Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Brunamálastofnun

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 10:58:54 (937)


[10:58]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Í þeirri umræðu sem er nýlokið komu fram þær upplýsingar að við værum að ræða m.a. um efni skýrslu Ríkisendurskoðunar sem alþingismenn fengju ekki afhenta og ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvort þetta sé virkilega rétt. Er það rétt að Ríkisendurskoðun, sem heyrir undir Alþingi, geti neitað alþingismönnum um slíka skýrslu?
    Nú upplýsti hæstv. félmrh. það að hann sæi enga ástæðu til að halda þessari skýrslu leyndri og ég fagna því og treysti því að hann muni útvega félmn. skýrsluna þannig að við getum farið ofan í hana. En ég vil gera mikla athugasemd við það ef Ríkisendurskoðun neitar alþingismönnum um slíkar skýrslur. Við getum að sjálfsögðu farið með þær sem trúnaðarmál ef þær eru þess eðlis, en þetta finnst mér alveg fáheyrt og mér var ekki kunnugt um þetta.