Málefni Brunamálastofnunar

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 10:43:54 (932)


[10:43]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Um langt skeið hafa verið miklir samstarfsörðugleikar milli forstjóra Brunamálastofnunar og stjórnar þeirrar stofnunar og í athugasemdum stjórnarinnar frá 9. maí segir m.a.:
    ,,Að mati stjórnar er ástandið það alvarlegt að stjórnarmenn telja sig ekki lengur geta borið ábyrgð gagnvart ráðherra.``
    Eins og hér hefur komið fram fór Ríkisendurskoðun ofan í þetta mál og lagði fram sína skýrslu. Stjórnarmenn hafa gert ótal athugasemdir við þá skýrslu og á endanum sagði öll stjórnin af sér, svo og fulltrúar í skólanefnd Brunamálaskólans, aðalmenn og varamenn. Það má öllum ljóst vera að í þessari stofnun er eitthvað alvarlegt á ferð. Menn geta deilt um það hvort fatakaup, leigubílaakstur og fleira slíkt sem kemur fyrir í þessum skýrslum sé eðlilegt í rekstri stofnunar, en það hlýtur að gefa auga leið að þegar kjörnir fulltrúar segja af sér allir sem einn þá er eitthvað mikið að. Og ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst þetta mál vera þess eðlis að ekki sé hægt að tala um það af einhverri léttúð heldur þarf að eiga sér stað rannsókn á stofnuninni, alvarleg rannsókn á því hvað þarna hefur verið að gerast og hvernig á því stendur að svona nokkuð kemur upp. Þetta er ríkisstofnun og við berum þar ábyrgð hér á hinu háa Alþingi.
    Að mínum dómi er það m.a. verkefni félmn. að fara ofan í þetta mál og ég hyggst beita mér fyrir því að við förum ofan í skýrslu Ríkisendurskoðunar og köllum til aðila málsins, hvað sem út úr því kann að koma og hvað sem síðar kann að gerast. En ég hvet ráðherra til þess að skoða þetta mál mjög alvarlega. Það gefur auga leið að það er erfitt að fá fólk til að taka sæti í stjórnum á borð við þessa ef ekki er tekið mark á því sem stjórnarmenn segja. Nú ætla ég ekki að fella neinn dóm um það hvað þarna hefur átt sér stað, en enn og aftur, það er greinilegt að þarna er eitthvað mjög alvarlegt á ferð.