Málefni Brunamálastofnunar

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 10:51:40 (935)


[10:51]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig gott að geta slegið á létta strengi, ég tala nú ekki um á tímum þegar menn horfast í augu við alvarleg vandamál. 15 manns hafa sagt af sér störfum hjá Brunamálastofnun ríkisins, stjórnin öll og skólanefndin. 26 atriði eru talin upp í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem er um alvarlegar ávirðingar að ræða. Og það eina sem hæstv. ráðherra nefnir er að það hafi verið gerðar

athugasemdir við fatakaup eins starfsmanns.
    Ég ætla ekkert að telja þessi 26 atriði upp. Ég veit að hæstv. ráðherra eru þau vel kunnug. En í það minnsta að nefna það hér að innan Brunamálastofnunar er ekkert eftirlit með innheimtu brunavarnagjalds hjá tryggingafélögum og engin afstemning gerð, að ekkert eftirlit er með fjölda orlofs- og veikindadaga. Og síðan eru yfir 20 millj. nefndar hér sem fara út án samráðs við stjórnina sem á að hafa eftirlit með fjárreiðum stofnunarinnar. Þetta eru þau atriði sem eru talin upp.
    Það er slæmt að hafa ekki nema tvær mínútur, hæstv. forseti, því það er mjög margt að segja. Og það að ætla að fara fram á --- án þess að skoða þessar alvarlegu ásakanir sem fram koma í uppsagnarbréfum þessa fólks og án þess að láta fara fram ítarlegar rannsóknir á þeim atriðum sem þar koma fram --- að ætla þá sisvona að fara fram á nýjar tilnefningar eins og ekkert alvarlegt hafi átt sér stað er fráleitt.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði að hún ætlaði að beita sér fyrir því að félmn. Alþingis tæki upp málið og færi yfir skýrsluna. Það er gott. En þetta er grá skýrsla. Hvað þýðir það? Það þýðir það, hæstv. forseti, og það varðar hæstv. forseta, að alþingismenn fá ekki skýrsluna til yfirlestrar. Við fáum hana ekki. Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi Íslendinga en þar eru tvenns konar skýrslur í gangi: Bláar skýrslur, sem er dreift til Alþingis og við getum lesið yfir, og þessar gráu sem við fáum ekki afhentar þó við förum fram á það, hvort sem við tölum við Ríkisendurskoðun eða ráðuneytið. Þetta er nokkuð sem verður að taka upp á haustþingi að við höfum aðgang að þeim skýrslum sem unnar eru um stofnanir ríkisins af stofnun sem á að vera til þess að leiðbeina okkur um meðferð á fjármálum ríkisins.
    En ég vonast til þess að hæstv. félmrh. muni ekki vanvirða þau bréf sem hafa borist frá þessum 15 aðilum á þann máta sem hæstv. ráðherra gerði hér og fara ofan í kjölinn á málinu og finna hver er hin raunverulega meinsemd í rekstri þessarar stofnunar.