Framleiðsla og sala á búvörum

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 11:07:29 (943)


[11:07]
     Ágúst Einarsson :
    Herra forseti. Ég skrifaði undir nefndarálitið sem gert var grein fyrir áðan með fyrirvara og vil þess vegna fara nokkrum orðum um frv.
    Það er í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir að fresta ákvörðun um greiðslumark, sem hefði þurft að taka í haust, til 1. nóv. 1995. Rökin fyrir þessu eru að gefa landbrh. ráðrúm að móta tillögur til lausnar vanda sauðfjárbænda.
    1. gr. frv. fjallar um verðjöfnun á erlendum mörkuðum. Verðjöfnun milli erlendra markaða er í sjálfu sér ekki góð aðferðafræði. Hins vegar eru aðstæður þannig í landbúnaði að það eru einungis nokkur hús sem hafa heimild til slátrunar fyrir erlenda markaði en það koma inn í þetta fleiri sláturhús og þá auðvitað fleiri bændur sem tengjast útflutningi á landbúnaðarafurðum. Fulltrúar Bændasamtakanna tjáðu nefndarmönnum að það mundu skapast vandkvæði við framkvæmd á sölusamningum sem væru í bígerð fyrir næsta verðlagsár ef ekki væri viss möguleiki fyrir hendi til verðjöfnunar. Það er matsatriði hvort þetta sé rétt aðferðafræði við sölu á erlendum mörkuðum að verðjafna á milli markaða. Almennt er talið að svo sé ekki og ég bendi hér á fordæmi innan sjávarútvegsins þar sem eru fjölmörg sölusamtök og þar sem grundvallarreglan er sú að ekki sé verðjafnað milli markaða.
    Það kom líka fram í nefndinni áhugi þeirra aðila sem töluðu við okkur frá Bændasamtökunum að vinna að stofnun sölusamtaka þannig að bændur sjálfir gætu sett sínar reglur um útflutning, og þá verðjöfnun ef menn kjósa slíkt, án atbeina löggjafarvaldsins. Það er hins vegar ljóst að það þarf einhvern aðdraganda til að af slíku megi verða. Ég vil koma til móts við þetta sjónarmið að skapa ekki vandræði á næsta verðlagsári vegna þess að við stöndum frammi fyrir miklu meiri birgðum í haust en við höfum gert áður, þá er rætt um að það þyrfti, ef vel ætti að vera, að flytja út á framleiðsluári um það bil 1--2 þús. tonn. Þetta er mikið magn og það er ekki leyst enn þá, hvorki markaðir til staðar né viðunandi verð nema að litlu leyti til að takast á við þetta vandamál. Þess vegna tel ég eðlilegt að ráðrúm sé gefið til að menn hafi tækifæri til að beita smávægilegri verðjöfnun á næsta verðlagsári.
    Ég vil taka fram að þetta eru ekki háar tölur sem um er að ræða. Þetta gæti hugsanlega verið tilfærsla á um það bil 40 millj. sem er ekki mikið fé. Það er vitaskuld matsatriði hvort það eigi að festa í lög fyrirkomulag sem líklega horfir ekki til bóta í framtíðini, en þar á móti kemur að þetta ákvæði gildir einungis í eitt ár. Á þeim tíma og í trausti þess að Bændasamtökin, bændur og sláturleyfishafar muni reyna að finna sínum útflutningsmálum betur farveg þá tel ég rétt að verða við þessu. Ekki hvað síst þar sem á móti kemur að ákvörðun um heildargreiðslumark verður að liggja fyrir í haust, þessi frestun sem hér er um rætt er til 1. nóv. 1995, því að vandi sauðfjárbænda er mjög mikill. Það er samdráttur í neyslu og það verða miklu meiri birgðir í haust heldur en menn ráða við. Eitt efnisatriði í þessari umræðu sem er ókannað er áhrif heimaslátrunar á þennan þátt framleiðslunnar.
    Það er alveg ljóst að það þarf að taka á vanda sauðfjárbænda með sérstökum hætti í landbúnaðarstefnunni. Það þarf að stuðla að búháttarbreytingum. Það þarf að afnema framleiðslukvóta, það þarf að breyta beinum greiðslum í grænar greiðslur. Ég ætla ekki að setja á langa ræðu um landbúnaðarstefnu. Ég held að það sé í sjálfu sér ekki tímabært en ég vil að það komi skýrt fram að ég tel að útflutningsbætur í því formi sem við vorum með áður komi ekki til greina.
    Ríkisstjórnin hefur ekki stefnu í þessum málum. Hins vegar kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hún ætlar að vinna að þessum málum og vinna að tillögugerð. Mér finnst vera sanngjarnt gagnvart nýjum landbrh. að hann fái ráðrúm til að vinna að þeim tillögum og koma með þær til Alþingis á haustdögum og þá sé tekist á um það hvort samstaða verði um þær tillögur. Ég tel ekki rétt á þessu

vorþingi að menn fari í miklar deilur um þennan mikla vanda sem hér er uppi. Miklu frekar á að gefa hæstv. landbrh. ráðrúm og það vonandi í sem nánastri samvinnu við alþingismenn og þá sérstaklega hv. landbn. til að vinna að tillögugerð við þetta mikla vandamál sem við blasir.
    Í ljósi þess að hæstv. ráðherra er að vinna að tillögugerð í þessum málum sem koma þá til umræðu og skoðunar tel ég rétt að honum sé veitt svigrúm til þess og að þetta frv. nái fram að ganga á Alþingi eins og samkomulag hefur orðið um í hv. landbn.