Framleiðsla og sala á búvörum

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 11:23:04 (946)


[11:23]
     Egill Jónsson :
    Virðulegur forseti. Eins og hér hefur komið fram er ég samþykkur þessu frv. Mér finnst hins vegar rétt að lýsa þeirri skoðun minni, m.a. vegna þess að það hefur nú farið nokkuð fyrir því hér í umræðunni hver væri framtíð íslensks landbúnaðar, að mér finnst þessi tími, einn mánuður frá því að Alþingi kemur saman þar til búið yrði að afgreiða málefni landbúnaðarins, ekki vera langur. Það er álíka langur tími og hefur tekist að koma frv. í gegnum Alþingi hér um bil óbreyttu.
    Eins og menn vita er búvörusamningurinn hluti af búvörulögunum og búvörusamningnum verður ekki breytt öðruvísi en að lögum verði breytt. Ég geri reyndar ráð fyrir því að ríkisstjórnin láti sína stjórnarflokka fylgjast með þessari umræðu. Sérstaklega trúi ég því að formaður landbn. fylgist með henni. En það er ekki langur tími fyrir þá sem kynnu að hafa aðrar skoðanir en koma út úr þessum viðræðum að vinna sínar tillögur á einum einasta mánuði.
    Ég vil líka vekja athygli á því að eins og málum er núna háttað þá er greiðslumarkið ekki nema hluti af þeim vanda sem steðjar að íslenskum landbúnaði og það er útilokað að hugsa sér annað en að í því samhengi verði fjallað um málin í heild sinni. Ég vek t.d. athygli á því sem hér hefur verið minnst á, og hefur reyndar verið rætt í öðru samhengi í þinginu, að íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir miklum breytingum að því er varðar alþjóðleg samskipti og það hefur eðlilega verið tekið einungis einhliða á þeim málum, þ.e. breytingu á viðskiptaþætti landbúnaðarins. Það hefur hins vegar ekki verið fjallað um það hvernig landbúnaðurinn á að takast á við þær breytingar. Þannig að mér sýnist að það sé ýmislegt sem er ófjallað um.
    Út af fyrir sig þarf ég ekki að kvarta þó tíminn sé ekki lengri en einn mánuður af þingtímanum því að ég hef nú flutt þessi mál hér inn í þingið áður. En ég vek hins vegar athygli á því að tímasetningin er einn mánuður samkvæmt þessu sem Alþingi er gert að gera upp sín mál. Því eins og ég hef áður lýst þá er búvörusamningurinn lögtekinn í búvörulögunum og það horfir að því leyti öðruvísi við núna heldur en var þegar búvörusamningurinn var gerður. Þá lá heimild landbrh. fyrir í lögum óskilyrt. Nú hins vegar hafa þær breytingar verið gerðar eftir lagabreytinguna 1991 eða 1992, ég man nú ekki hvorum megin áramótanna það var, að þessum samningi verður ekki breytt nema breyta lögum og til þess þarf atfylgi Alþingis.
    Hér hefur verið talað um kosti þess fyrir bændur að breyta dagsetningunni yfir í 1. nóv. Í því sambandi hefur verið minnst á orðsendingu frá stjórn Búnaðarsambands Vestur-Húnvetninga. Ég er ekki alveg viss um að menn skilji þá orðsendingu rétt, m.a. ekki sá hv. þm. Norðurl. v. sem hér talaði áðan. Það vildi nú svo til að formaður búnaðarsambandsins talaði við mig rétt áðan og höfum við nú reynar oft talað saman og ég þekki býsna vel hans skoðanir. Við störfuðum saman sl. fjögur ár í stjórn Búnaðarfélags Íslands. Áhyggjur stjórnar Búnaðarsambands Vestur-Húnvetninga koma ekki til vegna þess sérstaklega að þeir telji nauðsynlegt að haga ásetningi út frá því sem kann að ráðast af greiðslumarkinu. Þeirra áhyggjur byggjast einfaldlega á því hvort bændum verði gert mögulegt að búa við þessa grein áfram þannig að hægt sé að skera niður bústofninn með tilliti til þess að það verði enginn grundvöllur fyrir rekstri í þessum búskap eins og ekki er um þessar mundir. Áhyggjur og orðsending stjórnar Búnaðarsambands Vestur-Húnvetninga byggist einfaldlega á þessu.
    Það er engin furða þó að þessir bændur sem lifa nær eingöngu af sauðfjárrækt og landinu sínu hafi áhyggjur. Það er nú þessa síðustu daga sem snjóa og klaka er að leysa af túnum þeirra og þá kemur það í ljós a.m.k. mjög víða að stór hluti af ræktunarlöndum þar nyrðra er helkalinn. Þess eru dæmi að bændur á því svæði séu farnir að undirbúa það að sækja slægjur suður yfir Holtavörðuheiði. Og það eru ekki einu sinni til í landinu núna virk jarðræktarlög. Þannig að menn geta ekki gripið til þess ráðs í skjóli þess stuðnings sem bændur hafa þó notið í þeim efnum að stóla á þá lagagrein. Við kunnum reyndar þá sögu hvernig var farið með á síðustu árum þegar slíkur vandi steðjaði að en þá var gengið til þess ráðs að fá peninga úr Bjargráðasjóði og koma þeim þannig bakdyramegin inn í þessi verkefni.
    Það er af þessari ástæðu og þessum almennu viðhorfum sem stjórn Búnaðarsambands Vestur-Húnvetninga sendi þessa aðvörun frá fundi sínum sem hún hélt í gær. En það breytir ekki því að menn geta klárað þessi mál á einum mánuði hvernig sem þeir kunna að ætla að taka til þeirra. Ég legg hins vegar áherslu á að það er slík vá fyrir dyrum sem auðvitað þetta erfiða vor hefur enn bætt á að það hvernig ræðst með sauðfjárbyggðirnar verður ekki klárað með einu tilteknu greiðslumarki. Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi hér fram.

    Ég fagna því ef menn sjá sér fært að vinna þann þátt þessara mála sem óhjákvæmilega snýr að Alþingi á einum mánuði. Ekki skal standa á mér að vinna með þeim hætti. Ég ber hins vegar saman mánaðarvinnuna núna og þau miklu verkefni sem fram undan verða eftir að nýtt þing kemur saman.