á rætur að rekja til þeirra samningaviðræðna sem farið hafa fram að undanförnu milli sjómanna og útvegsmanna. En eins og kunnugt er hefur staðið verkfall á fiskiskipaflotanum um nokkurn tíma.
    Meðal þess sem kjaradeilan hefur snúist um hefur verið ákvörðun fiskverðs til viðmiðunar við hlutaskipti þegar fiskur er ekki seldur á uppboðsmarkaði innan lands eða erlendis. Samningaviðræður gengu erfiðlega og að kveldi 9. júní sl. lagði ríkissáttarsemjari fram miðlunartillögu sem hafði að geyma þau atriði sem deiluaðilar voru þá sammála um en hafði ekki að geyma önnur atriði sem ósátt var enn um á milli aðila.
    Eins og kunnugt er féll miðlunartillagan í atkvæðagreiðslu sjómanna og hafa samningsaðilar sest að nýju við samningsborð. Deilan er á þessu stigi mjög viðkvæm, en ekki talið útilokað að henni kunni að ljúka innan skamms þó ekkert verði um það fullyrt á þessu stigi. Ríkisstjórnin hét því í viðræðum við fulltrúa deiluaðila að lögfesta umgjörð um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og lagði þess vegna sl. mánudagskvöld fram frv. þar að lútandi. Í meginatriðum er gert ráð fyrir að efnisatriði þessa frv. verði óbreytt, en þó munu uppi hugmyndir um í þeim viðræðum sem nú standa að gera nokkrar breytingar sem fyrst og fremst lúta að því að stytta þá fresti sem um er rætt í frv. En samkomulag aðila sem frv. byggir á gerir ráð fyrir því að sé fiskur seldur aðila sem telst skyldur útgerð skuli hún og áhöfn gera með sér samning um fiskverð. Þá er gert ráð fyrir að áhöfn geti krafist að samningur sé gerður við útgerð varðandi fisk sem seldur er óskyldum aðila, enda sé hann ekki seldur á innlendum eða erlendum uppboðsmarkaði. Náist ekki samkomulag um fiskverði í framangreindum tilvikum má skjóta málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar er ákveður fiskverð eftir nánar tilgreindum viðmiðunum.
    Aðilar að kjaradeilunni höfðu eins og ég hef áður greint náð samkomulagi um þessi atriði þegar miðlunartillagan var flutt og byggir frv. alfarið á því samkomulagi. Það hefur verið talið nauðsynlegt að skjóta lagastoð undir þá úrskurðarnefnd sem aðilar voru sammála um að þessu leyti og er frv. flutt til að fullnægja þeim óskum sjómanna og útvegsmanna.
    Ég vísa að öðru leyti til athugasemda við einstakar greinar frv., óska eftir því við hv. sjútvn., er hún fær málið til umfjöllunar, að hún taki til meðferðar þær viðbótarbrtt. sem samningsaðilar kunna að komast að samkomulagi um í þeim viðræðum sem nú standa yfir. En til þess að flýta fyrir afgreiðslu málsins, fari svo að samningar náist sem við hljótum að vona, legg ég til að málinu verði nú að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.