Matvæli

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 10:05:11 (925)


[10:05]
     Kristín Halldórsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér verður vonandi lögfest fyrir þinglok er vissulega nauðsynleg og gagnmerk löggjöf um allt sem lýtur að meðferð matvæla, framleiðslu þeirra, geymslu og dreifingu. Löggjöfin hefur það meginmarkmið að tryggja hagsmuni neytenda á þann veg að þeir þurfi ekki að óttast það að þeir kaupi köttinn í sekknum þegar þeir verða sér úti um matvæli. Löggjöfin er um öryggi og hreinlæti við framleiðslu á að tryggja að kaupendur og neytendur séu ekki beittir blekkingum, t.d. með merkingum á umbúðum, með auglýsingum um vöruna og í öðrum kynningum og upplýsingamiðlun um þessa vöru. Ef til vill færi mörgum á sama veg og þeirri sem hér stendur að þeim þyki þetta óþarflega eða a.m.k. sérkennilega smásmugulegur texti og það verður að segjast eins og er að ég er ekki enn fullkomlega sannfærð um að lagasetningin gæti ekki orðið betri ef við hefðum haft svolítið meiri tíma til þess að liggja yfir textanum.
    Nú er það ekki svo að við höfum ekki gert okkar besta í nefndinni. Margir fundir voru haldnir, miklu fleiri en samkvæmt dagskrá nefndar og margir aukafundir og langir fundir og við spöruðum hvergi ómak að reyna að gera þetta sem best úr garði. En því miður er það svo að textinn sem við fengum í hendur var vægast sagt illa unninn eins og sjá má af öllum þeim breytingartillögum sem umhvn. leggur fram á þskj. 102. Þar er að finna breytingartillögur í 28 liðum og eru margir undirliðir við suma. Ég veit ekki hvort það er met að fram komi 28 breytingartillögur við frv. sem er 32 greinar en ég hygg að þetta sé mjög mikið og það segir sína sögu. Ég hafði raunar sterklega í huga að skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara

og sá fyrirvari var að hluta til efnislegur en fyrst og fremst vegna vinnubragða og þá ekki vegna vinnubragða í nefndinni heldur vinnubragða við undirbúning frv. Vinnubrögð nefndarinnar voru að mínu mati ágæt og valda því raunar að ég hætti við að skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara vegna þess að með góðri samvinnu og sameiginlegu átaki nefndarmanna í hv. umhvn. og eins góðri vinnu og mögulegt var miðað við þær aðstæður sem okkur voru búnar tel ég nokkuð tryggt að niðurstaðan sé sómasamleg. En ég er ekki 100% viss um það.
    Efnislegi fyrirvarinn sem ég minntist á lýtur að einum þætti sem er stjórn og skipan þessara mála eins og fram kemur í III. kafla frv. Það er náttúrlega heldur óhönduglegt og óhentugt að stjórn og skipan þessara mála skuli heyra undir þrjá ráðherra og getur svo sannarlega boðið upp á ómarkviss vinnubrögð nema með alveg sérstökum samstarfsvilja viðkomandi ráðuneyta. Það er ekkert leyndarmál að það var ekki síst vegna þessa fyrirkomulags sem lögð var mjög mikil áhersla á þetta mál og við féllumst á að nauðsynlegt væri að koma þessari löggjöf frá nú sem fyrst og ráðuneytið lagði mikla áherslu á að brýnt væri að setja þessi lög til þess einmitt að tryggja samstarf þeirra ráðuneyta sem fara með stjórn þessara mála. Það er gert með ákvæðum 8. gr. um samstarfsráð sem á að vinna að samræmingu reglna og fyrirmæla um matvæli og matvælaeftirlit. Og er nú vonandi að þau ákvæði sem þar er að finna tryggi eins og kostur er að ekki verði um of mikla skörun að ræða eða ágreining milli ráðuneyta um þessi efni. Við veltum því fyrir okkur hvort væri t.d. eðlilegt að setja í löggjöf að ráð sem hér er lögboðið gefi skýrslu. Ég gaf mér ekki tíma til að kanna hvort það væri venjulegt í lögum að setja slík ákvæði inn en það er eitt af þeim atriðum sem við töldum að gæti kannski tryggt að þetta samstarfsráð yrði góður og markviss vettvangur fyrir það samstarf sem verður að fara fram til þess að þetta gangi sem allra best.
    En ég endurtek gagnrýni mína á það, og það er ekki vansalaust, að bera frv. inn í Alþingi sem er gert úr garði eins og þetta hér, ekki aðeins einu sinni heldur fjórum sinnum því að það er búið að leggja þetta frv. þrisvar fram áður á hv. Alþingi, að vísu án þess að það hlyti mikla umfjöllun. Textinn var í mörgum greinum illa orðaður og vakti iðulega upp spurningar um meiningu svo mér er eiginlega óskiljanlegt hvernig frumvarpshöfundar gátu látið þetta frv. frá sér fara.
    Margar athugasemdir, sem við gerðum og fjölluðum um í nefndinni, lutu að málfari og það vekur þá upp þá spurningu hvort það sé ekki nauðsynlegt að hafa málfarsráðunaut, og jafnvel fleiri en einn, því að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við fáum þingmál til umfjöllunar sem eru ekki á boðlegu máli að neinu leyti, hvorki með tilliti til málfræði eða almenns málfars né heldur sett fram á þann hátt að almenningur geti skilið. Og ég gagnrýni það. Það þjónar ekki beinlínis tilgangi nú að fara lið fyrir lið yfir þær athugasemdir sem vöknuðu og voru settar fram við yfirferð yfir frv. Margar þeirra lutu eins og ég segi að málfari og urðu uppspretta líflegra og fróðlegra umræðna í nefndinni en það hlýtur að vera álitamál hvort tíma nefndarmanna væri ekki betur varið til efnislegrar umfjöllunar. Sumar setningar, sem ollu heilabrotum, vöktu reyndar sannarlega spurningar bæði um málfar og meiningu. Ég ætla aðeins að nefna eitt dæmi, með leyfi hæstv. forseta, og það er í 10. gr. sem hljóðaði svo í frv.:
    ,,Þeir sem framleiða eða dreifa matvælum skulu haga starfsemi sinni þannig að þau skorti ekki eðlilega hollustu eða geti valdið heilsustjóni.``
    Eins og hv. þm. heyra er hér bæði að finna málfræðivillur og auk þess eru ákvæði sem við veltum vöngum yfir. Það hlýtur að vera spurning hvort hægt er að setja svona í lagatexta, enda tókum við það út og breyttum þeim texta, að hægt sé að lögbjóða að matvæli skorti ekki eðlilega hollustu. Og hvað er þá eðlileg hollusta? Við komumst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki boðlegt að setja slíkt í löggjöf. Auðvitað má velta vöngum yfir því hvort hægt sé að setja það í lög að matvæli valdi ekki heilsutjóni. Í þessu tilviki er auðvitað átt við að þau séu ekki bráðdrepandi eða geti valdið alvarlegu heilsutjóni. Það er auðvitað spurning um hvernig matvælanna er neytt. Það er hægt að segja sem svo að borði menn sætabrauð frá morgni til kvölds eru þeir vitaskuld í stórhættu með að verða fyrir heilsutjóni en það er ekki þar með sagt að ef þeir neyta sætabrauðs í hófi séu þeir í mikilli hættu. Það verður að vera á ábyrgð neytandans hvernig hann fer með þá vöru sem veldur ekki endilega heilsutjóni ef menn kunna með hana að fara.
    Við nefndarmenn lögðum okkur fram við að lagfæra frv. eins og kostur var. Ég viðurkenni alveg að ég hefði viljað fá lengri tíma og meira svigrúm til að ígrunda textann því að lengi er von á einum eins og þar segir og við hefðum sjálfsagt getað fundið eitthvað fleira til að breyta og bæta ef við hefðum legið lengur yfir þessu. Það er oft gott að hafa tíma til þess að láta texta liggja og hafa ráðrúm til þess að taka hann aftur upp og fara yfir hann til þess að finna það sem kann að hafa sloppið fram hjá athyglinni í fyrstu yfirferð en ekki er um annað að ræða en að vona að bærilega hafi tekist til enda ítreka ég að hér lögðust allir á eitt og gott samráð var haft við sérfræðinga ráðuneytisins um endanlega niðurstöðu.
    Aðeins að lokum árétta ég það sem kemur fram í nál. á þskj. 101 en formaðurinn las ekki upp þegar hann mælti fyrir nál. og það er að nefndin telur æskilegt að umhvrn. beiti sér fyrir því að unnið verði að samræmingu þessara laga og skyldrar löggjafar sem fyrst, svo sem laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Þetta vil ég leggja áherslu á vegna þess að auðvitað hefði verið æskilegt ef nefndin hefði haft ráðrúm til að bera saman þann texta sem hér verður vonandi lögfestur og texta annarrar löggjafar sem lýtur að þessum málum.