Málefni Brunamálastofnunar

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 10:48:26 (934)


[10:48]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Þetta eru alvarleg tíðindi sem berast af vettvangi stofnunarinnar. Þó finnast mér ekki hvað síst alvarleg þau tíðindi sem hæstv. félmrh. flytur okkur hér í dag en mál hans má draga saman í eina setningu: Honum finnst þetta allt í lagi. Og finnst mér nú, herra forseti, sem hið nýja andlit Framsfl. sé farið að bregða yfir sig gamalkunnum hjúp.
    Við vitum það öll að Brunamálastofnun Íslands er mikilvæg stofnun. Hún á lögum samkvæmt að hafa umsjón með brunavörnum í landinu og það er því ljóst að hún er mikilvæg til þess að tryggja öryggi borgaranna, enda má segja að líf liggi undir því að brunavörnum sé sinnt með nægilega ábyrgum hætti.
    Það ósætti sem hefur verið millum stjórnar Brunamálastofnunar og brunamálastjóra hefur ekki farið fram hjá neinum. Stjórnin hefur verið gríðarlega óánægð með störf hans og það liggur fyrir að hann hefur reynt að torvelda henni störfin með ýmsum hætti. Viðhorf hans birtast raunar vel í viðtalinu í Tímanum sem hv. þm. Ágúst Einarsson minntist á hér áðan þar sem hann ræðst á nafngreinda stjórnarmenn og sérstaklega á fulltrúa slökkviliðsmanna. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég tek undir tillögu hv. þm. Ágústs Einarssonar um að brunamálastjóri verði sendur í leyfi á meðan verið er að kanna þetta mál til þrautar.
    Ég tel raunar að ummæli brunamálastjóra um Landssamband slökkviliðsmanna séu þannig að þau ein ættu að nægja til þess að hæstv. félmrh. tæki framtíð brunamálastjóra í núverandi starfi til alvarlegrar íhugunar.
    Hver einasti maður í stjórn stofnunarinnar hefur gert alvarlegar athugasemdir við stjórn stofnunarinnar. Sá listi sem er talinn upp í skýrslu hennar er satt að segja ótrúlegur. Þar eru taldar upp tvígreiðslur, furðulegt aðhaldsleysi varðandi orlof einstakra yfirmanna, þar á meðal brunamálastjóra, ferðalög sem fara fram úr heimildum og verkefni upp á meira en 10 millj. kr. sem er unnið án útboðs eða samninga. Það væri hægt að taka margt fleira til. Sukkið sem birtist í þessum lestri, herra forseti, kristallast e.t.v. best í því að þar kemur fram að brunamálastjóri hefur farið til útlanda á ráðstefnu fyrir stofnunina að sjálfsögðu á kostnað ríkisins, en hann kom aldrei fram á ráðstefnunni. Skipulagsleysið birtist í því að stjórn stofnunarinnar bendir á að tveir hópar hafi verið sendir út á land á sama tíma til að rannsaka sama brunann. Herra forseti. Þetta er svona álíka og ef við þyrftum að hafa tvo félmrh. til að sækja sama póstinn til Brussel.
    Niðurstaða hæstv. félmrh. er hins vegar að bregða skildi til varnar brunamálastjóra og hundsa stjórn stofnunarinnar. Stjórnin er þannig óvirk og það ríkir óvissa um stjórn brunavarna í landinu. Herra forseti. Þó að þetta sé afrek hjá hæstv. ráðherra þá felst þó ekki sýnu minna afrek í því hjá ríkisstjórninni sem með þessari niðurstöðu er líka að gefa aðra yfirlýsingu. Hún er að segja að það sé bara í lagi þó að yfirmenn stofnana ríkisins fari ógætilega með fjármuni skattborgaranna, sólundi því í ferðalög á ráðstefnu sem þeir hafa svo ekki fyrir að mæta á og enginn viti hvað þeir taki sér mikið og gott orlof. Það hljóta að vera fréttir fyrir þá sem rétt geta dregið fram lífið á launum ríkisins.