Framleiðsla og sala á búvörum

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 11:35:34 (948)


[11:35]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í þessar umræður. Þetta mál þarf að fá afgreiðslu og tíminn er skammur. En ég vil segja það út af orðum hv. þm. Egils Jónssonar, sem lýsti hér ágætlega erfiðleikunum og ástandinu og þarf í sjálfu sér engu við það að bæta, hvort tveggja kemur til bæði miklir erfiðleikar sem fyrir lágu og fyrirséðir hafa verið um nokkur ár í sauðfjárræktinni og síðan erfitt árferði og harðindi. Varðandi hins vegar það að Alþingi sé naumur tími skammtaður til að taka á sínum þætti þessa máls þá hef ég ekki áhyggjur af því. Það á ekki að verða mönnum neitt vandræðamál að afgreiða hér nauðsynlegar lagabreytingar ef til koma vegna breytinga á búvörusamningi eða öðrum þáttum hvort sem það er á einni viku eða einum mánuði. Aðalvandinn er sá að það vantar stefnu um það hvernig eigi að taka á þessum málum. Það snýr að ríkisstjórn sem er viðsemjandi bænda og hv. þm. hefur verið stuðningsmaður ríkisstjórna nú um 4--5 ára skeið og flokksbróðir hans, hæstv. núv. samgrh., fyrrv. landbrh., hefur farið með þessi mál í 4 ár og nú styður hv. þm. aðra ríkisstjórn þar sem núv. hæstv. landbrh. fer með þessi mál.
    Það sem ég legg fyrst og fremst áherslu á er það að menn noti tímann til að móta stefnu og reyna að ná samningum og niðurstöðu um það hvað eigi að gera. Þá mun okkur ekki verða neitt að vanbúnaði að afgreiða það sem til þarf á haustþingi, það verður ekki vandamál, ekki þröskuldur, hv. þm., heldur hitt að ríkisstjórn móti stefnu og taki um það ákvarðanir hvaða fjármuni menn eru tilbúnir til að leggja í nauðsynlegar aðgerðir í þessum efnum því það er óhjákvæmilegt og leggi málin þannig vel undirbúin og skýrt afmörkuð fyrir þing að þau séu afgreiðsluhæf á skömmum tíma. Og ég held að það væri nær fyrir hv. þm. að hafa áhyggjur af þeim þætti og leggja kapp á það að ríkisstjórn sem hann styður vinni ötullega að málunum þannig að þau verði tilbúin til afgreiðslu hér á hausti komanda. Það er óhjákvæmilegt að tekið verði á þessum málum og þau unnin til enda í sumar þannig að hægt verði að afgreiða niðurstöður í þeim efnum á haustþinginu og þó fyrr hefði verið. Því það er svo að fyrri ríkisstjórn lét þessi mál öllsömul fljóta sofandi fram hjá sér og því erum við að komast í þann eindaga með málin eins og raun ber vitni. Þess vegna þarf að afgreiða lagaheimildir til handa núv. hæstv. landbrh. um fresti þannig að hæstv. ráðherra geti hugsað sig um og fengið tíma til að vinna málin vegna þess að þau voru ekki á nokkurn hátt undirbúin af hálfu fyrrv. ríkisstjórnar.