Framleiðsla og sala á búvörum

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 11:38:35 (949)


[11:38]
     Egill Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi síðasta ræða gefur reyndar ekki mikið tilefni til andsvara. Það er þó eitt efnisatriði sem skiptir þar máli og reyndar afskaplega miklu máli og það er að bændasamtökin sjálf óskuðu ekki eftir endurskoðun á búvörusamningnum fyrr en í marsmánuði sl. Það sem kannski er þó enn þá meiri ástæða til að komi hér fram er að fyrrv. landbrh. leitaði eftir endurskoðun á þessum samningi. M.a. lagði hann fyrir síðasta aðalfund Stéttarsambands bænda, sem haldinn var í ágúst á sl. sumri, þrjár breytingar á grundvelli búvörusamningsins og þeim var hafnað nema einni þeirra sem var langlítilfjörlegust. Það hafa því ekki staðið nein efni til þess að endurskoða þennan samning. Annar samningsaðilinn, bændasamtökin sjálf, hafa ekki viljað slíka endurskoðun fyrr en núna rétt fyrir síðustu alþingiskosningar. Ég hygg að það hafi verið svona mánuður í alþingiskosningar þegar á þeim bæ var tekin ákvörðun um að leita eftir endurskoðun á samningnum. Og hæstv. núv. landbrh. hefur ekki haft nema það svigrúm sem er liðið frá því

að hann tók við þessu starfi.
    Það má vel vera að menn geti borið það mikið traust til ríkisstjórnarinnar að hún verði með það fullbúna pappíra og ágreiningslausa að ekki þurfi nema stuttan tíma til að afgreiða þá og því fagna ég sannarlega en fyrir fram ætla ég ekki að gefa mér neitt fastákveðið í þeim efnum þannig að ekki þurfi að koma til atbeini Alþingis og á það geti þá reynt hvort á þær mörgu góðu áréttingar, sem hafa komið fram um þessi efni á því þingi sem nú er senn að ljúka, þurfi ekki að láta reyna þegar þingið kemur saman á nýjan leik.